Skipulagsslys í Skógarhverfi

Einar Brandsson

Meirihluti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hefur ákveðið að byggja nýjan 6-8 deilda leikskóla í Skógarhverfi. Líkt og áður hefur komið fram telur undirritaður að umrædd staðsetning sé röng. Ég er ennþá sömu skoðunar.

Í dag höfum við tvö skólahverfi fyrir grunnskólana. Skipting barnafjölda hefur verið um 60% í hverfi Grundaskóla og um 40% í hverfi Brekkubæjarskóla. Skipting búsetu barna á leikskólaaldri eftir hverfum er í takti við þessa skiptingu en samkvæmt minnisblaði skóla- og frístundasviðs eru 42% leikskólabarna búsett í hverfi Brekkubæjarskóla og 58% í hverfi Grundaskóla. Þrátt fyrir þessa skiptingu eru pláss í leikskólunum á þann veg að einungis um 17% þeirra eru í hverfi Brekkubæjarskóla en 83% í hverfi Grundaskóla. Það er einungis einn þriggja deilda leikskóli í hverfi Brekkubæjarskóla. Með ákvörðun um byggingu nýs leikskóla í Skógarhverfi versnar staðan enn frekar. Þess má geta að leikskólinn Akrasel er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá fyrirhugaðri staðsetningu hins nýa leikskóla.

Í dag er akstursleið að tilvonandi leikskóla eftir þröngum íbúagötum.

Asparskógar séð út á Ketilsflöt.

Gera má ráð fyrir miklum umferðarþunga á álagstímum um Asparskóga og næsta víst að mikið umferðaröngþveiti verður svo erfitt verður að komast um Skógarhverfið og jafnvel gæti umferð um Flatahverfi þyngst.

Mynd frá google.com/maps.

Í væntanlegu skipulagi fyrir Skógarhverfið er gert ráð fyrir að um síðir komi vegtenging út á Þjóðbraut.  Þá fyrst mun umferð á álagstímum verða nokkurn veginn í lagi.

Ein af höfuðröksemdum staðarvals nýja leikskólans var að umrædd lóð væri tilbúin til byggingar.  Það liggur auðvitað í augum uppi að lóð sem ekki er hægt að komast til og frá nema í gegnum umferðaröngþveiti í íbúðagötum Skógarhverfis getur alls ekki talist tilbúin og því síður heppileg. Að vísa til úrbóta sem þurfa stuðning Vegagerðarinnar og vinnuhraða hennar er ekki boðlegt fjölskyldufólki á Akranesi og íbúum Skógar- og Flatahverfis.

Það er því bjargföst skoðun mín að í uppsiglingu sé mikið skipulagsslys í Skógarhverfi sem á eftir að verða mjög íþyngjandi fyrir stóran hluta íbúa Akraness. Slys gera að jafnaði ekki boð á undan sér en þetta slys er fyrirsjáanlegt.

Þessi ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar er því afar óheppileg, svo ekki sé meira sagt. Verra er þó að fleiri skipulagsslys virðast í uppsiglingu í Skógarhverfi. Meira um það síðar.

Einar Brandsson

Höf. er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.