Smánarblettur á samfélaginu

Jón Frímannsson

Síðustu þrjú ár höfum við, ég og gamall vinnufélagi minn sem verður níræður eftir nokkra mánuði, borðað saman í hádeginu á Höfða. Á þessum tíma hefur heilsu hans og sjón hrakað svo að ég hef verulegar áhyggjur af honum. Þessi maður býr einn í húsi og hefur að mestu séð um sig sjálfur. En ég tek eftir því að oftar og oftar kvartar hann um magnleysi, slæma sjón og fleira, sem bagar hann.

Ég tel mig fara rétt með, að hann sé búinn að sækja þrisvar sinnum um dvöl á Höfða, og fengið synjun jafn oft á þeim forsendum að hann þurfi ekki á henni að halda. Nú síðast var hann látinn ganga undir nokkuð sérstakt próf í þessu sambandi. Spurningarnar snérust flestar um hverstagslega hluti. Dag, mánuð, ár, fæðingardag, aldur og ýmislegt í þeim dúr. Hann leit á þetta sem niðurlægjandi aðferð og skálkaskjól fyrir þá sem spurðu til að losna við að ræða staðreyndir málsins, og kom hann bæði sár og reiður úr þessari yfirheyslu. Og þar við situr.

Heilsa þessa manns og sjóndepra hefur ekkert með það að gera hvort hann fær hjálp, eða ekki. Af þessu leiðir meðal annars það að nú óttast hann að geta ekki keyrt bílinn sinn lengur. Þar með verður hann eins og fangi í búri. Þetta er ekki eina manneskjan sem býr við þessar aðstæður. Fjarri því. En hvernig er þetta? Kemur þetta engum við? Um þessi mál vill helst enginn tala. Hvernig er það með bæjarfélagið? Getur það ekki haft áhrif á þessi mál á einhvern hátt? Er þetta bara talið í nokkuð góðu lagi? Ef ég veit rétt, þá er verið að opna gömlu E deildina á Sjúkrahúsinu á Akranesi fyrir sjúklinga frá Reykjavík og þeir sem Höfði var í upphafi byggt fyrir, eiga engan rétt umfram aðra. Og það sem verra er; að Dvalarheimilið Höfði var lagt niður og í staðinn var stofnað Sjúkrastofnunin Höfði. Sem sagt; öldruðum við einhverja heilsu er úthýst þar og ekkert kom í staðinn. Þetta er ekki bara blettur á samfélaginu, heldur smánarblettur, sem engum nema þeim sem á hjálp þurfa að halda virðist koma við. Verkin sýna merkin.

 

Jón Frímannsson

Fleiri aðsendar greinar