Snæfellsnes komið í Borgarfjörð

Reynir Ingibjartsson

Í kynningarblaði um Vesturland sem fylgdi Fréttablaðinu 29. apríl sl. var svohljóðandi fyrirsögn á viðtali: ,,Flutti allt sitt frá Djúpi í Borgarfjörð”. Ég staldraði við þetta viðtal þar sem ég vissi að fjöldskylda hefði nýlega flutt úr Ísafjarðardjúpi og suður í Kolbeinsstaðahrepp á Snæfellsnesi, þar á meðal einn alþingismanna okkar – Jóhanna María Sigmundsdóttir.

 

Í þessu viðtali er rætt við föður hennar, Sigmund, þar sem hann lýsir ánægju sinni með að vera fluttur í ,,Borgarfjörðinn” en ekki á Snæfellsnesið! Til að undirstrika þetta er nefndur Kolbeinsstaðahreppur í Borgarfirði. Sá er munurinn á okkur Sigmundi að ég er uppalinn í þessum hreppi og allan þann tíma var hann hluti af Snæfellsnesi, nánar Snæfellsness- og Hnappadalssýslu. Fyrir nokkrum árum var það hins vegar samþykkt með knöppum meirihluta, að hreppurinn sameinaðist Borgarbyggð – les – ekki Borgarfirði. Þarna liggur hundurinn sjálfsagt grafinn og ókunnugir halda að þeir séu komnir í Borgarfjörðinn!

 

Þegar ég gekk í skóla í Kolbeinsstaðahreppnum, varð kennara mínum, Sveinbirni Jónssyni á Snorrastöðum heitt í hamsi þegar kom að Eldborg í landafræðinni. Þar stóð að hún væri ,,á Mýrum”. ,,Þið skuluð muna það að Eldborg er í Hnappadal á Snæfellsnesi”. Svo fylgdi með að höfuðskáld Snæfellinga væri Steingrímur Thorsteinsson frá Arnarstapa.

 

Þegar ég fór að fylgjast með íþróttalífi og öðrum viðburðum á Snæfellsnesi, fór ekkert á milli mála hvar maður ætti heima á landakortinu. Borgfirðingar voru á sínum stað og Mýramenn næstu grannar í suðri. Svo voru það Dalamenn og mínir sveitungar voru stundum kallaðir Hnappdælingar en það fór þó ekki á milli mála, að Hnappadalur væri hluti af Snæfellsnesi. Brottfluttir gengu svo í Félag Snæfellinga og Hnappdæla. Svona hefur þetta verið lengst af frá því land byggðist. Bættar samgöngur réði því hins vegar að verslun og önnur þjónusta var fyrst og fremst sótt í Borgarnes.

 

Hvað sem líður sameiningu sveitarfélaga og breyttum samgöngum, þá er héraðsvitund samgróin okkur flestum. Mér myndi aldrei detta í hug að kalla mig Borgfirðing þótt þangað hafi ég sótt margt gott. Þannig held ég að sé um aðra Kolhreppinga. Þegar ég hitt einhvern sem segist vera af Snæfellsnesinu, er kominn sameiginlegur flötur og farið að leita að kunningjum og ættingjum sem tengjast héraðinu og báðir þekkja. Þannig er það með okkur flest.

 

En hvað segja Kolhreppingar? Hvað segja aðrir á Snæfellsnesi? Er fólki bara sama? Fá mínir gömlu sveitungar eitthvert kikk út úr því að kallast nú Borgfirðingar? Er grasið grænna í Borgarfirðinum? Og hvernig sjá menn fyrir sér frekari sameiningu sveitarfélaga á Vesturlandi? Er enn inni í myndinni að Kolhreppingar og Skógstrendingar (nú í Dalabyggð), sameinuðust örðum sveitarfélögum á Snæfellsnesi, verði af slíkri sameiningu? Hvernig væri nú að ræða þessa hluti í stað þess að þumbast og þegja?

 

Reynir Ingibjartsson,

Snæfellingur.

Fleiri aðsendar greinar