Skotæfingasvæði í 150 m fjarlægð frá fólkvangi?

Hilmar Már Arason

Nú er lag að hlusta, leita samráðs og taka upplýsta ákvörðun með hag allra sem eru að nýta sér svæðið í huga.

 

Fimmtudaginn 4. maí samþykkti byggðarráð Borgarbyggðar að úthluta Skotfélagi Vesturlands svæði sem liggur við fólkvanginn Einkunnir undir skotæfingar. Þar sem það liggur næst eru 150 m á milli svæða.

Á meðan skipulag skotæfingasvæðisins var í auglýsingaferli og það kynnt fyrir íbúum komu mjög sterk viðbrögð gegn þessari fyrirætlan Borgarbyggðar. 58 einstaklingar skiluðu inn mótmælum við slíkri framkvæmd á þessum stað, tveir undirskriftarlistar bárust sveitarstjórn og félagasamtök sem nýta sér fólkvanginn til útivistar, sum meira en 60 ára, lýstu andstöðu sinni þ.e. Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Hestamannafélagið Skuggi og Umsjónarnefnd Einkunna. Íbúar í Lækjarkoti lýstu yfir andstöðu sinni, en í Lækjarkoti er rekin öflug ferðaþjónusta, listagallerí og járnsmiðja sem skapa 20 manns vinnu. Íbúar Lækjarkots lýstu því yfir að staðsetning skotæfingasvæðins kippti fótunum undan rekstri þeirra, ef af þessari ákvörðun yrði þyrftu þau að bregða búi og flytja sig um set.

Mótmæli íbúa Borgarbyggðar voru af ýmsum toga. Íbúar bentu á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi Borgarbyggðar, uppbyggingu á fólkvanginum, öryggisþáttum og starfsemi sem er innan og við fólkvanginn. Einnig var vitnað til hljóðmengunar, öryggismála, náttúruupplifunar, stærðar sveitarfélagsins, til náttúru fólkvangsins og bent á hve stutt er í æskulýðstarf, mannvirki og náttúrufyrirbrigði. Jafnframt bárust athugasemdir vegna nálægðar við atvinnustarf, þ.e. ferðaþjónustu og listagallerí. Rétt er að benda á vaxandi ferðamannastraum bæði innlendra og erlendra í fólkvanginn.

Þessum athugasemdum hefur ekki enn verið svarað!

Borgarbyggð fékk Ólaf Hjálmarsson hljóðverkfræðing til að mæla hljóðstyrk frá riffli sem skotið var úr á fyrirhuguðu skotæfingasvæði. Hann kom og kynnti niðurstöður sínar á fundi í Menntaskólanum. Í máli hans kom m.a. fram að fyrri hljóðmælingar voru ekki rétt framkvæmdar, hljóðmanir svokallaðar hafa óveruleg áhrif á hljóðstyrk (en mikil sálfræðileg áhrif) og engin hljóðmæling fór fram á reiðveginum næst fyrirhuguðu skotæfingasvæði. Í lok fundarins var rætt um mikilvægi þess að slíkar hljóðmælingar færu fram. Því miður er skýrsla Ólafs ekki aðgengileg á netinu. Ég hvet sveitarstjórn að gera hana opinbera og láta fara fram hljóðmælingar á viðeigandi stöðum.

Í fylgiskjölum með umsókn Skotfélags Vesturlands er vitnað til reglugerðar þar sem kemur fram að ef nauðsyn beri til megi veita undanþágu frá banni til að nota hljóðdeyfi (hann mun dempa hljóðið um 30 dB) á öll vopn til þeirra sem nota skotvopn vegna atvinnu sinnar. Hvergi er minnst á skotæfingar í reglugerðinni! Í minnisblaði þeirra kemur fram að það hafi farið fram mæling þar sem hljóðstyrkur hafi mælst 60 dB, hvað var það langt frá skotstað? Minni á að fólkvangurinn er í 150 m fjarlægð. Fólki til fróðleiks þá rakst ég á þessa mynd á netinu:

Ég vil minna á og vekja athygli á nokkrum staðreyndum sem hafa komið fram:

 • 150 m eru frá riffilbrautinni að fólkvangsmörkum.
 • rúm 1200 m loftlína er frá riffilbraut að næstu íbúabyggð.
 • 600 m loftlína er frá riffilbraut að göngustíg sem liggur á milli Álatjarnar og Háfsvatns.
 • um 1000 m loftlína er frá riffilbraut að skátaskálanum Flugu.
 • 800 m eru frá riffilbraut að fjölförnum reiðveg/akveg/gönguleið sem liggur í Einkunnir.
 • 800 m eru frá riffilbraut að Álatjörn.

Í samstarfssáttmála núverandi meirihlutaflokka er boðað:

„…að innleiða í ríkara mæli langtímahugsun með skýrum markmiðum og framtíðarsýn. Til þess að slík vinna öðlist gildi þarf að leita eftir frumkvæði og þátttöku íbúa í stefnumótun sveitarfélagsins. Því verða gildi á borð við samvinnu, auðmýkt og traust höfð að leiðarljósi.“

Hver er staðan á þessum vettvangi í Borgarbyggð?

 • Var tekið tillit til á annað hundrað athugasemda? Var þeim svarað?
 • Var tekið tillit til þeirra félaga, s.s. hestamanna, Skógræktarfélags Borgarfjarðar og umsjónarnefndarinnar sem eru að nýta umrætt svæði í dag og hafa verið á svæðinu í tæp 70 ár?
 • Var rætt við og leitað samráðs við ábúendur í Lækjarkoti þar sem rekin er öflug ferðaþjónusta, listagallerí og járnsmiðja sem skapa um 20 manns atvinnu?
 • Var hlustað, rætt við og tekið tillit til óska skotfélagsmanna?
 • Hvað var oft fundað með ofangreindum aðilum? Sátu allir við sama borð?

 

Það væri mjög farsælt fyrir samfélagið í Borgarbyggð og öll samfélög að starfa í þeim anda sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur boða í Borgarbyggð. Það skapar einingu, sátt, traust og stolt hjá íbúum sveitarfélagsins með gerðir sveitarfélagsins síns. Nú er lag að hlusta, leita samráðs og taka upplýsta ákvörðun með hag allra íbúa sem eru að nýta sér svæðið í huga.

 

Hilmar Már Arason.

Höf. er formaður umsjónarnefndar Einkunna, útivistarperlu við Borgarnes.

 

Fleiri aðsendar greinar