Skömmin lúmska – „Afsakið mig ef mig skyldi kalla“

Steinunn Eva Þórðardóttir

Einhverra hluta vegna hef ég verið að hugsa mikið um skömm undanfarið. Ekki það að ég hafi orðið fyrir einhverju svakalegu né gert eitthvað hræðilegt sem ég þarf að skammast mín fyrir, heldur þessi hversdagslega innri kúgun sem við beitum okkur sjálf, mörg hver að minnsta kosti. Ég tilkynnti opinberlega í vetur að ég ætlaði að hætta að vera upptekin af því hvað fólk haldi og einbeita mér að því að vera ég sjálf. Það hefur gengið nokkuð vel en kona snýr ekki af ævilöngum vana einn, tveir og þrír. Þó að ég sé stolt af því að hafa hætt í dagvinnunni og stofnað fyrirtæki sem gerir góða hluti með því að kenna fólki leiðir til að verða hamingjusamara og heilbrigðara þurfti ekki nema eina spurning með votti af háði: „Er ekki brjálað að gera?“ til að ég færi að velta fyrir mér hvort fólk héldi að ég væri að gera tóma vitleysu, sjálfstraustið hvarf og sjálfsgagnrýnin tók yfir.  En mér tókst að sansa sjálfa mig aftur með því að minna mig á að tilgangur minn var ekki að hafa brjálað að gera heldur frekar að skapa aðstæður til að eiga gott líf. Auðvitað er gott að hafa háar tekjur en tíminn er sú auðlind sem er dýrmætust og lífið er núna. Þannig að ég er á góðum stað, á mér líf og er sátt en samt dett ég kylliföt í skömmina við og við. Ég veit að ég er ekki ein þar, við erum margar konurnar sem höfum aldrei farið í bikini því  við skömmumst okkar fyrir magann, eða syngjum aldrei innan um fólk því að við getum ekkert sungið eða tökum til máls opinberlega því að við gætum sagt eitthvað vitlaust og orðið okkur og fjölskyldunni allri til skammar. Fólk gæti líka haldið að við héldum að við værum eitthvað!

Karlarnir hafa ekki verið eins opnir með þessa hluti til skamms tíma en þeir hafa svo sannarlega pressu á sér. Þeir mega ekki væla, ekki vera kerlingar, þeir þurfa að skaffa vel, ganga vel í skólanum en aldrei nokkurn tímann má sjást að þeir hafi fyrir því, með því að læra heima  til dæmis. Karlar verða að vera klárir, þeir geta ekki leyft sér að spyrja ráða, spyrjast til vegar eða biðja um aðstoð. Til að fela óöryggið hið innra setja þeir upp grímur, karlmennskugrímur (sbr. Lewis Howes): grínarinn sem tekur aldrei neitt alvarlega, ríki gaurinn sem á alltaf flottari bíl, síma eða jakkaföt en næsti maður og sá sem finnur stöðugt þörf til að vera setja aðra niður, vera aðalgaurinn. Efstur í goggunarröðinni.

Yrði líf okkar allra ekki miklu betra ef við létum af dómum á öðrum, samanburði við aðra og þessari endalausu óvægnu sjálfsgagnrýni? Má ekki fólk, megum við ekki bara vera eins og við erum? Erum við ekki ágæt? Er það ekki?

 

Steinunn Eva Þórðardóttir.

Fleiri aðsendar greinar