Skólarnir á Akranesi

Kristinn Hallur Sveinsson

Drífandi starfsfólk, duglegir stjórnendur

Undanfarið hafa skólamál og kjör starfsfólks í grunnskólum og leikskólum verið mikið til umfjöllunar, enda er þetta mikilvægur málaflokkur. Leik- og grunnskólar á Akranesi eru frábærar stofnanir og bænum til mikils sóma. Undanfarið hefur varla liðið ár þar sem menntastofnun á Akranesi hlýtur ekki verðlaun af einhverjum toga. Hvernig má líka annað vera þegar skólarnir eru fullir af metnaðarfullu, drífandi starfsfólki og góðum stjórnendum sem hugsa út fyrir rammann.

 

Álag verður að minnka

Í kjölfar hrunsins varð grimmur niðurskurður til þessara stofnana raunin. Ekki hefur enn verið fyllilega bætt fyrir þann niðurskurð. Þar er t.d. hægt að nefna veikinda- og orlofsafleysingu í leikskólunum sem afnumin var á sínum tíma og hefur aðeins að litlu leyti verið skilað til baka. Þessi sparnaður átti að vera tímabundinn. Þetta veldur álagi á bæði starfsfólk og nemendur og er með rökum hægt að segja að sparnaðurinn kosti meira en hann skilar. Miðað við fjárhagsstöðu bæjarins ætti að vera hægt að gera betur á þessum vettvangi og það viljum við í Samfylkingunni gera.

 

Fjölga þarf fagaðilum

Á Íslandi er skóli án aðgreiningar opinber skólastefna. Það felur í sér að allir nemendur, fatlaðir eða ófatlaðir, eigi rétt á að sækja sinn heimaskóla og fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á þar. Nú er staðan sú að talsverður munur er á mönnun grunnskólanna okkar á þessu sviði. Fjölga þarf fagaðilum í Grundaskóla til að sinna auknum fjölda barna með sérþarfir. Þetta má ekki gera á kostnað annarra menntastofnana í bænum, eins og gert var fyrr á þessu kjörtímabili þegar meirihluti bæjarstjórnar gerði kröfu um fækkun stöðugilda í Tónlistarskólanum til að mæta aukinni stoðþjónustuþörf í Grundaskóla. Fulltrúar Samfylkingarinnar í skóla- og frístundaráði og bæjarstjórn mótmæltu þeirri aðgerð á sínum tíma.

 

Leikskólavist frá 18 mánaða aldri

Samfylkingin á Akranesi ætlar að tryggja leikskólavist frá 18 mánaða aldri. Til þess þarf að huga að nýjum leikskóla eða stækkun á öðrum 3ja deilda leikskóla bæjarins. Í samþykktri framkvæmdaáætlun bæjarins, sem lögð er fram af meirihluta bæjarstjórnar, er ekki gert ráð fyrir neinum peningum í nýbyggingar, hvorki við grunnskóla né leikskóla. Nauðsynlegt er að blása þarna til sóknar og Samfylkingin vill vera þar í forystu.

 

Kristinn Hallur Sveinsson

Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.

Fleiri aðsendar greinar