Sorpmál í Eyja- og Miklaholtshreppi

Eggert Kjartansson

Lengi vel voru gámar staðsettir í sveitarfélaginu þar sem sett var í heimilissorp. Um mitt síðasta kjörtímabil voru gámarnir teknir og komið með tvö kör á heimili, annað fyrir almennt sorp og hitt fyrir endurvinnslu.

Það var síðan í upphafi þessa kjörtímabils sem ákveðið var að setja gáma í sveitarfélagið aftur tímabundið til að fólk gæti gert hreinsunarátak og þar með komið stærri hlutum frá sér. Þeir sem eru með körin heima greiða um 45.000 krónur á ári en hreinsunarátakið er kostað alfarið af sveitarfélaginu. Öllum eigendum eigna stendur til boða að fá kör og er losað úr þeim á tveggja vikna fresti yfir sumarið og mánaðarlega yfir veturinn.

Nú í tvö ár hefur verið átak í gangi á sunnanverðu Snæfellsnesi með aðkomu Svæðisgarðs Snæfellsness þar sem gámar hafa verið staðsettir í sveitarfélögunum og meiningin var að vera með þá í kringum 20 daga. Að beiðni fyrirtækis í sveitinni komu gámarnir fyrr í Eyja- og Miklaholtshrepp en til stóð. Vegna góðrar þátttöku í verkefninu bæði í Eyja- og Miklaholtshreppi og Snæfellsbæ lauk hreinsunarátakinu ekki fyrir en komið var vel fram í júlí. Hafði það þá staðið yfir í um tvo mánuði og frábært hversu íbúar og eigendur eigna tóku þátt í því.

Það er auðvitað val hvers og eins hvort hann nýtir sér þessa þjónustu eða keyrir sorpið í önnur sveitarfélög. Sá á kvölina sem hefur völina. Það virðist hins vegar vera lenskan, að þar sem eru gámar, að annað hvort hittir fólk ekki í gámana eða telur að úr því að það koma aftur gámar að ári sé það í lagi að henda á svæðið rusli „milli mála“ ef ég má orða það svo. Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps hefur rætt hvernig eigi að bregðast við og mun halda áfram að skoða það mál. það gengur allavega ekki að fólk setji ruslið á svæðið þar sem hafa verið gámar.

Spurningin er hvort við eigum bara að hætta alveg með gámana – vera með starfstöð og láta fólk greiða fyrir að losa sorpið, eða biðja fólk einfaldlega að ganga betur um, nú eða eitthvað annað ? Já – sá á kvölina sem á völina.

 

Eggert Kjartansson

Höf. er oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps.

Fleiri aðsendar greinar