Sólin kemur alltaf upp aftur

Hildur Sveinsdóttir

Ég er þeirra lukku aðnjótandi að hafa fengið að alast upp í fallegri sveit innan um há fjöll við kyrrlátt vatn í friði og ró.

Nema sé norðanátt.

Það er nefnilega þetta með norðanáttina.

Ég hef oft hugsað að þegar á brattann er að sækja, þegar lífið er ekki alveg að ganga þá er eins og norðanáttin sé með sínum hryssingskulda að naga inn að beini. Á móti vindi þarf þó að halda áfram og bölvandi tökum við því sem höndum ber.

Verkefni okkar í þessu lífi eru misjöfn og mörg, gleðileg jafnt á við að geta verið hrútleiðinleg.

En eins og vera ber eigum við að taka þessum verkefnum með bros á vör eða hvað?

Er ekki bara allt í lagi að segja stundum skítt með þetta og vera bara ekki allt í fína?

Má ekki bara vera drullu erfitt og viðurkenna það. Viðurkenna að að okkar líðan er allskonar alveg eins og veðrið. Erfið eins og helvítis norðanáttin.

Það er nefnilega þannig að við þurfum að hlúa að okkur stundum. Viðurkenna að okkur líði illa, koma því frá okkur þó það sé ekki nema að ræða málin við holtasóley úti í haga.

Það eru engin veikleikamerki að viðurkenna vanlíðan sína en sýnir styrk að leitast eftir aðstoð.

Það að mæta sér þar sem maður er og sýna sér mildi ætti að vera jafn sjálfsagt og það að sólin sest og kemur upp aftur.

Það er nefnilega málið að sólin kemur alltaf upp aftur þrátt fyrir bannsetta norðanáttina.

 

Hildur Sveinsdóttir