Sorgleg sölumessa úr verstu átt

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Hún var sorgleg sölumessan í Borgarnesi sem við landeigendur og hagsmunaaðilar mættum nauðbeygð á í liðinni viku. Erlendu stórfyrirtækin með íslensku húskarlana í forsvari hafa bundist samtökum undir heitinu Vestanáttin eða Versta áttin. Það verður að segjast að þarna innan um og saman við bregður fyrir kunnuglegum andlitum úr fjármálahruninu. Og Verstu áttina leiðir svo loftslagssérfræðingur ríkisstjórnarinnar, Vilhjálmur Egilsson. Þar með ógildir hann sjálfur sitt eigið grænbókarþvottaplagg sem hann útbjó fyrir stjórnvöld á liðnum vetri. Í þeim pappír var hrópað á 125 prósenta aukningu í raforkuframleiðslu núna eða strax í þágu loftslags og náttúru.

Vilhjálmur sagðist þó aðspurður á fundinum vera þarna fyrst og fremst sem ellilífeyrisþegi og það er kannski táknrænt fyrir það hverjir eru að móta framtíðina. Þetta Verstu-áttar samstarf fer af stað til að berja á nærsamfélaginu, vinna í litlum sveitarstjórnum, selja þvælu og bæla andóf.

Mikil og öflug meirihluta andstaða er á heimavellinum við því að breyta löndum okkar, dölum og hlíðum í Borgarfirði í iðnaðarsvæði og það verður ekkert gefið eftir. Norðurá, Kjarrá og Þverá eru meðal fegurstu laxveiðiáa Evrópu. Á milli Þverárhlíðar og Norðurárdals eru víðerni í alfaraleið, heiðavötn og ósnortið heiðaland sem er einstakt á heimsvísu. Friðlýst náttúruvætti eru þarna upp og niður sveitir, fjallasýn og hraunbreiður sem prýtt hafa borgfirsku póstkortin áratugum saman.

Að minnsta kosti þrír blautir draumar um vindvirkjanir og iðnaðarsvæði eru á teikniborðum þessara lukkuriddara fyrir Norðurárdal og Þverárhlíð. Á fundinum í Borgarnesi var reynt að höfða til þess að fólk yrði að færa fórnir svo Kínverjar hætti að brenna kol og svo Norðurál megi stækka og vaxa sem atvinnuskapari í héraði. Norðurál þarf náttúru og ef illa fer þá verðum við kannski að nefna dalinn uppá nýtt: Norðurálsdalur. Og höfum á hreinu að Borgfirðingar eru svo sannarlega að taka þátt í breyttum og auknum orkuflutningi á landsvísu. Fólkið á umræddum slóðum stendur nú þegar í viðkvæmum samningaviðræðum við Landsnet um nýja Holtavörðulínu í gegnum lönd jarðanna. Það eitt er nógu stórt framlag.

Þarna í sölumessunni var talað niður til heimafólks, ýjað að því að það gæti fengið vinnu við að sinna vindmyllum og talað um að það kæmu einhverjir aurar í kassa sveitarfélagsins. Ungur hagfræðingur frá Dílott greiningarfyrirtækinu flutti sitt eigið keypta álit sem lukkuriddararnir og erlendu fyrirtækin hafa greitt fyrir og útvegað efnivið og upplýsingar til. Sú skýrsla var ekki pappírsins virði þar sem hún tók ekki inn stærstu breyturnar. Stóra breytan náttúran sjálf var ekki til mats, gildi hennar og gersemi fyrir framtíðina og fólkið sem er ekki fætt ennþá og líka fyrir fólkið sem lifir á staðnum í náttúrunni og núinu. Ekkert um það hjá Dílott.

Og þá er nú hin breytan risastór. Það er fólkið og fyrirtækin á svæðinu, upp og niður dalinn. Fólk sem á og rekur sín eigin stórfyrirtæki, landverndar og skógræktarfyrirtæki til að búa í haginn fyrir framtíðar náttúru- og menningartengda ferðaþjónustu, hótel- og veitingarekstur, verðlaunabýli sem hafa verið rekin mann fram af manni, háskóli sem státar af því að vera á náttúruminjaskrá og gerir út á að vera skólasamfélag í náttúruparadís. Þá eru þarna um allar sveitir landsvæði sem verið er að þróa fyrir sumarhúsabyggðir, margvíslega lífræna ræktun og hvaðeina. Fólkið í dalnum og undir hlíðinni og um allt hérað á sín fyrirtæki og er með sín eigin áform sem eru ekki ómerkilegri en áform Helga Hjörvars á Hafþórsstöðum og Ólafs Ólafssonar á óðali feðra sinna í Hvammi. Og þau eru ekki ómerkilegri en gráðugu stórfyrirtækin frá Noregi sem þurfa að sækja á önnur mið þar sem það er orðið svo heitt undir þeim í heimalandinu. Þá eru þessi fyrirtæki í heimabyggð ekki ómerkilegri en draumar, vonir og þrár Tryggva Þórs Herbertssonar, Friðjóns Þórðarsonar, Ketils Sigurjónssonar og allra þeirra sem merkja nú þúfur og vilja breyta sveitum annars fólks í iðnaðarsvæði án tillits til þeirra áforma sem heimafólk hefur.

Já, heimafólk er lykilorðið. Ég spyr mig líka hvernig mönnum líður sem ætla að kljúfa samfélög og halda sínu striki þrátt fyrir andóf og reiði heimafólks og hvort að þeim sé sama? Þeir fengu enda þá spurningu í Borgarnesi og kusu að svara henni ekki. Það er deginum ljósara að stjórnmálaflokkar þurfa að halda krísufundi á landsvísu um þessi mál og senda svo skýr skilaboð heim í héröðin svo sveitarstjórnarfulltrúar standi vörð um hagsmuni íbúa en ekki stórfyrirtækja úti í heimi. Einhver sagði í þessu ferli: Mundu samt að þetta er ekkert persónulegt. Það sat í mér. Því í raun er þetta mjög persónulegt. Það verður varla persónulegra. Þarna eru erlend stórfyrirtæki og húskarlar þeirra með mikið fjármagn á bak við sig að ásælast það sem okkur er kærast; náttúru og land. Þeir víla ekki fyrir sér að grafa undan tilvist fólksins í sveitinni, nágranna, vina og fjölskyldna og fyrirtækja í heimabyggð. Og auðvitað tökum við til varna fyrir allt það sem okkur er kærast. Það verður ekki persónulegra.

 

Kristín Helga Gunnarsdóttir