Snjókorn í augum Framsóknarmanna?

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Í bókun meirihluta Borgarbyggðar  á sveitarstjórnarfundi 8. nóvember s.l. koma fram þau rök sem lögð eru til grundvallar viðmiðunarreglna um snjómokstur í Borgarbyggð. Það hefur ekki gengið nægilega vel að anna snjómokstri í dreifbýli þegar að þörfin hefur verið mikil og því er nauðsynlegt að skerpa á hlutverki sveitarfélagsins er kemur að snjómokstri. Það er fyrst og fremst að sinna lögboðinni skyldu sinni eins og að tryggja aðgengi að skóla, að sorphirða geti átt sér stað og hægt sé að sinna félagsþjónustu.

Markmið viðmiðunarreglna og tilurð breytinga

Árið 2016 voru gerðar viðmiðunarreglur um snjómokstur í sveitarfélaginu og hafa þær verið aðgengilegar á heimasíðu Borgarbyggðar. Upprunalega markmiðið með viðmiðunarreglum um snjómokstur var tilraun til þess að samræma þjónustu í sveitarfélaginu og ítreka þjónustu snjómokstursfulltrúa. Einnig var leitast við að koma skipulagi á fyrirkomulagið til að skýra boðleiðirnar og að íbúum væri ljóst, t.d. í hvern ætti að hringja vegna snjómoksturs á viðkomandi svæði en það eru snjómokstursfulltrúar. Snjómokstursfulltrúar eru aðilar á nærsvæði sem þekkja viðkomandi svæði vel. Þeirra hlutverk er að kalla út snjómokstursverktaka þegar þörf er á og vera í sambandi við Vegagerðina þar sem um helmingamokstur er að ræða.

Síðastliðið vor funduðu snjómokstursfulltrúar í Borgarbyggð með sveitarstjóra og verkefnastjóra umhverfismála þar sem farið var yfir reynslu vetrarins og ræddar voru þær áskoranir sem blöstu við í störfum þeirra. Sú staða var uppi að snjómokstursfulltrúum bárust ótal símhringingar frá ósáttum íbúum sem töldu á sér brotið þar sem illa væri staðið að snjómokstri. Raunin var sú að erfitt var að anna mokstri allsstaðar þegar að þörfin var hvað mest. Sem dæmi má nefna símtöl frá fyrirtækjum og íbúum  sem óskuðu eftir snjómokstri daglega heim að húsi, auk krafna um mokstur á plönum við heimahús og fyrirtæki. Þessi reynsla varð til þess að ákveðið var að skýra viðmiðunarreglur um snjómokstur enn betur og skilgreina nánar hvaða mokstri sveitarfélaginu beri að sinna og hverjum ekki. Skýra þurfti hvað fellur undir lögbundna þjónustu á vegum sveitarfélagsins og hvernig er hægt að halda aðgengi óskertu að þeirri þjónustu sem sveitarfélaginu ber að sjá íbúum fyrir.

Málið hefur fengið töluverða umfjöllun inn í umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefnd nú á haustmánuðum þar sem allir kjörnir fulltrúar gátu komið með athugasemdir og ábendingar varðandi fyrirliggjandi breytingar. Viðmiðunarreglurnar voru sendar inn til staðfestingar sveitarstjórnar á októberfundi en þaðan vísað aftur inn í byggðarráð að beiðni fulltrúa Framsóknarflokks sem á ekki sæti í áðurnefndri nefnd. Byggðarráð Borgarbyggðar fjallaði sérstaklega um hvaða breytingar sveitarstjórnarfulltrúar vildu að yrðu gerðar og brugðist var við þeim. Þrátt fyrir þennan feril málsins kusu framsóknarmenn á móti reglunum þegar að þær komu fyrir sveitarstjórn á síðasta fundi.

Jafnræði og forgangsröðun

Gagnrýni framsóknarmanna lýtur aðallega að því að mokstur vegna einstakra atvinnugreina sé ekki getið í viðmiðunarreglum. Þau sjónarmið sem ráða för við endurskoðun reglnanna eru meðal annars að atvinnurekstur í sveitarfélaginu er mjög fjölbreyttur og ber sveitarfélaginu að gæta jafnræðis í störfum sínum en því telur meirihlutinn að ekki sé stætt á því að hygla tilteknum atvinnugreinum umfram aðrar í viðmiðunarreglum sveitarfélagins. Ef þjónusta ætti allan atvinnurekstur með snjómokstri alla daga þá hefur það umtalsverðan kostnaðarauka í för með sér fyrir sveitarsjóð. Því eru settar reglur sem ganga jafnt yfir alla þar sem lögbundnar skyldur sveitarfélagsins eru í forgrunni.

Varðandi mokstur í þéttbýli Borgarbyggðar þá er að sama skapi og í dreifbýlinu skilgreint betur hvaða mokstursleiðir það eru sem sveitarfélaginu ber að sinna. Þar eru götur flokkaðar niður og þeim forgangsraðað. Til dæmis eru húsagötur ekki mokaðar nema að þær séu við það að verða ófærar.  Ekki eru mokuð bílastæði hjá einstaklingum eða á vegum einstakra fyrirtækja svo eitthvað sé nefnt.

Þá er rétt að halda því til haga að snjómokstur er mjög dýr þjónusta og því er það bein skylda kjörinna fulltrúa að skilgreina vel hvernig að þjónustunni er staðið og setja mörk þar um. Markmið með settum viðmiðunarreglum er að hafa yfirsýn og gæta jafnræðis.

 

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Höfundur er formaður umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar í Borgarbyggð.