Skrif Ásgeirs Sæmundssonar um starfsmenn og stjórnsýslu Borgarbyggðar

Gunnlaugur A Júlíusson

Í tveimur greinum sem birtust þann 16. maí sl. og 23 maí sl. í Skessuhorni þá fer Ásgeir Sæmundsson mikinn þar sem hann lýsir sinni sýn á samskipti við starfsmenn Borgarbyggðar. Samskiptin eru vegna fyrirætlana hans og fleiri um að skipuleggja sumarhúsahverfi við Húsafellstorfuna og byggja sumarhús þar í framhaldi af því. Í greinum Ásgeirs koma fram ýmsar þær fullyrðingar sem tengjast bæði einstökum starfsmönnum Borgarbyggðar og kjörnum fulltrúum að ekki verður hjá því komist að fara aðeins yfir skrif hans. Það eru nefnilega oft tvær hliðar á flestum málum.

Ásgeir gefur starfsmönnum Borgarbyggðar ekki háa einkunn í skrifum sínum. Í löngu máli rekur hann samskipti sín við starfsmenn Borgarbyggðar vegna þessa máls. Í því kemur m.a. ítrekað fram að þeir séu ósannsöglir, týni og gleymi gögnum og sendi frá sér bréf sem séu full af rangfærslum. Örugglega má benda á eitthvað eitthvað í þessu ferli öllu sem betur hefði mátt fara. Það er sjaldan sem svo er ekki í flóknum málum. Mikið af ávirðingum Ásgeirs í fyrrnefndum greinum á hendur einstökum starfsmönnum eru hins vegar órökstuddar fullyrðingar sem oftar en ekki byggja á tilvitnunum í tveggja manna tal. Það er engin leið að sannreyna hvað sagt er við slíkar aðstæður og því erfitt fyrir starfsmenn að verja hendur sínar og heiður í slíkri orðræðu. Ef til þess er ríkur vilji þá er auðvelt að afflytja flest það sem sagt er undir fjögur augu. Það er hins vegar umhugsunarefni ef starfsfólk stjórnsýslunnar þarf að búa við það vinnuumhverfi að samskipti, sem fara fram í tveggja manna tali, rati beint í fjölmiðla, því til ófrægingar.

 

Húsafellstorfan hefur ákveðna sérstöðu

Það land í eigu Ásgeirs og fjölskyldu hans sem áætlað var að skipuleggja sem sumarhúsahverfi tilheyrir svokallaðri Húsafellstorfu þar sem m.a. gömlu bæjarhúsin í Húsafelli standa. Húsafellstorfan er undir hverfisvernd og er á náttúruminjaskrá. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar segir um Húsafell: „Tilkomumikið, fjölbreytt landslag, víðlendur skógur, laugar og lindir. Vinsælt útivistarsvæði. Þegar friðað að nokkru á vegum landeigenda, Skógræktar ríkisins og Náttúruverndarráðs“. Húsafellstorfan er sögufrægt svæði í eigu margra aðila. Við slíkar aðstæður er yfirleitt unnið með viðkomandi svæði sem eina heild. Því liggur í hlutarins eðli að skipulagsmál við slíkar aðstæður geta verið enn flóknari og erfiðari en almennt gerist. Ef fyrirhugað deiliskipulagssvæði er innan svæðis á náttúruverndarskrá, sbr. aðalskipulag, þarf að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar Íslands svo dæmi sé tekið.

 

Staðan verið skýr í tvö ár

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að þann 6. júní 2016 sendir þáverandi byggingarfulltrúi Borgarbyggðar tölvupóst til fulltrúa fyrrgreindra landeigenda um að fyrirhugaður fjöldi frístundalóða á umræddu landi rúmist ekki innan marka aðalskipulags fyrir umrætt svæði. Fyrri upplýsingar þar um frá landeigendum höfðu ekki reynst réttar. Þar kemur skýrt fram að það þurfi að breyta aðalskipulagi svæðisins til að þær séu framkvæmanlegar. Það hefur því legið fyrir um tveggja ára skeið að þær áætlanir sem kynntar voru um uppbyggingu sumarhúsa í umræddu landi gengu ekki upp samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

 

Samkomulag milli landeigenda er ekki fyrir hendi

Ekki er samstaða milli landeigenda á Húsafellstorfunni um þær framkvæmdir sem Ásgeir og fjölskylda fyrirhuga í Húsafelli. Þegar umsókn um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda var grenndarkynnt, gerðu allir eigendur nærliggjandi landspildna alvarlegar athugasemdir við umsóknina. Þeir gerðu m.a. kröfu um að vinnu við deiliskipulag fyrir svæðið sunnan þjóðvegar á Húsafelli yrði lokið og það skipulagt sem ein heild áður en byggingarleyfi yrði gefið út. Þeir lögðu einnig áherslu á að unnið yrði að umræddu deiliskipulagi í samvinnu allra þeirra landeigenda sem málinu tengjast. Fyrr en slíkt samkomulag landeigenda liggur fyrir þá hafa starfsmenn Borgarbyggðar harla litla möguleika á því að ljúka vinnu við skipulagsmál á svæðinu og afgreiða umsóknir um byggingarleyfi.

Eitt atriði enn skiptir máli í þessu sambandi sem ekki kom fram í fyrrgreindum greinum Ásgeirs. Upplýst hefur verið í samtölum við aðra landeigendur að Húsafellstorfunni að ekki liggi fyrir staðfesting á hvernig vegtengingu sé háttað inn á umrædda landspildu þar sem Ásgeir og fjölskylda hans fyrirhuga að reisa sumarbústaði. Þegar eignarhaldi á sumarhúsalóð er þinglýst er grundvallaratriði að skýrt sé tekið fram í þinglýsingu á hvern hátt vegtenging lóðareigenda sé tryggð að lóðinni þannig að fyrirkomulag aðgengis sé ótvírætt um óráðna framtíð. Sé aðgengi að tilteknu landsvæði ekki skýrt eða ekki fyrir hendi þá hefur það áhrif skipulagsmál og nýtingu umrædds lands.

 

Hálfkveðnar vísur og aðdróttanir í garð kjörinna fulltrúa

Undir lok seinni greinar Ásgeirs minnist hann á tölvupóst frá kjörnum fulltrúa án þess að vitna orðrétt í póstinn né tilgreina hver það er sem skrifar hann. Hann leggur tölvupóstinn út á þann veg að það megi skilja af honum að utanaðkomandi öfl ráði því hvaða mál séu tekin fyrir hjá sveitarfélaginu. Tvennt er rétt að benda á í þessu sambandi. Í sveitarstjórn Borgarbyggðar sitja níu fulltrúar. Það er frekar sérstakt að bornar séu fram ávirðingar á opinberum vettvangi á einn ótilgreindan úr hópi sem þessum án þess að tilgreina hver viðkomandi er eða tilgreina nákvæmlega hvernig þau orð féllu sem til er vitnað. Því sitja allir fyrrverandi sveitarstjórnarmenn undir þessu ámæli og sá sem ásökuninni er beint að getur ekki varið sig. Í annan stað lætur Ásgeir að því liggja að „utanaðkomandi öfl ráði því hvaða mál séu tekin fyrir hjá sveitarfélaginu“. Mér persónulega finnst slíkur málflutningur ekki vera boðlegur en það eru greinilega ekki allir sammála því.

 

Ásakanir um lögbrot

Ásgeir fullyrðir í lok seinni greinar sinnar að starfsmenn og kjörnir fulltrúar hafi eytt milljónum króna af almannafé í lögfræðikostnað til að „réttlæta ólöglegar gjörðir í skipulagsmálum“. Þarna er fullyrt um ólöglegar gjörðir án frekari rökstuðnings. Nú er það staðreynd að í skipulagslögum eru hlutaðeigandi aðilum gefnar mjög ríkulegar heimildir til  að skjóta máli sínu til úrskurðaraðila ef um það er ágreiningur. Má þar til nefna bæði Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og embætti Umboðsmann Alþingis. Það er ekkert óalgengt að það séu uppi mismunandi skoðanir varðandi sjónarmið, útfærslur eða túlkanir í skipulagsmálum sem geta verið bæði flókin og vandasöm. Í slíkum tilvikum er hægt og oft nauðsynlegt að skjóta ágreiningi milli aðila til þar til bærra stofnana. Þegar það gerist er eðlilegt og nauðsynlegt  fyrir sveitarfélagið að skýra út sína hlið málsins fyrir fyrrgreindum úrskurðaraðilum ekki síður en gagnaðilans. Það kostar fjármuni að kaupa sérfræðiþjónustu í slíkum tilvikum. Það hefur verið litið svo á að það sé skynsamlegra í slíkum tilvikum að leggja í kostnað við að verja hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess, heldur en að gera það ekki. Með því að skýra ekki út sjónarmið sveitarfélagsins á það á hættu að fá yfir sig úrskurði sem væri óverðskuldaðir sökum þess að hagsmunagæslu fyrir hönd sveitarfélagsins hafi ekki verið sinnt. Þegar upp er staðið yrði það að öllum líkindum miklu dýrara fyrir sveitarfélagið að tapa málum vegna þess að sjónarmið þess hefðu ekki verið skýrð heldur en að kaupa sérfræðiþjónustu til að færa rök fyrir málstað þess. Allt tal um að slík sérfræðiþjónusta sé keypt til að „réttlæta ólöglegar gjörðir“ er því fjarri raunveruleikanum samkvæmt eðli máls eins og hér hefur verið rakið að framan. Lögbrot er allt annað mál en ágreiningur um túlkun á texta aðal- eða deiliskipulags.

 

Að lokum

Undirritaður hefur hér að framan farið yfir ýmis atriði sem nauðsynlegt var að gera í framhaldi af skrifum Ásgeirs Sæmundssonar um samskipti hans við starfsfólk Borgarbyggðar. Mikilvægt er að mati undirritaðs að skýra mál sem þessi frá öllum sjónarhornum, þegar farið er með þau í fjölmiðla, svo ekki verði komið inn ranghugmyndum hjá þeim sem ekki þekkja málavexti.

 

Gunnlaugur A Júlíusson.

Höf. er sveitarstjóri í Borgarbyggð.