Snúum bökum saman

Björn Bjarki Þorsteinsson

Það er ljóst að um langa hríð hefur verið skortur á fastráðnum læknum á Heilsugæslustöð HVE í Borgarnesi, um það er ekki deilt. Sama á við um álag á þá lækna og annað starfsfólk sem eru á vakt hverju sinni. Íbúafjöldi á starfssvæði Heilsugæslustöðvarinnar margfaldast þegar tekið er tillit til sumarhúsa og annarra sem sækja Vesturland heim og eru innan umdæmis þess sem Heilsugæslan í Borgarnesi sinnir. Til þessa þarf og verður að taka tillit þegar fjármagni er útdeilt innan heilbrigðiskerfisins og skipulag er mótað á hverri starfsstöð innan Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Um leið og þetta er sagt þá vill undirritaður leyfa sér að þakka góð samskipti og samvinnu við starfsfólk HVE við okkur sem störfum í Brákarhlíð. Án þess góða og fumlausa samstarfs og samskipta þá væri staða okkar í Brákarhlíð ekki sú sama og hún er í dag.

Með góðri samvinnu sem byggir á trausti og virðingu þá hafa þessar tvær stofnanir, í fullu samstarfi við vistunarmatsnefnd, oft náð að þjónusta þá sem fást við veikindi á þann máta að ekki hefur þurft að koma til sjúkrahúsinnlagnar heldur hefur verið fundin lausn þannig að einstaklingar komi til dvalar í Brákarhlíð í skemmri eða lengri tíma. Skiptir þar miklu árvekni þeirra starfsmanna sem sinna heimahjúkrun á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi á starfssvæði hennar, jafnt í dreifbýlinu sem innan Borgarness.

Það er gott og hæfileikaríkt starfsfólk sem á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi starfar, gleymum því ekki í amstri dagsins og pirringi okkar íbúanna yfir því að það vantar fleiri fastráðna lækna. Látum ekki umtal fæla það góða fólk úr starfi, það er mikilvægt að fókusinn sé vel stilltur á viðfangsefnið sem er fyrst og fremst það að fastráðnum læknum verður að fjölga. Yfirstjórn HVE verður að taka það mál til alvarlegrar úrvinnslu nú þegar með stuðningi fagráðuneytis, alþingismanna kjördæmisins og sveitarstjórna á starfssvæðinu, núna!

 

Björn Bjarki Þorsteinsson

Höf. er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar.

Fleiri aðsendar greinar