Sókn á ný mið kallar á nýja þekkingu

Teitur Björn Einarsson

Langalangafi minn, Torfi Halldórsson skipstjóri frá Flateyri, var hugumstór frumkvöðull sem kom á fót viðamikilli þilskipaútgerð um miðja 19. öld. Það var ekki tilviljun að samhliða stóð hann fyrir fyrstu skipulögðu kennslu stýrimanna á Íslandi. Það var ekki hægt að sækja á ný mið nema hafa í áhöfn menn sem kunnu til verka.

Menntun sjómanna á þeim tíma varð þannig forsenda nýjunga og framfara og allar götur síðan hefur aukin þekking og færni verið samofin sögu íslenskrar atvinnuuppbyggingar þar sem nýsköpun og tækniframfarir hafa stuðlað að aukinni verðmætasköpun og þar með stórbættum lífskjörum fólks. Þessi sannindi og reynsla sögunnar eiga heldur betur við í dag.

 

Sköpum ný tækifæri fyrir ungt fólk

Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á landsbyggðinni eru af ýmsum toga. Eitt brýnasta úrlausnarefnið er að styrkja almannaþjónustu og tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang, óháð búsetu, að þeirri þjónustu sem hinu opinbera ber að veita fyrir skattfé borgaranna.

Að sama skapi verður fólk að hafa svigrúm til að leita nýrra tækifæra og byggja upp bæði rótgrónar atvinnugreinar, eins og sjávarútveg, landbúnað og orkufrekan iðnað, sem og nýja atvinnuhætti eins og í ferðaþjónustu og hugverka- og tæknigeiranum, því aukin lífsgæði koma ekki til án verðmætasköpunar. Fólk býr til verðmæti, hið opinbera skattleggur afraksturinn.

Sóknarfærin til atvinnuuppbyggingar eru sannarlega til staðar um land allt og íbúar dreifðari byggða njóta ýmsra lífsgæða sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu eiga síður kost á. Tækifærin fyrir ungt fólk í nútímasamfélagi felast í auknum mæli í að öðlast nýja þekkingu og betri færni. Ungt fólk leitar að sjálfsögðu þangað þar sem eftirspurn atvinnulífs er eftir slíkum kröftum. Fábreytt framleiðslustörf þykja síður spennandi. Til framtíðar litið er því lykilatriði fyrir byggðir landsins að efla alla menntun og tryggja nálægð atvinnulífs við rannsóknar- og þekkingarsamfélagið.

 

Styrkjum skólana

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum, rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, að ónefndum Háskólanum á Bifröst, eru mikilvægar stofnanir sem stuðla að menntun og rannsóknum og efla tengsl nærsamfélaga sinna og þá sérstaklega ungs fólks við atvinnulíf og nýsköpun um land allt. Í víðara samhengi eru skólar á öllum fræðslustigum; leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar, þannig mikilvægt burðarvirki í hverri byggð og hlúa verður að þeim.

Alþingiskosningarnar í haust þurfa að snúast um framtíðina; hvernig lífskjör allra landsmanna verði bætt, hvernig skilyrði til atvinnuuppbyggingar verði tryggð og hvaða tækifæri bjóðast ungu fólki til að velja sér menntun, búsetu, starfsvettvang og tómstundir. Kjörinna fulltrúa á þingi bíður að forgangsraða fjármunum skynsamlega svo efla megi grunnþjónustu og ráðast í brýna uppbyggingu á innviðum í þágu allra landsmanna en umfram allt þurfa ráðamenn að hafa á því skilning að lykilþættir eins og menntun og nýsköpun eru nauðsynlegir til að byggðir landsins geti styrkt stöðu sína og sótt á ný mið.

 

Teitur Björn Einarsson.

Höf. er lögfræðingur og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri í sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.