Skólarnir okkar

Liv Åse Skarstad

Akranes er fjölskylduvænn bær og hér er gott að búa. Hér er fallegt umhverfi, gott mannlíf, frábær uppeldisskilyrði fyrir fólk með börn, góðir skólar og afar öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Fasteignaverð hefur verið hagstæðara en í nærliggjandi sveitarfélögum og margt sem lokkar fólk hingað á Skagann. Hér eru góðir leik- og grunnskólar og öflugur fjölbrautaskóli, lítið atvinnuleysi og nálægðin við höfuðborgarsvæðið er kostur fyrir þá sem kjósa að vinna þar. Allt þetta gerir það að verkum að æ fleiri velja sér Akranes til búsetu.

Skólarnir okkar eru mikilvægir í lífi hvers bæjarbúa og það má segja að hjarta hvers bæjar sé innan veggja þeirra. Þar liggur okkar auður og því er gríðarlega mikilvægt að þar sé tryggt umhverfi fyrir alla, bæði börn og starfsmenn. Öll viljum við að börnin okkar séu ánægð og að þeim líði vel bæði í leik og starfi. Þau eiga að eiga griðastað í skólanum. En það á einnig við um starfsmenn skólans, við viljum að þeirra umhverfi sé öruggt og að þeim líði vel í vinnunni.

Kennarastarfið hefur tekið miklum breytingum sl. ár og er að sönnu mjög mikið álagsstarf. Það er að sögn kennara bæði flóknara og erfiðara en áður og því fylgir andlegt og líkamlegt álag. Samkvæmt vef Landlæknisembættisins hafa kennarar verið áberandi í hópi þeirra sem leita til Virk starfsendurhæfingar. Margir úr þeim hópi glíma við kvíða, andlegt álag og vefjagigt og þessi hópur skarar fram úr hvað þetta varðar miðað við aðra háskólamenntaða hópa. Það þarf að viðurkenna að þetta mikla álag sé til staðar og koma fram með aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari kulnun í starfi og flótta úr stéttinni. Það þarf að hlúa betur að kennurunum okkar en gert hefur verið og gera þeim enn betur kleift að sinna því hlutverki sem við ætlumst til af þeim sem er að fræða ungviðið okkar, mennta það og þroska.

Máttarstoðir alls skólastarfs eru kennararnir og forsenda góðs skólastarfs er að þeir séu vel menntaðir og hæfir til starfa. Kennaramenntunin er sá hornsteinn sem allt starf skólans byggir á þrátt fyrir mikilvægi allra annarra starfa innan skólans. Akranes getur státað sig af því að hlutfall menntaðra kennara er með því hæsta sem þekkist á landinu, þetta á bæði við um leik – og grunnskólakennara. Þessu getum við verið stolt af en við verðum að vera vakandi fyrir því að aðstæður starfsfólks séu viðunandi, bregðast við ef svo er ekki. Það er nauðsynlegt til að halda okkar góða fólki í starfi.

 

Liv Åse Skarstad

Höf. skipar 3. sæti á lista Framsóknar og frjálsra á Akranesi