
Skynsamleg nýting eða miðstýrð friðun?
Teitur Björn Einarsson
Breiðafjörður er gjöful auðlind sem fólk hefur nýtt sér til lífsviðurværis um aldir og gerir enn. En auðlindir eru ekki gefin stærð né er það sjálfgefið að það takist að skapa verðmæti úr auðlindum landsins. Verðmæti þeirra hvílir fyrst og fremst á því hversu vel tekst að nýta þær með sjálfbærum hætti. Þekking og framtak, fjármagn og rannsóknir, allt þetta og meira þarf til þannig að náttúruauðlind verði verðmæti og gagnist þjóðinni. Þetta á við um Breiðafjörð sem og allar aðrar náttúruauðlindir Íslendinga.
Hin síðari ár hafa stjórnvöld og vaxandi hluti almennings lagt ríkari áherslu en áður á verndun og friðun ýmissa náttúruauðlinda og áhugaverðra svæða. Þessi þróun er skiljanleg og líka réttmæt í mörgum tilvikum. Við eigum ávallt að ganga vel um umhverfið okkar og vernda viðkvæmar náttúruperlur. En á sama tíma hafa mörkin á milli þess hvað á að friða og hvað á að nýta orðið óljósari. Skiptar skoðanir um hálendisþjóðgarð og orkunýtingarkosti bera þess enn fremur merki að lítil samstaða er um hvaða svæði nákvæmlega eigi að friða, hversu langt eigi að ganga, hvernig stýringu friðaðra svæða skuli háttað og að hversu miklu leyti sjálfbær nýting auðlinda á friðuðu svæði skuli vera heimiluð.
Framtíð Breiðafjarðarnefndar
Nýlegar tillögur Breiðafjarðarnefndar um ríkari vernd og stækkun verndarsvæðis Breiðafjarðar eru einnig þessu marki brenndar. En nefndin leggur til við umhverfisráðherra að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða, að Breiðafjörður verði skilgreindur sem þjóðgarður í sjó og að Breiðafjörður verði tilnefndur á heimsminjaskrá UNESCO. Þá er lagt til að lög um verndarsvæðið verði endurskoðuð og svæðið m.a. stækkað þannig að það nái yfir allan Breiðafjörð, frá Bjargtöngum að Öndverðarnesi. Íbúar við Breiðafjörð hafa gert fjölmargar athugasemdir og sett fyrirvara við þessar tillögur sem og sveitarfélög og taka má undir margt af því sem þar kemur fram.
Í stuttu máli er hægt að draga þessa gagnrýni íbúa saman í tvær lykilspurningar: 1) Er þörf á frekari friðun og alþjóðlegri skráningu með þeim skuldbindingum sem því fylgir? 2) Eru tillögurnar í þágu og á forsendum íbúa Breiðafjarðar?
Þörfin
Að mati Breiðafjarðarnefndar er möguleg fjölgun ferðamanna og aukin ásókn í náttúruauðlindir svæðisins helstu rök fyrir sterkari og skýrari verndun Breiðafjarðar. Í greinargerð Breiðafjarðarnefndar er þess hins vegar ekki getið og engar upplýsingar að finna annars staðar að lífríki og umhverfi Breiðafjarðar stafi hætta af þeirri sjálfbæru auðlindarnýtingu sem þar er nú stunduð eða að átroðningur ferðamanna við hólma og sker sé slíkur að í óefni stefni. Ætla má að hættan sem kann að steðja að fólki og umhverfi vegna úreltrar ferju á undanþágu sem siglir yfir Breiðafjörðinn sé mun alvarlegri.
Sá galli er á greinargerð nefndarinnar að í henni ekki er fjallað um hvernig stýra eigi ferðamönnum á svæðinu eða takmarka fjölda þeirra. Þá er ekki annað að sjá en markmiðið með formfastari og sterkari umgjörð friðunar á svæðinu, t.d. með skráningu á lista Ramsarsvæðis og heimsminjaskrá UNESCO, sé beinlínis til að koma í veg fyrir frekari auðlindanýtingu á svæðinu eða hið minnsta takmarka hana eins og kostur er, án þess að að baki þeirri skoðun liggi hlutlæg vísindaleg úttekt á umhverfinu og lífríki.
Á meðan ekki er sýnt fram á með skýrum hætti þörfina fyrir frekari friðunarráðstafanir við Breiðafjörð telst málið vanreifað og ekki tækt til frekari málsmeðferðar.
Í þágu íbúa?
Stofnun þjóðgarðs á tilteknu svæði getur sannanlega haft í för með sér samfélagslegan ávinning fyrir íbúa og sveitarfélög. Undirbúningur og stofnun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls ber þess glöggt merki en í því máli, sem átti sér langan aðdraganda, reyndi mikið á góða samvinnu heimamanna og stjórnvalda. Í greinargerð Breiðafjarðarnefndar er ekki vikið að efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum af aukinni vernd með stofnun þjóðgarðs og skráningu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og skilmálum en mikil áhersla lögð engu að síður á fræðslu, samtal og samráð. Eftir stendur að markmið þjóðgarða er að tryggja aðgang og nýtingu út frá náttúruvernd. Eftir er að taka samfélagslega- og efnahagslega þætti með í reikninginn.
Jafnvel þótt tekið sé fram í friðlýsingarskilmálum að styrkja skuli byggð og atvinnustarfsemi er ljóst að slíkir skilmálar og friðun torvelda mjög alla innviðauppbyggingu og frekari verðmætasköpun með kostnaðarsamri og tímafrekri stjórnsýslumálsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum, leyfisveitinga og skipulagsbreytinga. Stjórnsýsluhryllingurinn vegna veglagningar í Gufudalssveit er dæmi um hvað ber að varast í þessum efnum.
Á réttum forsendum
Í upphafi var þess hér getið að auðlind er ekki gefin stærð heldur verður að nýta hana með skynsamlegum hætti til að hún teljist verðmæt. Íbúar við Breiðafjörð eiga að fá notið sérstöðu svæðisins og nálægðar við margvísleg tækifæri sem Breiðafjörður hefur upp á að bjóða og kann að bjóða upp á til að búa til verðmæti úr þeim auðlindum. Aðalatriðið er að jafnvægið á milli náttúrverndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar í Breiðafirði verði fundið út frá forsendum íbúa og byggða við Breiðafjörð. Ef það er haft að leiðarljósi má í besta falli líta á tillögur Breiðafjarðarnefndar sem innlegg inn í takmarkaðan anga málsins, þar sem meginmálið snýr að framtíð og tækifærum íbúa Breiðafjarðar til að vaxa og dafna á sínum forsendum.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögmaður og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi