Skólaheimsókn FVA fólks til Kaupmannahafnar

Finnbogi og Steinunn Inga

Dagana 23.-28. maí sl. hélt hópur kennara frá Fjölbrautaskóla Vesturlands til kóngsins Kaupmannahafnar. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfsemi þriggja framhaldsskóla í borginni en auk þess voru skipulagðar ferðir þar sem hópurinn brá sér í líki opinmynntra ferðamanna.

Á þriðjudagsmorgni var farið í Hillerød Tekniske skole sem er verkmenntaskóli í úthverfi borgarinnar, með afar fjölbreytt námsframboð, þ.á.m. bátasmíði og matreiðslu. Þar eru um 8000 nemendur og rúmlega 600 starfsmenn. Hlýtt var á fyrirlestur um starfsemina sem er afar flókin í framkvæmd, m.a. vegna þess að kennsla fer fram víða um land, og síðan voru starfsstöðvar heimsóttar, svo sem húsasmíða- og rafvirkjadeildin sem minnti um margt á okkar verknámsdeildir en aðstaðan er um margt betri í FVA. Við skólann er líka kennt málaranám en þar stóðu próf sem hæst, einnig í málmiðngreinum. Fram kom m.a. að nemar eru á styrk eða launum í námi og að Danir glíma við svipaðan vanda og við Íslendingar, að færri sækja í iðnnám en þarf til, nóg er af atvinnu en alltof fáir iðnaðarmenn við störf. Eins vantar menntaða kennara í iðngreinum. Í FVA er staðan þannig að aðsókn í skólann er afar góð, þar eru um 450 nemendur í stað- og dreifnámi, og síðustu tvö ár höfum við bætt verulega við nemendafjölda í iðngreinum. Eftir skoðunarferðina var hópnum boðið til glæsilegs hádegisverðar í mötuneyti skólans.

Síðan var þrammað eftir Carlsbergsvej yfir í Fredriksborg Gymnasium. Þann skóla stofnaði Friðrik IV. Danakonungur árið 1630. Skólinn var ríkmannlega búinn að flestu, bæði húsakostur og áhöld öll virtust ný og af bestu gerð og umhverfi allt hið fegursta. Tveir nemendur og tveir starfsmenn tóku á móti hópnum ásamt Anders skólameistara, sögðu frá skólanum og buðu upp á gos, ávexti og kökur. Síðan var gengið um húsakynni. Í FVA er listasvið í boði á opinni stúdentsbraut þar sem áhersla er lögð á myndlist og nýsköpun og því var gaman að sjá að í þessum skóla er áhersla á listir og skapandi greinar. Hópurinn sá nemendur m.a. sinna módelsmíði, leiklist og tónlist – einn úr kennarahópnum gat ekki stillt sig um að taka smá trommusóló sem eflaust hefur hresst þá sem sátu í prófi í næstu kennslustofu. Einnig var nýbúið að setja upp klifurvegg í sal skólans og sýndi þá einn úr hópnum nokkuð góða takta.

Næsta dag var farið í Christanshavns Gymnasium, sem einnig var stofnaður á 17. öld. Troels skólameistari fór yfir sögu þessa skóla sem er mjög eftirsóttur, á besta stað í bænum með 800 bóknámsnemum í aldagömlu húsnæði sem stendur að hluta á fornum kirkjugarði. Eftir sögulegt yfirlit og ágæta umfjöllun um framhaldsskólakerfið í Danmörku voru líflegar umræður og hugmyndavinna um nám og kennslu með nemendum og kennurum skólans. Jacob Nyboe Ölgård, sem kennt hefur dönsku við FVA sl tvö ár við góðan orðstír og var okkar helsti leiðsögumaður í ferðinni, snýr aftur til starfa við þennan skóla í haust og verður sárt saknað. Síðan var genginn hringur um næsta nágrenni með leiðsögn og þar mátti m.a. sjá Rasphúsið þar sem m.a. Íslendingar afplánuðu dóm fyrir að stela snærisspotta og Kirkju vors frelsara með frægum spíralturni. Eftir samlokur og gos var haldið út í sólina, tekinn hringur í fríríkinu Christianiu og skoðuð sögu- og hönnunarsýning á Nordatlantes Brygge. Þá var lokið formlegri dagskrá í skólaheimsókninni, á fimmtudagskvöldið borðaði hópurinn saman á indverskum veitingastað og var þar m.a. skálað fyrir Dönum og Jónasi Hallgrímssyni.

Ferð þessi var vel heppnuð í alla staði og hin fróðlegasta. Á starfsdögum í FVA í maílok var síðan unnið úr þeim hugmyndum og pælingum sem safnað var í ferðinni og nýttar verða til góðra verka hjá okkur. FVA er fjölbreyttur skóli með breitt námsframboð, þar ríkir notalegt andrúmsloft og þjónusta við nemendur er til fyrirmyndar. Starfsmenn skólans eru 67 talsins, þar af 50 kennarar.

Vísindasjóður Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda veitti félagsmönnum sínum styrk til fararinnar. Næst er í boði að sækja slíkan styrk árið 2024 og er þegar hafinn undirbúningur að frekari landvinningum FVA.

 

Finnbogi Rögnvaldsson, framhaldsskólakennari

Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari