
Sól slær silfri á voga, sjáðu jökulinn loga
Sigurbjörg Ottesen
Hugleiðingar um sameiningarmál á Snæfellsnesi
Kosning um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar var felld snemma árs 2022. Í kjölfar þeirrar sameiningarkosningar og samhliða sveitarstjórnarkosningum sama ár var framkvæmd skoðanakönnum meðal íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi um sameiningarmál. Afgerandi niðurstaða þeirrar skoðunarkönnunar var vilji íbúa sveitarfélagsins til að sameina Snæfellsnes allt í eitt sveitarfélag.
Á Snæfellsnesi voru skráðir 3.904 íbúar í fjórum sveitarfélögum; Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Sveitarfélaginu Stykkishólmi og Eyja- og Miklaholtshreppi, þann 1. janúar 2025 skv. Hagstofunni.
Í þessum fjórum sveitarfélögum eru eðlilega fjórar kjörnar bæjar- og sveitarstjórnir. Kjörnir eru 26 fulltrúar til setu í þessum bæjar- og sveitarstjórnum. Ásamt þessum 26 kjörnu bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúum eru varamenn og aðrir fulltrúar kjörnir í nefndir og ráð sveitarfélaganna. Þrír bæjarstjórar og einn oddviti eru starfandi á svæðinu.
Rekstur þessara fjögurra sveitarfélaga er vissulega ólíkur en viðfangsefnin eru þó allmörg þau sömu. En ólíkur rekstur er jú aðeins áskorun, ekki eitthvað til að hræðast. Ég efa ekki að allir kjörnir fulltrúar á Snæfellnesi ganga fram með það í huga að gera samfélag sitt sem allra vænlegastan kost til að búa í.
Á Snæfellsnesi blómstrar fjölbreytt atvinnulíf. Sjávarútvegur, ferðaþjónsta, skólaþjónusta, heilbrigðisþjónusta, landbúnaður og lengi mætti telja. Öflugt lið bakvarða svæðisins hvert sem litið er, sem starfa samfélögum sínu til heilla.
Snæfellsnes er ótvírætt eitt atvinnusvæði. Gott dæmi um það þá eru starfsmenn Fjölbrautaskóla Snæfellinga búsettir í öllum sveitarfélögunum fjórum.
Samvinna sveitarfélaganna fjögurra á Snæfellsnesi á sér vissulega langa sögu og hefur verið talsverð í gegnum árin. Helsta samstarfsverkefni sveitarfélaganna er Byggðasamlag Snæfellinga en þar undir eru m.a. sameiginleg verkefni eins og Earth Check vottunarverkefnið, Byggðasafn Snæfellinga (Norska húsið), Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga og síðast en ekki síst, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes.
Með þau kraftmiklu samfélög sem að eru á Snæfellsnesi, öflugt atvinnulíf, fjölbreytta þéttbýliskjarna, blómlegar sveitir og æskuna sem að hér býr og mun vonandi búa hér í framtíðinni þá tel ég að við getum gert Snæfellsnes enn nú öflugra, öll saman sem heild.
Þó ég ætli nú ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að „sundraðir föllum vér,“ þá held ég að það megi alveg segja að „sameinaðir stöndum vér.“
Kæru nágrannar og vinir; er kannski lag nú um stundir til þess að við Snæfellingar veltum því fyrir okkur að snúa bökum saman – látum hreppapólitíkina til hliðar og stöndum saman sem aldrei fyrr, í einu öflugu sveitarfélagi hér á Snæfellsnesinu magnaða?
Sigurbjörg Ottesen
Höf. er oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps