Í sóknarhug fyrir landsbyggðina

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarni Jónsson

Við berjumst fyrir byggðajafnrétti og réttindum fólks til að geta notið þjónustu, óháð búsetu. Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu er þar á meðal grundvallarmannréttinda sem allir eiga að njóta. Þá eru góðar samgöngur, fjölbreytt atvinna og menntun og öflugt skólastarf á öllum stigum forsenda eflingar búsetu og sóknar fyrir landsbyggðina.

Háskólar- framhaldskólar- grunnskólar- leikskólar

Í kjördæminu eru þrír háskólar; á Hvanneyri, Hólum og Bifröst, öflug háskólasetur; á Ísafirði, Snæfellsnesi og Hólmavík, auk fjölmargra rannsóknasetra og símenntunarstöðva. Við eigum einnig góða framhaldsskóla og dreifnámsdeildir sem hefur þurft að berjast fyrir og berjast enn fyrir tilverurétti sínum. Hvorutveggja eru nú fjársveltir af stjórnvöldum og frekari tækifæri til að nýta þá enn frekar við uppbyggingu og styrkingu byggðar í kjördæminu látin sigla hjá garði. Að efla starf þessara skóla og stofnanna eru lykillinn að því að halda í fólkið og fá nýtt fólk í byggðirnar.

Nýjar og gamlar atvinnugreinar

Ferðaþjónustan er í vexti og hafa Vinstri græn lagt fram metnaðarfulla heildarstefnu í ferðaþjónustu. Hún byggist á því að ferðaþjónustan leiði af sér jákvæða þróun, samfélögum og efnahagslífi til farsældar og hagsbóta og ávallt í sátt við náttúru landsins. Fjölmörg tækifæri eru í öflugum landbúnaði og sjávarútvegi, t.d. í þróunarstarfi í matvælavinnslu, sem eru einkennisgreinar landshlutans.

Í sjávarútveginum er hvað mikilvægast að bæði veiðar og vinnsla haldist heima og byggðatengja þarf aflaheimildir að hluta. Það veitir örugga  atvinnu og verðmætasköpun. Strandveiðarnar sem VG komu á hafa skipt miklu fyrir fjölda byggðarlaga og fært sumum þeirra nýtt líf. Þær þarf að þróa áfram. Að veita fleirum tækifæri til að veiða nýjar tegundir eins og makríl, í stað þess að láta nokkrar stórútgerðir skipa veiðiheimildum á milli sín hefur sömuleiðis skapað fleiri tækifæri á stöðum eins og Hólmavík og Drangsnesi. Við munum beita okkur fyrir frekari umbótum í sjávarútvegi í þágu byggðanna.

Stórátak í vegamálum  – öflug heilbrigðisþjónustu í héraði

Uppbygging innviða í ferðaþjónustu helst í hendur við átak í samgöngum sem hafa setið á hakanum.

Styrkja þarf og efla heilbrigðisstofnanirnar í kjördæminu. Sem dæmi má nefna sjúkrahúsin á Akranesi og á Ísafirði sem eru einskonar móðurstofnanir fyrir sína landshluta en brýnt er að efla sérfræðiþjónustu í héraði, eins og t.d. þjónustu barnalækna, geðheilbrigðisþjónustu og aðrar sérgreinar svo fólk geti sótt nauðsynlega þjónustu heima.

Vinstri græn í sókn

Mikilvægt er að skipt verði um stjórnarstefnu að kosningum loknum í lok október og hagsmunir fólksins á landsbyggðinni verði settir í forgang. Vinstri græn eru í góðri sókn hér í kjördæminu en einnig á landsvísu. Stefna VG og áherslur fá góðan hljómgrunn meðal kjósenda.

VG hefur frá upphafi beitt sér mjög í byggðamálum og átt sterka landsbyggðarþingmenn. Vinstrihreyfingin grænt framboð er í kjör aðstöðu til þess að verða leiðandi aðili í næstu ríkisstjórn. Hagsmunir hinna dreifðu byggða er því eitthvað sem við höfum ávallt lagt áherslu á. Það eru jú verkin sem tala. Við þurfum félagshyggjustjórn sem er aðeins möguleg með VG sem forystuafli. Markmiðið er að VG fái tvo kjörna  þingmenn  í kosningunum og það næst með góðum stuðningi ykkar, kjósendur góðir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Bjarni Jónsson

Höfundar skipa 1. og 2. sæti á lista VG í NV-kjördæmi

Fleiri aðsendar greinar