Sönn saga af skipulagsmálum í Borgarbyggð

Ásgeir Sæmundsson

Í eftirfarandi frásögn langar mig að lýsa þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið hjá sveitarfélaginu Borgarbyggð við gerð deiliskipulags og auglýsingar á því. Upphafið má rekja til ársins 2009 er faðir minn, Sæmundur Ásgeirsson, kaupir gamalt hús í uppsveitum Borgarfjarðar og landsskika í kringum það ári síðar. Hugmyndin var að gera þarna fjölskyldureit, þar sem meðlimir gætu komið sér upp sumarhúsum á landinu og gamla húsið yrði einskonar samkomuhús.

 

Upplogið deiliskipulag
Í júlí árið 2016 sjáum við í fundargerð Borgarbyggðar að rúmu ári áður, eða í júní 2015, hafði deiliskipulag fyrir safn verið samþykkt á aðliggjandi landi. Jafnframt kemur fram í fundargerðinni að faðir minn sé umsagnaraðili að skipulaginu þótt þessi tíðindi væru nýmæli fyrir hann. Í téðu skipulagi eru tilgreind bílastæðin inn á okkar landi og önnur sem sem loka myndu aðkomunni að húsi okkar. Við frekari eftirgrennslan kemur í ljós að sveitarfélagið hafði leitað umsagnar allra umsagnaraðila nema föður míns. Jafnframt kom í ljós að í B-deild stjórnatíðinda hafði landið verið auglýst undir öðru nafni og landnúmer en gildir fyrir téðan skika og í ekkert landlýsingu sem benti til þess hvað væri verið að auglýsa. Fundgerðir sveitarfélagsins vegna þessa máls voru ekki gerðar opinberar fyrr en 13 mánuðum eftir birtingu auglýsingar, en kærufrestur er 12 mánuðir. Óneitanlega vakna spurningar um hverju það sæti. Eftir spurningar frá okkur feðgum voru fundargerðir færðar til í fundargerðabókhaldi sveitarfélagsins og hér vakna einnig spurningar um lögmæti þess.

 

Úrskurðarnefnd hlítir ekki úrskurði Umboðsmanns Alþingis
Í framhaldinu, sama ár, var málið kært til úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála, ÚUA sem vísar málinu frá á þeim forsendum að kærufrestur sé liðinn og neitar okkur um endurupptöku, þegar eftir því var leitað. En í kærunni höfðum við einnig krafist að þær litlu framkvæmdir sem hafnar voru yrðu stöðvaðar á meðan beðið væri eftir niðurstöðu. Umboðsmaður Alþingis tók málið fyrir í desember 2016 og krafðist með úrskurði í október 2017 að ÚUA tæki málið upp aftur, ef faðir minn óskaði þess, sem hann gerði. Rök umboðsmanns voru þau að þar sem verulegir annmarkar væru á fyrri úrskurði ætti ÚUA að flýta meðferð málsins. Það tók nefndina fimm mánuði að samþykkja að fylgja eftir fyrirskipunum umboðsmanns og enn er beðið eftir niðurstöðu.

 

Framkvæmdir hafnar án byggingastjóra eða teikninga
Í janúar 2018 var leitað til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar og óskað eftir yfirliti vegna framkvæmda á svæðinu. Þá kom í ljós að enginn byggingarstjóri eða iðnmeistari var skráður hjá sveitarfélaginu á þetta verk. Engar teikningar voru tiltækar af þeim húsum sem voru í byggingu, engin byggingaleyfi skráð og engar úttektir var að finna hjá fulltrúanum sem lauk samtalinu á þá lund að hann hefði ekki tíma til að standa í svona málum, við feðgar gætum fengið gögnin hjá Umboðsmanni Alþingis. Síðar kom í ljós að teikningum fyrir annað húsið, sem var í byggingu, var skilað inn 12. mars 2018, tæpum tveimur árum eftir að framkvæmdir hófust og engri teikningu hefur verið skilað fyrir hitt húsið.

 

Sitthvað er Jón og séra Jón
Kjörinn fulltrúi sveitarfélagsins tjáði okkur feðgum í tölvupósti að barátta okkar við að reyna að fá leiðréttingar, tefji fyrir að skipulagsbeiðni okkar verði tekin fyrir. Skilja má þessi orð á þann veg að viðkomandi sé að viðurkenna að utanaðkomandi öfl ráði því hvaða mál séu tekin fyrir hjá sveitarfélaginu.

Starfsmenn og kjörnir fulltrúar Borgarbyggðar hafa eytt milljónum af almannafé í lögfræðikostnað til að reyna að réttlæta ólöglegar gjörðir í skipulagsmálum. Eru svona vinnubrögð í samræmi við vilja íbúa?

 

Ásgeir Sæmundsson.