Skuldum við ekki Skallagrími og öðrum íþróttafélögum að gera betur?

Eiríkur Þór og Skúli

Undirritaðir hafa ávallt haft mikinn áhuga á íþróttastarfi bæði sem þátttakendur, sjálfboðaliðar eða áhorfendur. Eftir mikið grúsk og heimildavinnu áttuðum við okkur á því að við vissum frekar lítið um sögu íþrótta- og æskulýðsstarfs innan Borgarbyggðar. Ýmsar íþróttir hafa frá upphafi skipulagðra félaga í héraði verið kenndar og iðkaðar í Borgarbyggð en slíkt starf hófst í byrjun 20. aldar. Árið 1912 er svo Ungmennasamband Borgarfjarðar stofnað og sameinaði minni félög í nágrenninu undir einn hatt. Í gegnum árin hafa ungmennafélögin staðið í mörgu allt frá garðrækt, byggingu félags- og íþróttamannvirkja, leiklist og til víðtæks íþrótta- og menningarlífs í Borgarfirði.

Umf. Skallagrímur er stofnað árið 1916 og er það félag sem hefur flestar undirdeildir og hæstan iðkendafjölda í Borgarbyggð. Skallagrímur hefur í dag fimm starfandi deildir og þær eru; badminton-, frjálsíþrótta-, körfuknattleiks-, knattspyrnu- og leiklistardeild. Ein deild mun bætast við í haust því verið er að endurvekja sunddeildina.

Kjartan Skúlason, Skúli Guðmundsson, Kristbjörg Ragney Eiríksdóttir og Eiríkur Þór Theodórsson. Myndin er tekin á Bjössaróló með íþróttasvæðið í Borgarnesi í baksýn. Ljósm. tkþ.

Við eigum margt afreksfólk bæði í dag og fyrr í sögunni. Þar má nefna Ólympíufarana okkar Írisi Grönfeldt, Einar Trausta Sveinsson og mun fleira afreksíþróttafólk.

Körfuboltaáhugi í Borgarnesi barst með bandaríska hersetuliðinu sem skildi eftir sig körfuboltakörfur sem heimamenn settu upp í fyrsta leikfimisal Borgarnesinga, gamla samkomuhúsinu, nú Óðali. Seinna var svo keppt í leikfimihúsinu sem byggt var við grunnskólann, sem við kynntumst síðar sem smíðastofu Grunnskóla Borgarness.

Körfuboltinn skipar stóran sess í íþróttasögu og í hjarta Borgfirðinga. Skallagrímur hefur haft karlalið í körfubolta síðan 1958 og kvennalið síðan 1959. Kvennalið Skallagríms vann íslensku deildina árið 1963. Einnig má nefna að í fyrsta kvennalandslið Íslands í körfubolta voru tvær konur úr Skallagrími valdar þær María Erla Geirsdóttir og Hulda Karítas Harðardóttir.  Kvennaliðið okkar sem var endurstofnað 2015 endurtók svo söguna og vann bikarkeppnina árið 2020 og voru þá liðin 57 ár síðan síðasti stóri titill kom í Fjósið góða. Eru teljandi á fingrum annarrar handar fjöldi leikja frá því að liðið var endurvakið sem undirritaðir hafa misst af.

Karlalið Skallagríms hefur verið í deild þeirra bestu og ,,næstbestu“ síðustu áratugi og undirritaðir hafa mætt á ófáa leiki félagsins frá unga aldri. Við höfum hjálpað til í sjálfboðaliðastarfi körfunnar sem t.d. lukkudýr, tölfræðiritari, ritaraborðsstarfsmenn, stjórnarmenn sem og háværir stuðningsmenn.

Því miður eru aðstæður til iðkunar körfubolta í Borgarbyggð löngu sprungnar og stenst engin þeirra fjögurra valla sem eru í héraðinu nútímakröfur. Það er engan veginn ásættanlegt fyrir íþrótt sem hefur lengst af verið hornsteinn íþróttaiðkunar í héraðinu.

Skallagrímur á einnig glæstan feril í fótbolta, voru knattspyrnumenn í efstu deild árið 1997. Og hafa unnið 3. deildina tvisvar; 1983 og 1994. En síðan 1997 hafa þeir staðið í stað eða farið niður um deild öll árin að undanskildu einu þegar farið var úr 4. deild í þá þriðju.

Sumarið 1997 var í Borgarnesi vígð ein glæsilegasta íþróttaaðstaða á Íslandi og Landsmót UMFÍ haldið þar sama ár.

Fótboltaáhuginn var mikill í kringum aldamótin 2000 og þess má geta að mörg sumur í röð var haldið stórt mót sem hét Búnaðarbankamótið. Það var risa verkefni sem heppnaðist mjög vel og finnst mörgum að það mætti endurskoða að halda þetta mót því við höfum aðstöðu og mannskap til að láta mótið ganga upp.

Aðstaða til æfinga var og er misgóð í Borgarbyggð en við og jafnaldrar okkar byrjuðum á malaríþróttavelli Borgarness þar sem í dag stendur Menntaskóli Borgarfjarðar. Við eigum grasvelli í toppástandi í þéttbýli Borgarbyggðar og þrjá gervigrasvelli. En því miður eigum við engan innanhússvöll, sem hentar nútímakröfum fyrir fótbolta  eða upphitaðan völl í fullri stærð.

Þrátt fyrir að eiga fjögur misstór íþróttahús þurfa börn, unglingar og eldri iðkendur, fótbolta sem og annarra íþrótta t.d. fimleika að fara á Akranes til æfinga og spila sína leiki þar þegar haustar og fram á vor.

Við eigum mun fleiri deildir og ungmennafélög undir hatti UMSB og þar má nefna:

Sunddeild Skallagríms hefur verið í dvala síðustu ár en nýjustu fregnir herma að góður hópur fólks vilji endurvekja deildina og búið er að ákveða aðalfund.

Badminton er enn æft í íþróttamiðstöðinni en erfitt er að fá æfingatíma þar fyrir flestar gólfíþróttir vegna plássleysis og fjölda æfinga sem tengjast körfunni á einhvern hátt. Íþróttamiðstöðin er fyrir löngu sprungin og það er virkilega erfitt að fá tíma vegna aðsóknar körfuboltans og eru því oft notaðar aðrar íþróttamiðstöðvar t.d. á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum undir íþróttir sem ekki fá tíma í Borgarnesi.

Frjálsar íþróttir hafa verið í mikilli lægð undanfarin ár og það er sárt að vita til þess að ekki skuli vera hlúð betur að þessari grein því mörgum krökkum og ungu fólki hugnast ekki hópíþróttir en gætu svo sannarlega fundið sig og blómstrað í frjálsum íþróttum, þá nýtist líka okkar frábæri frjálsíþróttavöllur í Borgarnesi betur.

Leikdeild Skallagríms er virk og heldur árlega sýningar í Lyngbrekku sem eru vel sóttar.

Það er mikil gróska í golfi í Borgarbyggð og eigum við í samfélaginu marga glæsilega velli en samtals eru fjórir golfvellir opnir í héraði á þessu golftímabili.

Því miður er hins vegar hið vinsæla innanhúss aðstaða Golfklúbbs Borgarness lokuð af öryggisástæðum.

Nýlega stofnaða hestmannafélag Borgfirðingur á glæsilegan keppnisvöll og reiðhöll í toppstandi og hefur tugi kílómetra af reiðvegum til útreiða og æfinga.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar hefur ræktað mikið land víða um héraðið og er mikið sótt af íbúum og ferðafólki.

Því miður erum við með nokkur félög án aðstöðu sem eru samanlagt með rúmlega 100+ félaga.

Mótorsportfélag Borgarfjarðar sem hefur því miður aldrei hafið starfsemi eða fengið aðstöðu utandyra í Borgarfirði.

Skotfélag Vesturlands er einnig með innanhússaðstöðu, í Brákarey, sem er lokuð og hafa skotmenn ekki fengið land fyrir aðstöðu utanhús þrátt fyrir margar tillögur og mikla vinnu félagsins.

Síðan er spennandi að sjá hvort nýjar íþróttagreinar t.d. rafíþróttir, dróna og frisbígolf nái hér fótfestu og sæki um inngöngu í UMSB í framtíðinni.

Í dag eru innviðir til staðar fyrir þessar greinar og eru a.m.k. tveir frisbígolf vellir í Borgarbyggð, nóg af landi og leikjatölva til á flestum heimilum.

Í dag er ekki eins fjölbreytt íþróttastarf og var þegar við vorum í grunnskóla fyrir 15 árum síðan. Fjölmennustu greinarnar voru að venju, eins og í dag, karfa og fótbolti. En þegar rýnt er í tímaskráningu fyrir íþróttahúsið í Borgarnesi þá sést aðeins önnur mynd en sú sem við höfum í dag. Því þá var mun fjölbreyttara starf og þjálfun í því húsi en nú er.

Við vorum mjög virkir í íþróttum alla okkar æsku og prófuðum við flestallar greinar sem voru í boði. Margir í Borgarnesi ákváðu að einblína á frjálsar íþróttir. Þar voru einnig fullt af góðum krökkum og unglingum sem bjuggu flest í ,,sveitinni“ og þurftu að komast í íþróttahúsið í Borgarnesi á eigin vegum. Borgnesingar þurftu hins vegar ekki að fara í önnur íþróttahús eða velli til að sinna frjálsum.

Ljóst er að íbúar Borgarbyggðar hafa lengi unnið þrekvirki, bæði sem sjálfboðaliðar og þátttakendur í íþrótta- og æskulýðsstarfi innan sinna félaga. Einnig hafa sveitarfélög og svo seinna Borgarbyggð lagt mikinn tíma, vinnu og fjármuni til að styðja við fjölbreytt íþróttastarf. En hvað ætlum við að gera í dag og hvert skal stefna í nánustu framtíð? Eigum við að taka ,,sénsinn“ og veðja á að nýtt fjölnota íþróttahús muni laða að fleiri íbúa og styðja þar með við íþróttir á svæðinu? Hvers vegna geta sveitarfélög sem eru jafnstór eða aðeins stærri stært sig af glæsilegum íþróttahúsum eins og t.d. fimleikahöllum, innan- eða utanhúss upphituðum fótboltamannvirkjum eða stórglæsilegum fjölnotahúsum?

Ef það er hagstæðast að hafa allt íþróttastarf á sama stað þá skiljum við ekki af hverju það hefur ekki verið lagt af stað í þá vegferð og reynt með öllum ráðum að kaupa eignir í kringum Íþróttahús Borgarness eða finna leiðir til að stækka húsið með eða án uppfyllingar? Við getum líka hugsað út fyrir kassann og byggt þetta íþróttamannvirki hvar sem er innan Borgarbyggðar þar sem við höfum boðlega innviði og nóg pláss eins og t.d. á Varmalandi, Bifröst, Kleppjárnsreykjum eða Hvanneyri.

Það virðist ganga mjög illa að framkvæma þetta í Borgarnesi, af hverju ekki að nota þá aðra þéttbýlisstaði í sveitarfélaginu? Er sanngjarnt að öll börn og ungmenni sem eiga lögheimili utan Borgarness þurfi að fara langa leið til að stunda þá íþrótt sem þau hafa áhuga á? Geta börn og unglingar ekki farið á fótboltaæfingu í nágrenni Borgarness með tómstundarútu? Það er ekki nema 15 mínútna keyrsla frá Íþróttamiðstöðinni til Hvanneyrar.

Við viljum gera betur, endurvekjum þær íþróttir sem horfnar eru úr samfélaginu okkar! Hvers vegna eigum við eina glæsilegustu sundlaugaraðstöðu landsins og stórkostlegan frjálsíþróttavöll, sem fólk í útlöndum myndi horfa öfundaraugum á, og á sama tíma er varla barn sem æfir frjálsar eða sund í Borgarnesi enn sem komið er. Vantar hér fjármuni sveitarfélagsins eða fleiri hendur á dekk? Þarf að styðja betur við þjálfara eða auglýsa eftir fólki að koma í Borgarbyggð og starfa við þjálfun? Hvað þarf til og hverjir eiga að verja sínum tíma og fjármunum til að halda starfinu uppi?

Okkur dreymir að sjá fleiri af ungu kynslóðinni á sundæfingum, kasta spjóti, stökkva í langstökksgryfjuna eða taka 100 metrana eins og við gerðum í „gamla daga.“ Okkur dreymir um að sjá fótboltann og aðrar íþróttagreinar í toppaðstöðu. Okkur dreymir um nýtt íþróttahús og okkur dreymir um sátt um staðsetningu þess milli íbúa þétttbýlis og dreifbýlis.

 

Eiríkur Þór Theodórsson og Skúli Guðmundsson.

Höfundar eru áhugamenn um íþróttastarf í Borgarbyggð