Skólaheimsókn FVA til Porto
Brynjar, Kristín Edda og Trausti
Í Fjölbrautaskóla Vesturlands er blómlegt samstarf í gangi við ýmsa skóla erlendis, aðallega í Evrópu, bæði heimsóknir og nemendaskipti. Á vordögum hélt frækinn hópur starfsfólks FVA til borgarinnar Porto í Portúgal í þeim tilgangi að kynna sér fyrirkomulag iðn- og bóknáms á framhaldsskólastigi þar ytra
Ferðin var vel heppnuð í alla staði og þátttaka góð en 26 starfsmenn lögðu leið sína til Porto, sumir alveg makalausir og aðrir ekki, en það voru samtals 40 manns í ferðinni. Skólaheimsókn sem þessi er styrkt af Vísindasjóði Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í Kennarasambandi Íslands og endurmenntunarsjóðum viðkomandi stéttarfélaga og er hægt að fá úthlutað á tveggja ára fresti.
Lagt var af stað frá Leifsstöð sunnudaginn 26. maí og flogið sem leið liggur til Porto. Árla á mánudeginum lá leiðin svo til litlu borgarinnar Ponte de Lima en borgin er sú elsta í Portúgal og vel þess virði að heimsækja. Í skólanum Escola Secundária de Ponte de Lima var vel tekið á móti okkur en í skólanum er bæði hægt að leggja stund á iðnnám og bóklegar greinar. Þar var áhugavert að sjá aðstöðu nemenda samanborið við það sem okkar nemendur hafa. Mörg skemmtileg verkefni nemenda bar fyrir augu og sitthvað sem hægt er að yfirfæra til FVA. Augsýnilega er fjármagn sem veitt er t.d. til verknámskennslu töluvert meira hér á Fróni en í Portúgal. Samt sem áður bar fyrir augu áhugasama nemendur sem unnu t.d. að forritun á gamlar forritunarvélar og alls ekki nýmóðins. Eftir heimsóknina var gengið um miðbæinn og virt fyrir sér gömul mannvirki en sum voru frá tímum Rómverja.
Árla á þriðjudeginum var komið að heimsókn í skólann Escola Secundária do Castelo de Maia sem staðsettur er í útjaðri borgarinnar Porto. Þar fór fram hefðbundin kennsla m.a. í málm- og tæknigreinum ásamt rafiðngreinum. Aðstaðan var ágæt en svartir myglutaumar niður veggina skyggðu aðeins á gleðina. Það sem vakti sérstakan áhuga málmiðngreinakennara var áfanginn Tölvustýrðar vélar og hönnun sem er sambærilegur við áfanga sem kenndur er í FVA, en viðfangsefnið í Porto var sérlega áhugavert. Nemendur unnu í verkefni sem kallast F1 in Schools, sem er alþjóðleg keppni í hönnun, smíði og keppni á formúlubílamódelum. Í stuttu máli felst þessi keppni í því að allir skólar sem taka þátt fá fyrirfram ákveðið smíðastykki (block) sem er eiginlega undirvagn bíls, nemendur hanna þá línur bílsins og taka sérstakt tillit til dekkja, fjöðrunar, flapsa (niðurtogs) og þyngdar. Ýmist voru hlutir þrívíddarprentaðir eða smíðaðir í tölvufræsi (CNC). Nemendur sýndu mikla færni í hönnun á Autodesk Inventor og voru hönnunin færð yfir í tölvustýrða vél og í þrívíddarprentara. Fyrir áhugasama má benda á vef F1 in Schools https://www.f1inschools.com/. Við vorum leyst út með þrívíddarprenti af vinaþjóðunum Íslandi og Portúgal og allstóru líkani af Hallgrímskirkju! Gaman var síðan að hlusta á kór yngri nemenda syngja og spila fyrir okkur og eftirminnilegt var að skoða aðstöðu afreksíþróttanemenda sem m.a. hafa stúdíó fyrir sig, hljóðeinangrað með eggjabökkum.
Við fengum að sitja í kennslustundum í ýmsum námsgreinum og var gaman að sjá nálgun kennara á viðfangsefnin. Voru nemendur mjög áhugasamir um land og þjóð og við lærðum heilmargt um þau í leiðinni.
Ásamt því að kynna okkur kennsluhætti, námsmat og fyrirkomulag náms á framhaldsskólastigi í Portúgal skoðuðum við okkur um í borginni Porto og nutum alls þess sem portúgölsk menning hefur upp á að bjóða. Sumir brugðu á leik og voru lengur í borginni eftir að skyldustörfum lauk 29. maí. Var það einróma álit allra ferðalanga að ferðin hafi verið mjög vel heppnuð og komum við aftur heim endurmenntuð og full innblásturs og tilhlökkunar fyrir komandi skólaári. Ferðin varð einnig hin mesta heilsubót svona eftir á að hyggja þar sem við náðum að fylla vel á d-vítamín birgðirnar fyrir þetta mjög svo hressilega rigningarsumar sem beið okkar svo hér heima. Öll hófum við því störf á ný í haust í FVA með portúgalska sól í hjarta en veðurbarið, rammíslenskt bros á vör.
Brynjar Kristjánsson, Kristín Edda Búadóttir og Trausti Gylfason, kennarar í FVA