Skipulagsmál

María Júlía Jónsdóttir

Við í Borgarbyggð búum í einu fallegasta sveitarfélagi landsins. Við getum svo sannarlega verið stolt af öllu sem við höfum hér upp á að bjóða. Mikil uppbygging er í héraðinu öllu og stór verkefni framundan, bæði á vegum sveitarfélagsins og einkaaðila. Á vegum sveitarfélagsins ber helst að nefna viðbyggingu við Grunnskólann í Borgarnesi og byggingu leikskólans Hnoðrabóls við húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum. Þetta eru þarfar framkvæmdir og ánægjulegt að hægt sé að koma þeim af stað. En það þarf að halda vel utan um þessi verk og gæta þess að þau haldist innan þess fjárhagsramma sem áætlaður hefur verið.

Huga þarf í tíma að næstu stórframkvæmd á vegum sveitarfélagsins sem ætti að vera bygging nýs íþróttahúss í Borgarnesi eða viðbygging þess. Undirbúningsvinna fyrir slíka framkvæmd tekur langan tíma og krefst vandaðra vinnubragða. Þessa vinnu er mikilvægt að hefja sem fyrst svo hægt sé að fara í framkvæmdina á næstu árum. Mikilvægt er að fara strax í úrbætur á þeim mannvirkjum sem nú þegar eru þar til staðar og bæta þannig aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Skipulagsmál þarfnast sjálfsskoðunar hjá sveitarfélaginu. Við verðum að vera óhrædd við að horfa á það sem betur má fara í þeim málum og ófeimin við að rýna verk okkar til gagns. Það þarf að efla stjórnsýsluna, stytta afgreiðslutíma mála og auka skilvirkni. Í því sambandi er mikilvægt að byrja nýtt kjörtímabil á stöðugreiningu á skipulagsmálum og fara strax í kjölfarið í nauðsynlegar umbætur.

Þrátt fyrir óþreyjufulla bið eftir fjölgun lóða og uppbyggingu er nú loksins í Borgarnesi verið að leggja lokahönd á nýtt deiliskipulag í Bjargslandi. Þar er gert ráð fyrir 16 lóðum fyrir einbýlishús, 32 lóðum fyrir raðhús, 2 lóðum fyrir parhús og 2 lóðir fyrir fjölbýlishús með allt að 14 íbúðum. Þar sem skortur er á húsnæði Borgarnesi er ánægjulegt að sjá þetta nýja skipulag en jafnframt er einnig mikilvægt kanna möguleika á að þétta byggð í neðri bænum.

Á Hvanneyri hafa einnig verið skipulagðar um 100 nýjar lóðir sem tilbúnar eru til úthlutunar.

Við þurfum að móta skýra stefnu um það hvað við viljum sjá í Brákarey, þar eru spennandi tækifæri.

Með breytingu sem nú á sér stað á aðalskipulagi Borgarbyggðar frá 2010 verður afturkallað það skipulag sem gerði ráð fyrir legu þjóðvegar 1 fyrir utan Borgarnes.  Í framhaldi af þessari vinnu er mikilvægt að bæta umferðaröryggi við þjóðveginn í gegnum bæinn, en þar er oft mikil og þung umferð. Nú loksins er tækifæri til að koma slíkum framkvæmdum á dagskrá, því þörfin er mikil.  Eins þyrfti ný sveitarstjórn að beita sér fyrir bættu umferðaröryggi á fleiri stöðum innan sveitarfélagsins sem og kaflanum frá Borgarfjarðarbrú að Mosfellsbæ.

Þau eru mörg og margvísleg verkefnin sem bíða á nýju kjörtímabili en tækifærin til að vanda til verka og hefja uppbyggingu eru svo sannarlega til staðar. Við þurfum að nýta þau vel.

 

María Júlía Jónsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingar og óháðra í Borgarbyggð