Skipulagsmál í Borgarbyggð

Jónína Erna Arnardóttir

Borgarbyggð er sveitarfélag í sókn og örum vexti og það er jákvætt en því fylgja vaxtarverkir og um leið óhjákvæmilega meira álag á skipulagssvið sveitarfélagsins.  Á þeim tæpum fjórum árum sem ég hef stýrt umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefnd þá höfum við afgreitt mjög mörg mikilvæg og stór mál og önnur eru í burðarliðnum. Vegna þess að ég held að fólk almennt geri sér kannski ekki grein fyrir þeim miklu umsvifum, þá langar mig að nefna nokkur mál sem hafa verið afgreidd: Ísgöng í Langjökli, Hótel Húsafell (í tvígang), baðstaðinn Krauma, hótel og fjölbýlishús við Borgarbraut og fjölbýlishús í Bjargslandi. Einnig er verið að breyta gamla húsmæðraskólanum á Varmalandi í hótel, Fosshótel Reykholt er að stækka mikið og ný gistihús í Kaupangi og Englendingavík hafa verið tekin í notkun.  Skipulagsmál hótel- og íbúðabygginga á Borgarbrautar 57-59 tóku mikinn tíma m.a. vegna úrskurða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Búið er að vinna skipulag á Hvanneyri þar sem gert er ráð fyrir um 130 íbúðum og búið er að vinna nýtt skipulag fyrir stækkun og breytingu á Grunnskólanum í Borgarnesi. Verið er að vinna deiliskipulög yfir stór sumarhúsahverfi í Munaðarnesi og Húsafelli og mun það einfalda allar byggingarleyfisumsóknir á þeim svæðum. Verið er að aðlaga deiliskipulag í Bjargslandi að kröfu um minni og ódýrari íbúðir að ógleymdum öðrum stórum og smáum verkefnum sem afgreidd hafa verið. Undirbúningur að endurskoðun á Aðalskipulagi Borgarbyggðar er einnig hafinn en það verk mun taka nokkur misseri.

Nokkuð hefur borið á harkalegri gagnrýni á skipulagsmál í Borgarbyggð undanfarið.  Sumt af því er réttlætanlegt og hafin er vinna við að bæta verkferla og vinnulag til að gæta þess að erindum sé svarað innan tilskilins tíma. Mikið af þessari gagnrýni er þó ómálefnaleg og allt of oft byggð á þeim misskilningi að skipulagsmál taki stuttan tíma.  Það er þó ekki raunin enda er lagaramminn utan um skipulags- og byggingarmál stífur og byggir á ákveðnu ferli, það er jákvætt en tekur tíma.  Einnig eru þær raddir háværar sem segja að ekki sé hlustað á raddir íbúa, en mig langar að nefna þrjú mál þar sem það var einmitt gert; breyting á skiplagi við Brákarsund, en þar var byggingarmagn minnkað mikið og lóðir felldar niður, fjölbýlishús við Kveldúlfsgötu, en þar var einnig byggingarmagn minnkað og að lokum mótorsportsbraut við Vallarás/flugvöllinn, sem fallið var frá að gera á þeim stað.  Auk þess er oft ýmsu breytt í skipulagsferlinu sökum ábendinga og athugasemda sem koma fram, þótt ekki sé það stórvægilegt en getur þó skipt miklu máli. En auðvitað geta komið fram mál sem eru í eðli sínu umdeild og hótel og fjölbýlishús við Borgarbraut var eitt slíkt mál, en sveitarstjórn var einhuga um það verkefni og þar rís nú 28 íbúða hús sem mikil eftirspurn er eftir og glæsilegt hótel.  Annað umdeilt verkefni er skotæfingasvæði í landi Hamars. Auðvitað er einhver hávaði frá skotæfingasvæði en talið er að með notkun hljóðdeyfa og húss fyrir riffla, auk þess sem opnunartími verði takmarkaður þá megi finna rými fyrir þetta sport þarna ásamt útivist, golfi og hestamennsku svipað og gert er á Akureyri. Lýsing á breytingunni hefur verið kynnt og fer hún síðan í auglýsingu eftir vandaða yfirferð.

Öll þessi verkefni og að sjálfsögðu mjög mörg önnur minni hafa verið leidd af þremur starfsmönnum; forstöðumanni, byggingafulltrúa og skipulagsfulltrúa. Embætti skipulags- og byggingafulltrúa var skipt upp vorið 2017 og eru störf byggingafulltrúa og skipulagsfulltrúa nú aðskilin. Þessi skipulagsbreyting var nauðsynleg, bæði vegna vinnuálags og síðan eru þessi verkefni flókin og kerfjast æ meiri sérhæfingar.  Vinnuálag er yfirleitt mikið þar sem miklar framkvæmdir hafa verið í sveitarfélaginu á liðnum misserum.  Á sviðinu hefur síðan verið nokkur starfsmannavelta sem getur verið erfitt að eiga við á svo litlu sviði þar sem sérhæfing er mikil og sífellt auknar kröfur gerðar um smáa sem stóra þætti. Nú hefur verið bætt við einum starfsmanni, auk þess sem verkfræðiskrifstofan Verkís hefur tekið að sér að leiða ýmsa vinnu á sviðinu.  Þetta verður vonandi til þess að það takist að koma málum í þann farveg að þjónustan verði góð og erindum verði svarað fljótt og skýrt.

Hér að framan hefur verið stiklað á stóru um það helsta sem unnið hefur verið að á umhverfis- og skipulagssviði á liðnum misserum. Unnið hefur verið að mörgum málum á liðnum misserum og mikið er framundan sem betur fer, því það er mikið að gerast í stóru og kröftugu samfélagi.

 

Jónína Erna Arnardóttir.

Höf. er formaður umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar