Smá athugasemd við „söguna endalausu“

Guðsteinn Einarsson

Sigurður Guðmundsson, íbúi og skattgreiðandi í Borgarbyggð, endar grein sína um Borgarbraut 55-59 í síðasta Skessuhorni á þeirri fullyrðingu að þar sé unnið að framkvæmdum á grundvelli eigin vinnu Borgarlands.

Það hefur ítrekað komið fram í greinum mínum í Skessuhorni að deiliskipulag það sem nú er í gildi fyrir Borgarbraut 55-59 í Borgarnesi er Borgarlandi ehf. óviðkomandi enda kom félagið ekkert að þeirri vinnu, né bað um að sú vinna væri unnin og reyndar gerði lögmaður  Borgarlands ehf. athugasemdir við að það væri gert, enda vildi félagið reisa eina staka íbúðarblokk á Borgarbraut 59, og vildi deiliskipulag sem tæki mið af því. Þá hafði Borgarland ehf. ekkert með Borgarbraut 55 eða 57 að gera og deiliskipulag á þeim lóðum því félaginu óviðkomandi.

Allar fullyrðingar um að hið mikla byggingarmagn sem leyft er í deiliskipulaginu nú megi rekja til væntinga eða krafna Borgarlands ehf. um slíkt eru skáldskapur sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Hefði Sigurður einhvern áhuga á sannleikanum þá gæti hann lesið fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar veturinn og sumarið 2006 og fengið að kíkja á bréf lögmanns Borgarlands ehf. til sveitarstjóra Borgarbyggðar dags. 16. maí 2006 sem ætti að skýra málið fullkomlega.

Ef Sigurður hefði áhuga á að vita hvers vegna Borgarland ehf. kærði deiliskipulagið þá væri einfaldast að hann læsi kæruna til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurð nefndarinnar og/eða greinar mínar í Skessuhorni.

Veruleikinn er og verður sá að núverandi deiliskipulag og byggingar á Borgarbraut 55-59 eru á ábyrgð sveitarstjórnar Borgarbyggðar og koma Borgarlandi ehf. ekkert við.

 

Borgarnesi, 17. nóvember 2016

Guðsteinn Einarsson.

 

Fleiri aðsendar greinar