Sól rís á ný

Guðjón S Brjánsson

Í sannleika sagt, þá er það tæplega svo að jafnaðarmenn séu búnir að ná áttum eftir nýliðnar kosningar. Enn velta karlar og konur vöngum yfir niðurstöðum og því afdráttarlausa hruni sem er veruleikinn í okkar röðum. Reykjavíkurkjördæmin bæði og Suðvesturkjördæmi eru auðnin ein, rjúkandi rústir. Takmark okkar um að verja þingsæti jafnaðarmanna í Norðvesturkjördæmi náðist reyndar og það eitt er gleðiefni.  Í ljósi þeirra góðu málefna sem leitast var við að kynna, þeirrar miklu vinnu sem fjölmargir lögðu á sig í sérkennilegum og stuttum aðdraganda, þá leitar mjög á hugann hvernig það megi vera, að svona sé komið fyrir jafnaðarmönnum á Íslandi.

Fyrir höndum er umræða um þetta í okkar hópi og gagnrýnin skoðun á þeim tilvistarvanda sem við blasir. Í kosningabaráttunni var hverjum steini velt við í leit að lausnum okkur til framdráttar og til þess að vekja athygli á hugsjónum okkar, stefnu og markmiðum. Allt kom fyrir ekki, jafnaðarmenn ganga fáliðaðir til þings að þessu sinni en staðráðnir í að vinna baráttumálunum framgang og leitast við að hafa áhrif í öllum þeim áherslumálum sem við kynntum í kosningabaráttunni, umbótum í þágu venjulegs fólks.  Efst í huga eru auðvitað þau mál sem snerta barnafjölskyldur, eldri borgara og öryrkja sem höllustum fæti standa. Þetta var rauði þráðurinn í málflutningi okkar, að auka réttlæti og sanngirni í samfélaginu.  Sumir flokkar lofuðu miklu í þessu sambandi og við munum halda þeim við efnið.

Ég vil þakka af heilum hug öllum þeim sem lögðu okkur lið með stuðningi í kosningunum, við undirbúning og í aðdraganda. Stuðningsmenn og sjálfboðaliðar lögðu margir nótt við dag og unnu dýrmætt starf. Fyrir öll hin góðu samskipti, ný kynni við fjölmarga og mikla fórnfýsi af þeirra hálfu er ég þakklátur. Við látum ekki deigan síga, drögum lærdóm af sérkennilegri og erfiðri reynslu, nýtum vel þau spil sem við höfum á hendinni, höldum áfram og eflumst á ný.

Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður

Fleiri aðsendar greinar