Skipulagsslysfarir í Skógarhverfi

Einar Brandsson

Það er ört vaxandi pólitískur ósiður að nýta sumarleyfistíma til óvinsælla og illa ígrundaðra verka. Slík vinnubrögð afhjúpa um leið veikburða pólitíska forystu.

Meirihluti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hefur nú ákveðið eftir tæplega tveggja ára japl, jaml og fuður að auglýsa breytingar á aðalskipulagi og skipulagi Skógarhverfis, Garðalundar og Lækjabotna. Þeim fjölgar því skipulagsslysunum á því svæði líkt og ég rakti í grein í Skessuhorni fyrr á þessu ári.

Nú felst slysið í þeim einbeitta ásetningi meirihlutans að ganga nær og sneiða af framtíðarmöguleikum Garðalundar sem alhliða útivistarsvæðis. Jafnframt er lokað á möguleika á hótelbyggingu við Garðavöll.

Stundum gera slysin ekki boð á undan sér en í þessu tilfelli er það fráleitt svo því fjölmargir íbúar hafa á undanförnum tveimur árum lýst sig mótfallna þessum breytingum og svo er einnig með mig.

Slysið nú felst í því að skella byggðinni svo gott sem upp að Garðalundi og loka um leið fyrir einstakan möguleika á að tengja Garðalund og Klapparholt í eitt útivistarsvæði. Nú má meirihlutinn eiga það að hann gerir þetta með óbragð í munni og til þess að friða samvisku sína er ráðgert að dreifa grænum bleðlum hér og þar á milli húsa. Slíkir bleðlar eru og verða engum til gagns en eru bæjarfélögum stór fjárhagslegur baggi. Pólistískir samherjar meirihlutans í nágrannasveitarfélagi einu hafa nýlega leyst slíkt mál með því að fylla slíkt svæði með sjávarmöl.

Rauða svæðið sýnir mögulegt samfelt útivistarsvæði og hótelreit. Gula línan sýnir hvernig á að færa byggð inn á svæðið.

Á undanförnum árum hefur Garðalundur smám saman þróast sem útivistarsvæði og koma bæjarbúar þar saman af ýmsu tilefni hvort sem um er að ræða fámenna eða fjölmenna viðburði. Mikilvægt er að ýta undir þá þróun en hefta hana ekki því svæðið á einstaka möguleika og laðar til sín fólk.

Klapparholtið er óslípaður demantur og með meiri samfellu á svæðinu skapast mikill fjársjóður.

Hvarvetna í heiminum hafa hótel byggst upp á eða í nágrenni við golfvelli. Að loka á slíkan möguleika við okkar golfvöll og í nágrenni við okkar helstu náttúruperlu er ótrúleg skammsýni. Mér vitanlega er bara alls enginn að kalla eftir þessari breytingu nú.

Viðmót meirihluta bæjarstjórnar í þessu máli er með ólíkindum. Að ætla að lauma því í gegn um hásumar með atkvæðum tveggja bæjarfulltrúa er ekki siðaðra manna háttur. Það flokkast undir leyndarhyggju. Þeir íbúar sem áttuðu sig á kynningarfundi um málið og mættu til hans til þess að eiga orðastað við formann skipulags- og umhverfisráðs gripu í tómt. Formaðurinn var víðs fjarri. Á fundinum kom ekki fram mikill skilningur um möguleika svæðsins og talað um svæðið sem fer undir íbúðabyggð sem ómerkileg beitarhólf.

Ég hvet bæjarbúa til þess að láta í sér heyra vegna þessa máls. Vekja fulltrúa meirihlutans og gera þeim ljóst að ekki sé við hæfi að fórna framtíðarmöguleikum svæðisins á altari skammtímahagsmuna í byggingu örfárra íbúða sem auðveldlega má með betri vinnubrögðum finna annan stað.

Látum ekki læða inn enn einu skipulagsslysinu á Akranesi. Af þeim eigum við nóg.

 

Einar Brandsson

Höf. er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Akraness