Söfnin, listin og menningin
Edda og Þorsteinn
Ekkert samfélag kemst lífs af án fegurðar, tungumáls og sögu. Þau samfélög sem ekki hafa varðveitt sögu sína eiga það á hættu að týnast og líða undir lok. Má þar nefna sorgarsögu þjóðfélaga í Ameríku og Afríku sem ekki höfðu tileinkað sér ritlistina og nýlenduveldin eyðilögðu hugsunarlaust, litu á infædda sem skynlausar skepnur og útrýmdu nánast menningu þeirra sem týndist í hafsjó gleymskunnar.
Hver þjóð og hvert samfélag í þjóðunum þarf að varðveita sögu sína ef ekki á illa að fara eins og þegar frumbyggjunum í Bandaríkjunum var bannað að rækta menningu sína og höfðu nærri dáið út. Fræðimennirnir þurfa að skrifa söguna, skáldin, tónlistarmenn og aðrir listamenn þurfa að gæða svæði sitt lífi með verkum sínum, kennarar skólanna, tónlistarmenn og heimilin kenna svo nemendunum svo að héraðið verður að lifandi samstilltri heild. Svo varðveita söfnin söguna handa kynslóðunum. Söfn eru ekki geymsla listaverka, muna, bóka og skjala, heldur lifandi samband fræðimanna sem þar vinna og eru hið raunverulega líf safnsins. Á safninu finna allir muni og rit við sitt hæfi. Fyrir fræðimennina eru söfnin líftaug til að semja fræðirit og kennslubækur, þar finna meistara- og doktorsnemar efni í ritgerðir sínar og fólkið kemst í snertingu við sögu sína til að skilja nútímann betur. Söfn, listamenn, kennarar og fræðimenn verða lifandi heild og sérfræðingar safnsins eru lykillinn að söfnunum og þau verða ein af líftaugum svæðisins. Án sögu og lista deyr hver byggð. Þetta virðast þeir sem rituðu safnalögin sem gengu í gildi árið 2011 nr. 141 hafa gert sér grein fyrir. Þar er tilgangur safns að varðveita menningar- og náttúruarf Íslands og „tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.“ (Safnalög nr. 141/2011).
Tilefni þessa pistils er að lýsa reynslunni af Safnahúsinu í Borgarnesi. Sögu þess kunnum við aðeins í molum en vitum hve gott og ómetanlegt starf Bjarna Bachmanns var. Síðar tóku við þær Guðrún Jónsdóttir og Jóhanna Skúladóttir sem hafa opnað starfsemi safnsins enn frekar með skipulagningu fyrirlestra auk þess sem tekið er á móti skólahópum sem undirrituð man enn vel eftir úr uppvextinum. Er slíkt fræðslustarf oft fyrsta reynsla verðandi samfélagsþegna af safnastarfi og er góð tilfinning að vita að við eigum öll sameiginlega hlutdeild í. Vel er látið af bókasafninu fyrir þá sem þangað leita. Fátt jafnast á við að hitta á söfnum fólk sem hefur yfirsýn yfir sögu héraðs og þekkir hvern hlut og hvert skjal líkt og þær Guðrún og Jóhanna gera. Fyrir nokkrum árum leitaði ég undirritaður til safnsins til að sjá verk frænda míns sem ég bjóst við að finna þar í handriti og fékk að sjá það sem mig vantaði og var það í hinni bestu vörslu og ekki stóð á því að finna það sem ég bað um.
Tónlistarskólinn í Borgarnesi er önnur glitrandi perlan í kaupstaðnum sem gerir staðinn lífvænlegan og fagran eins og safnahúsið, gleymum ekki Landnámssetrinu. Þar sem ekki er söngur, önnur tónlist og leiklist og þar sem ekki er skrifað og ort, nennir fólkið ekki að vera og fer burt. Vonandi munu íbúarnir fága þessa gimsteina sína svo að lífið verði fagurt og gott og öllum þyki vænt um Borgarnes, þennan meginkjarna Borgarbyggðar. Þó að hér sé rætt um einn kaupstað á það sama við flesta staði á Íslandi. Listin og sagan gerir þá að góðum og fögrum heimilum íbúa sinna. Í því sambandi er Safnahúsið í Borgarnesi ómissandi hlekkur í þeirri keðju, keðju sem er mikilvægari en margan grunar. Það er ei á það hættandi að höggva á slíka hlekki.
Edda Björnsdóttir kennari og Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur.