Skoðum allar leiðir

Gunnbjörn Óli og Gústaf Jökull

Vegna umfjöllunar um vegagerð um Teigsskóg, endurútreiknig og endurhönnun af norskum aðila á leiðum sem þar hafa verið settar fram af hálfu svokallaðra umhverfissinna og kostunarmanna þeirra, fóru undirritaðir að athuga hvaða leiða ætti að líta til. Og viti menn, það á að skoða, reikna og ef til vill endurhanna D (göng um Hjallaháls) sem er bara hálfnað verk. Það þarf þá önnur göng, Djúpifjörður-Gufufjörður, á móti Þ-H þverunar fjarða og um Teigsskóg. Og líklega taka til skoðunar A leið sem hefur aldrei verið inni hjá Vegagerðinni vegna kostnaðar. En það á EKKI að taka leið I til skoðunnar, sem er eins og Þ-H leiðin sem Vegagerðin hefur ákveðið að fara, nema að hún fer ekki yfir þrætueplið Teigsskóg heldur á að liggja frá Hallsteinsnesi og yfir í Laugalandshraun og tengja bæði Bjarkalund og hringtengja Reykhóla við Vestfjarðaveg 60. Eða má bara gera hvað sem er við landið annar staðar en við Teigsskóg og í landi Grafar í Þorskafirði, til dæmis skera hlíðar í Djúpafirði og klaungrast upp á Ódrjúgsháls og niður í Gufufjörð?

Það hlýtur að vera krafa sveitarstjórnar og samfélagsins að skoða skuli allar leiðirnar sem Vegagerðin hannaði og reiknaði kostnað á til að geta borið allt saman. Og síðast en ekki síst þarf að liggja fyrir áætlun um hvenær hægt sé að keyra viðkomandi leiðir sem Vegagerðin hefur hannað.

Það skildi þá ekki vera að þessir svokölluðu umhverfisinnar og eigendur þessara jarða sem ekki vilja veginn um Teigsskóg séu að kaupa sér leið framhjá sínu landi með kostunarmönnunum sem telja sig umhverfissinna!

 

Með vinsemd og virðingu,

Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Gústaf Jökull Ólafsson.