Snjómokstur í Borgarbyggð – mörg snjókorn gera snjóskafl í augum flestra

Kristján Rafn Sigurðsson

Eru kjörnir pólítíkusar uppteknir af gjörðum sínum, áætlunum og eigin metnaði í stað þess að huga að heild samfélagsins? Í grein sem birtist í Skessuhorni þann 14. nóvember sl. undir fyrirsögninni „Snjókorn í augum Framsóknarmanna,“ gerir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, formaður umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar í Borgarbyggð, snjómokstur að umtalsefni. Hvernig pólitískir andstæðingar gagnrýni aðferðafræði við snjómokstur í sveitarfélaginu Borgarbyggð.

Hvorki er ætlun undirritaðs að verja þá gagnrýni né framkvæmd stjórnunar við snjómokstur. Ef kjörnir fulltrúar eru veikir fyrir gagnrýni ættu þeir að finna sér annað að gera. Jákvæð og uppbyggileg gagnrýni getur verið eitt atriði í forsendum góðs skipulags hvort heldur við snjómokstur eða aðrar framkvæmdir sem lögboðnar eru.

Heildin þarf alltaf að sitja í fyrirrúmi við skipulag þjónustu sem snjómokstur er. Að ná fram sem mestu fyrir sem flesta. Að leggja aðaláherslu á stofnbrautir við snjómokstur hlýtur að teljast grundvallarkrafa þeirra sem sveitarfélagið byggja.

Yfirlitsmynd er sýnir skipulag snjómoksturs í Borgarnesi er alveg ágæt en tekur ekki yfir allt Borgarnes. Ef búið er að endurskipuleggja Borgarnes er óskað eftir gögnum um hvenær það var gert og hvers vegna? Mér vitanlega nær póstnúmerið 310 yfir Borgarnes allt upp að Brautarholti að austan og ættu myndir að sýna heildarlandsvæðið.

Samkvæmt svokölluðu snjómokstursplani í lið 2.2 FORGANGUR 2 Litur: Blár, sjá teikningu Nr. U22.002 má sjá að gatan Vallarás er þar inni. Hversu oft var mokað þar sl. vetur? Hversu oft var mokað þar að nauðsynjalausu eftir að fyrirtæki voru búin að ryðja veginn vegna illfærðar, þar sem starfsfólk lenti í vandræðum síðasta vetur?

Hvaða aðgerðaráætlun var höfð í gangi vegna mikillar þíðu sem skapaðist í tvígang við Vallarás þannig að tjón hlaust af við húsnæði Eðalfangs ehf, Vallarási 7-9. U.þ.b. 6000 rúmmetrar vatns flæddu yfir Vallarás, yfir að fasteigninni og hvorki niðurföll né dælur höfðu undan þegar mest gekk á.

Athafnaleysi Borgarbyggðar að ryðja ekki drenskurði meðfram Vallarás varð þess valdandi að tjón hlaust af. Borgarbyggð sendi fyrirtækinu síðan reikning vegna dælukostnaðar og hélt honum í innheimtu þar til í síðasta mánuði.

Í niðurlagi þeirrar greinar sem varð kveikjan að þessum orðum segir að jafnræði skuli gæta og er undirritaður hjartanlega sammála en vekur athygli á að það eigi að gilda um alla sem virðist gleymast ansi oft.

 

Kristján Rafn Sigurðsson

Höfundur er framkvæmdastjóri Eðalfisks ehf að Vallarási 7-9 í Borgarnesi