Skipulagsslys aldarinnar!

Guðsteinn Einarsson

Borgarbraut 55-57-59 – nokkrar athugasemdir við nýja „framtíðarsýn“

 

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt breytingar á deiliskipulag Borgarbraut 55-57 og 59. Breytingarnar á deiliskipulaginu heimila gríðarlegt byggingarmagn á þessum lóðum, sérstaklega á lóðunum nr. 57 og 59. Nýtingarhlutfall Borgarbrautar 59 er heimilað 2,41, nýtingarhlutfall Borgarbrautar 57 er 1,52 en leyft nýtingarhlutfall Borgarbrautar 55 er „aðeins“ 0,73. Samkvæmt þessu er augljóslega verið að vinna skipulagið með sérhagsmuni og hugmyndir lóðarhafa Borgarbraut 57 og 59, Húsa og lóða ehf, í huga. Deiliskipulagið er sérhannað með sérhagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni íbúanna í huga.

Íbúar í nágrenninu gera verulegar athugasemdir við boðaðar breytingar á skipulaginu. Niðurstaða sveitarstjórnar Borgarbyggðar er í aðalatriðum sú að hafna öllum ábendingum íbúanna. Í snepli sem Borgarbyggð sendi út og var dagsettur 19. apríl sl. er sagt að sveitarstjórn hafi samþykkt eftirfarandi breytingar í samræmi við athugasemdir: „ Vindálag verði skoðað við hönnun bygginga og lóða, þar sem kostur er skal koma fyrir regngörðum og stöku trjám á bílastæðasvæði til að bæta ásynd svæðisins og draga úr vindi.“  Niðurstaðan er því sú að ef byggingaraðila þóknast þá verður vindálagið e.t.v. skoðað og grænt svæði á lóðunum mun verða stöku tré á bílastæðum.

Íbúum svæðisins er síðan bent á að kæra megi samþykki sveitastjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál.

Þrátt fyrir að enn sé tími til að kæra deiliskipulagið þá var Borgarbyggð snögg að gefa út byggingarleyfi og hófst gröftur á lóðinn nánast samdægurs. Á vef Skessuhorns kom síðan frétt um bygginguna í síðustu viku.

Um er að ræða 8 til 9 þúsund fermetra byggingu.  M.v. teikningar þá eru þetta risavaxnir steinkumbaldar, úr öllum tengslum við umhverfi sitt, byggðir út á ystu brún lóðar.  Helst minnir þetta á þá steinkumbalda sem byggðir voru austantjalds á tímum kommúnista, fyrir hrun járntjaldsins. Húsin verða allt að 7 hæðir og eða 21 metri frá jarðhæð við Borgarbraut.

Til samanburðar og lauslega til tekið þá eru þessar byggingar með fjórum sinnum stærri gólfflöt en Hyrnutorg og tæplega 2,5 sinnum hærri (21m-8,6m). Þessi nýi steypukassi mun því gnæfa yfir allt umhverfi sitt. Þarna er áætlað að byggja 85 hebergja hótel og 28 íbúða hús auk verslunar- og þjónusturýmis. Bílastæði við þetta ferlíki eru áætluð 80 þar af 15 við aðalinngang við Borgarbraut.

Ekki er gert ráð fyrir neinum bílastæðum fyrir hópferðabíla, hvorki fyrir framan húsið eða neðan. Gera má ráð fyrir að 30-40 bílastæði þurfi fyrir íbúðirnar á svæðinu, þó bílastæðishús verið einnig í húsinu. Í ljósi þess að þarna á að vera hótel þá má búast við 25-30 bílaleigubílum, auk hópferðabíla, og þá vantar bílastæði fyrir aðra viðskiptavini  þjónusturýmisins og starfsmenn sem væntalega verða fjölmargir miðað við áformin. Efast má um að bílastæðafjöldi sé í samræmi við reglugerðir og líklegt að þar hafi verið fiktað við regluverk.

Þá má velta fyrir sér hvort þröngar götur, Kveldúlfsgata og Kjartansgata þoli þá umferð sem fylgja á þessum byggingum sem og þá geta nágrannar búist við ágangi vegna skorts á bílastæðum á svæðinu.

Í kynningarblaðinu Komdu vestur, kemur fram að sá arkitekt sem vann deiliskipulagið fyrir Borgarbyggð er líka arkitekt að steinkössunum sem reisa á á lóðunum. Þar er um augljósan hagsmunaárekstur að ræða, en leiða má líkur að því að arkitektinn hafi meiri fjárhagslega hagsmuni af því að teikna húsin en vinnu við deiliskipulagið, þannig að hann velji því frekar það sem hentar byggingaraðilanum, en hunsi hagsmuni íbúanna.  Þessi þáttur einn vekur upp þá spurningu hvort eðlilega hafi verið staðið að vinnslu deiliskipulagsins að hálfu Borgarbyggðar. Allt tal arkitektins um að þetta sé hluti af ákveðinni framtíðarsýn er líklega hugarburður hans eins því miðað við athugasemdir íbúanna nú og áður, þá deila þeir ekki þessari sýn með arkitektinum.

Samingur Borgarbyggðar við Hús og lóðir ehf er síðan undrunarefni út af fyrir sig. Þessi byggingaraðili fær samkvæmt honum 10% afslátt af gatnagerðargjöldum. Hingað til hefur sveitarstjórn Borgarbyggðar hafnað öllum beiðnum um afslætti af þeim gjöldum, „af prinsipp ástæðum.“  Nú fer lítið fyrir þeim prinsippum og þau gleymd og grafin.

Byggingaraðilinn fær að nafninu til greiðslusamning um gatnagerðagjöldin, eins og hægt hefur verið að semja um, en í næstu setningu í samningnum breytist allt! Þar kemur fram að Borgarbyggð muni kaupa tvær fullbúnar íbúðir í húsinu og þá mun Borgarbyggð „einnig kanna með hvort sveitarfélagið flytji starfsemi á sínum vegum í þjónushluta hússins“.

Veruleikinn er að verktakinn er að greiða gatnagerðagjöldin með sölu á íbúðum til Borgarbyggðar, en líklegt er að verðmæti tveggja íbúða sé nokkurn veginn það sem hann á að greiða í gatnagerðargjöld, auk þess sem þetta auðveldar honum að fjármagna byggingaráformin þegar fyrir liggur vilyrði um leigu þjónusturýmis að hálfu Borgarbyggðar.

Hvað varðar athugasemdir íbúa við deiliskipulagið þá segir það eitt að „reynt verði að koma til móts við óskir íbúa um að draga úr skuggamyndun“. Veruleikinn er sá að verið er að búa til óskapnað, í óþökk íbúanna á svæðinu, sem munu gjalda fyrir með verri búsetuskilyrðum.

Ásýnd Bifrastar var eyðilögð með að reisa byggingu fyrir framan staðinn.  Bæjaryfirvöld virðast ekki hafa lært af þeim mistökum og nú á að endurtaka mistökin og fara eins með Borgarnes.

 

Borgarnesi, 1. maí 2016

Guðsteinn Einarsson, Kveldúlfsgötu 13.

Fleiri aðsendar greinar