Skólarnir eru lífæðin

Bjarki Þór Grönfeldt

Sveitarstjórnarkosningar snúast um málefni nærsamfélagsins okkar. Í því eru skólarnir einn mikilvægasti þátturinn, hvað þá í sveitarfélagi eins og Borgarbyggð. Í sveitarfélagi sem telur varla fjögur þúsund íbúa eru starfræktir skólar á öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla. Um þessa sérstöðu verðum við að standa vörð. Skólamálin eru því eitt helsta hagsmunamál íbúa Borgarbyggðar.

Í Borgarbyggð eru nú starfræktir tveir grunnskólar, Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar, sem er með starfsstöðvar á Hvanneyri, Varmalandi og Kleppjárnsreykjum. Á kjörtímabilinu sem nú er að líða stóð yfir mikill styr um hvernig starfsemi skólanna skyldi háttað. Háværar raddir voru uppi um að fækka starfsstöðvum í Grunnskóla Borgarfjarðar og meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll út af málinu. Til allrar lukku náðu þessi áform ekki fram að ganga og enn er öflugri starfsemi haldið uppi á áðurnefndum starfsstöðvum. Stórar ákvarðanir sem þessar þarf nefnilega að taka í sátt við alla hlutaðeigandi. Grunnskólarnir í uppsveitunum eru mikilvægur þáttur í mannlífi svæðanna. Þar hafa margar kynslóðir, mann fram af manni, sótt sér menntun og kynnst samfélaginu í gegnum skólana. Þær rætur verða ekki slitnar upp auðveldlega, hvað þá fyrir óljósan árangur, hvort sem er í faglegu eða fjárhagslegu tilliti. Í þessari baráttu stóðu Vinstri græn með skólunum, og það munum við áfram gera.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur verið ein af lyftistöngunum í samfélaginu frá því til hans var stofnað. Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í rétt rúman áratug eru merki um áhrif hans á sveitarfélagið augljós. Ungt fólk er lengur á sínu heimasvæði en áður, sem er öllum til heilla og auðgar samfélagið á fjölda vegu. Einnig hefur skólinn sýnt það í verki að hann er mjög framsækin stofnun, og er til fyrirmyndar fyrir aðra skóla í mörgum málum. Til dæmis má nefna það að skólinn hefur frá upphafi lagt áherslu á því að hagnýta tækni í námi. Nú þegar aðeins er farið að líða á 21. öldina hefur komið æ betur í ljós hve mikilvægt tölvulæsi og tæknikunnátta verða í framtíðinni. Í öðru lagi reið skólinn á vaðið með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu fyrir nemendur sína, í samstarfi við Stéttarfélag Vesturlands. Í öllum þeim Alþingiskosningum sem haldnar hafa verið á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um að bæta aðgengi fólks, og þá sérstaklega ungs fólks, að geðheilbrigðisþjónustu. Margir hafa lofað, en eftirfylgnin hefur verið misjöfn, þó einhver hreyfing sé þó komið á málið núna. En Menntaskóli Borgarfjarðar sýndi í verki það sem litlar stofnanir geta áorkað: Hann er árabátur sem getur auðveldlega skipt um stefnu, þróað nýjar leiðir og fundið nýjar lausnir. Stærri stofnanir eiga það til að haga sér eins og olíuskip sem tekur langan tíma að fá til að skipta um stefnu. Á komandi árum er því mikilvægt að viðhalda þeim góða árangri sem Menntaskóli Borgarfjarðar hefur náð, og skólinn og Borgarbyggð ættu að vinna saman að því markmiði að fjölga nemendum sem koma víðar af landinu og vilja sækja sér menntun í MB.

Að lokum eru það háskólanir tveir, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst. Það er mikið fagnaðarefni, og léttir, að áform um að hrófla við starfsemi þeirra hafa ekki náð fram að ganga. Háskólarnir eru mikilvægur liður í því að gera Borgarbyggð að því skólasamfélagi sem það er. Fólk hvaðanæva af landinu sækir sér menntun í þessum tveimur skólum, og margir ílengjast hér, fá vinnu í héraðinu, stofna fjölskyldur og auðga samfélagið með ýmsum hætti. Sú sveitarstjórn sem verður kjörin í lok maí mun vonandi halda uppi öflugri baráttu fyrir háskólunum.

Skólarnir okkar eru lífæð samfélagsins og við megum því aldrei sofna á verðinum.

 

Bjarki Þór Grönfeldt

Höfundur er í 16. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð