Skipulagsmál eru okkar mál

Sigursteinn Sigurðsson

Nú eru framundan sveitarstjórnarkosningar og við kjósendur erum farin að vera vör við það. Á litlum stöðum eins og Borgarnesi kemur þetta fram í óvæntum vinabeiðnum á samfélagsmiðlum, extra brosum í röðinni í Bónus og hrósi fyrir eitthvað mjög hversdagslegt. Allt mjög skemmtilegt! Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er ekki í framboði en ég hef mjög sterkar skoðanir á mörgum málefnum sveitarfélaga, þá allra helst skipulagsmálum sem þessi grein mun fjalla um og þá mitt ylhýra Borgarnes. Mér er nokkuð sama hvaðan gott kemur og mun styðja hverja persónu eða flokk sem fær brautargengi í kosningunum að því að gera bæinn að paradís urbanismans. Það er skylda okkar allra að vinna saman að bættri búsetu, ekki satt?

Á mínum ferli sem arkitekt hef ég starfað mikið að einhverju sem má kalla „dreifbýlisarkitektúr“ og hönnun í litlum þéttbýliskjörnum og í sveitinni. Prinsippin eru nokkurn veginn þau sömu og þegar hugsað er um borgina en áherslur eru þó öðruvísi. Starf hönnuðarins er mun meira tengt samfélaginu og þá í tengslum við framtíðarsýn íbúa, fyrirtækja og stofnana sem eru fyrir á staðnum. Að gefinni reynslu er mikil hjálp fólgin í einhvers konar þekkingu til að takast á við óttann við breytingar. Það sem hefur verið mest áberandi í þessum verkefnum er hversu lítil tiltrú er á heimasvæðunum sem um ræðir. Orðræða eins og; „þetta myndi aldrei ganga hérna – við erum svo fá – það er ekki víst að þetta verkefni gangi upp til lengri tíma,“ er eitthvað sem ég hef heyrt – og það frá heimaönnum jafnt sem verkkaupa að tala um sín eigin verkefni og heimabyggð.

 

Afar lítið er byggt upp í Borgarnesi. Hlutfallslega hefur hvað minnst fjölgun íbúa verið í Borgarbyggð af sveitarfélögum á jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins og má sjá það í samanburði í tölum Hagstofunnar. Fyrirtæki hafa kosið að fara annað að byggjast þannig upp annarsstaðar en hér. Í minni vinnu fæ ég mjög oft fyrirspurnir frá fólki um hvort einhver íbúð sé í hönnun – þá ætlar viðkomandi að komast á biðlista. En ekkert er í boði né í pípunum. Þetta er allt frá einstaklingum upp í fjölskyldufólk. Sama má segja um fyrirtæki, en þá er helst spurt um skrifstofurými. Þessu hef ég reynt að koma á framfæri í nokkur ár en ekkert hefur gerst. Ég ætla alls ekki að ásaka neinn sérstaklega en einhver ástæða er fyrir því að nær enginn vöxtur er í Borgarbyggð miðað við ævintýralega fólksfjölgun í sveitarfélögum eins og Árborg og Ölfusi. Það er ekki gott að gera ekki neitt!

 

Þess vegna finnst mér skipulagsmálin þurfa að vera ofarlega skrifuð í kosningabaráttunni í Borgarbyggð og að því tilefni langar mig til að gefa nokkur ráð til frambjóðenda.

 

  1. Látið fagfólk um verkið

Kjörnir fulltrúar verða ekki sjálfkrafa sérfræðingar á sviði skipulagsmála, svona rétt eins og þeir verða ekki sjálfkrafa sérfræðingar í sérkennslu barna í grunnskólum, leikskólafræðum, öldrunarsérfræðingar eða ræktun grænna svæða. Hlutverk pólitíkusanna í sveitarstjórnum er að marka stefnu, eins og t.d. „að auka græn svæði á skipulagssvæði X“ eða „finna skal land fyrir skotsvæði innan sveitarfélagsmarkanna.“ Svo er best að láta fagfólkið um restina. Pólitíkusarnir koma þá sterkir inn þegar setja skal markmið í uppbyggingu og gleymum ekki að sveitarstjórnir hafa skipulagsvaldið til að gera slíkt. Það eru til verkfæri til slíkrar stefnumótunarvinnu, t.d. með gerð rammaskipulags fyrir afmörkuð svæði. Hugtakið má víkka út og ég bendi á stórkostlegt svæðisskipulag sem ráðgjafafyrirtækið Alta gerði fyrir Svæðisgarðinn á Snæfellsnesi.

 

  1. Þétta byggð í Borgarnesi

Þetta er ekki bara tískubóla frá Reykjavík. Þétting er nauðsynleg og mikil vakning um þetta er að eiga sér stað um heim allan, enda er þétting byggðar áhald í hönnun þéttbýlisrýma. Afleiðingarnar eru að byggðin verður mun hagkvæmari í rekstri og meiri líkur á að mannlíf blómstri. Ímyndum okkur að Borgarnes sé verksmiðja þar sem byggingarefnið, þ.e. steypan, malbikið, ljósastaurarnir og grænu svæðin séu yfirbyggingin en fólkið framleiðsluafurðin. Yfirbyggingin er langt í frá að vera hagkvæm miðað við framleiðslu og í raun væri verksmiðjan komin á hausinn fyrir löngu. Borgarnes, eins og við þekkjum það í dag, hlýtur að vera rekið í mínus. Þess vegna er svona erfitt að endurnýja gangstéttirnar, reka snjómokstur og garðslátt. Rökin hafa verið að landrými sé takmarkað á Digranesinu sjálfu en það er ekki rétt. Auðveldlega væri hægt að bæta við sem nemur um 200 íbúðum innan bæjarmarkanna án þess að leggja svo mikið sem eina einustu nýja íbúðargötu. Ekki þyrfti að byggja hátt né fara út í stórkostlegar landfyllingar né niðurbrot kletta.

 

  1. Laða að fjölbreyttan hóp íbúa

Þegar búið er að úthluta lóðum, ganga frá skipulagsmálum og jafnvel koma íbúðum í byggingu er rétt að fara í að laða að mögulega íbúa. Þá er gengið út frá því að skipulagsvinnan hefur verið með fólk í huga, t.d. gera ráð fyrir fjölskylduhúsnæði í nánd við grunn- eða leikskóla, eldri borgara nálægt félagsstarfi og heilsugæslu, praktískt versus lúxus og svona má lengi telja. Hinn mikli skipulagsgúrú Jan Gehl sagði að blanda fjölbreyttra hópa gerðu mannlífið ríkara og borgar – (í þessu tilfelli bæjar) – umhverfið ríkara sömuleiðis. Til dæmis gjörbreyttist miðborg Kaupmannahafnar þegar hún var endurskipulögð út frá kenningum Gehls á sjöunda áratug síðustu aldar til hins betra. Nota má markaðstæknina til að laða að ólíka hópa og til eru allskonar vísindi til að láta þeim líka vel á sínum svæðum í hinum urbanísku fræðum. En munum að þarna á undan þarf að hafa farið fram vönduð skipulagsvinna.

 

  1. Laða að verktaka

Verið búin að setja stefnu er varðar verktaka og hvernig má gera svæðið aðlaðandi í þeirra augum. Metnaðarfullir verktakar eru vitlausir að taka þátt í metnaðarfullum verkefnum. Það er því í höndum ráðhússins og stjórnmálamanna að móta stefnu í þeim efnum og hvað gera má til að liðka fyrir uppbyggingu. Þarna er ég ekki að tala um að gera eitthvað subbulegt í reykfylltum bakherbergjum en frekar að setja upp traust kerfi sem byggist á sanngirni og jafnrétti á milli ólíkra framkvæmdaraðila. Fiskisagan flýgur hratt í heimi verktaka og engin leggur í að framkvæma á svæði þar sem þessi mál eru ekki í lagi.

 

  1. Markið stefnu í fagurfræði bygginga

Fagurfræði er bannorð í mannvirkjageiranum, er jafnvel álitinn samnefnari aukins byggingarkostnaðar. En fagurfræðin þarf ekki að vera dýr – hún krefst meiri hugsunar. Þrátt fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafið markað menningarstefnu í mannvirkjagerð árið 2007 er afar litlu púðri beitt í byggingarreglugerðinni, sem kom út árið 2012 í þá átt. Skammarlega litlu. Þegar horft er til hinna Norðurlandanna má sjá að fagurfræði byggingarlistarinnar er mjög mikilvæg samfélögunum og það sést greinilega þegar ný verkefni eru í gangi hvort sem um er að ræða dreifbýli eða stórborgir. Það má benda á að Stykkishólmur markaði sér stefnu um verndun gamalla húsa fyrir um fjörutíu árum síðan. Það gerði bæinn að því sem hann er í dag, einn sá allra fallegasti á landinu og þvílík frumkvöðlahugsun þar. Fagurfræðin á ekki aðeins að ná til bygginga heldur rýmanna á milli þeirra, opnu svæðanna. Í Borgarnesi þarf að rísa upp gegn almennum sóðaskap, ómerktum bílum í misgóðu ástandi um allan bæ og svæðum í órækt. Við höfum landslagið en engin vill búa í fjarskafallegum bæ.

 

6.  Náttúruvernd innan bæjarmarkanna

Setjið stefnu í náttúruvernd innan þéttbýlisstaðarins. Það nær til klettanna sem eru einkenni bæjarins, þeirra víka og voga sem ekki hefur verið fyllt uppí og þess háttar. Ég er ekki að tala um að allt slíkt beri að friða í hvelli heldur skuli vera gerð áætlun um hvað má nota til uppbyggingar og hvað ekki.

 

7. Íbúakynningar

Haldið íbúum upplýstum um áætlanir ykkar með kynningum á netinu og íbúafundum. Haldið ráðgefandi íbúakosningar um minni málefni og gefið þannig kjósendum aukna rödd svona eins og nágrannar okkar á Akranesi gerðu um strompinn fræga. Íbúar þurfa líka að læra að breytingar eru ekki alltaf til hins verra og framförum er aðeins náð ef við leyfum hlutunum að þróast.

 

Þessir punktar sem hér á undan eru taldir upp eru hugleiðingar mínar sem íbúa í Borgarnesi sem vill framfarir og búa í nútímalegu samfélagi sem er öflugt, fjölbreytt og í sífellri sókn. Jafnframt er ég að telja þessa punkta upp sem fagmaður sem hef kosið að búa hér og ég vil fá fleiri fagmenn í minni stétt og hinum skapandi greinum til að setjast hér að. Ég sé fyrir mér að hér verði flóra lítilla, skapandi fyrirtækja sem leiðir af sér fjölbreyttari samsetningu íbúa. Það leiðir af sér fjölbreyttara val kaffihúsa og pöbba, úrval afþreyingar á sviði íþrótta og menningar. Með öðrum orðum að hér sé suðupottur hugmynda og hugvits. Ég meina, við höfum allt til þess að bera. Ósnortin náttúruna er hér í göngufæri, frábæran menntaskóla og tvo háskóla og svo bara skrepp til höfuðborgarinnar á innan við klukkutíma! Getum við ekki verið sammála um að Borgarnes sé bær tækifæranna? Þess vegna hafna ég gamaldags viðhorfum að hér eigi bara að vera láglaunasvæði, verkefni skuli rísa og falla með bílastæðum og bensínsjoppum, byggðar með sama lagi og vöruskemmur séu framtíðin fyrir ungt fólk.

 

Ég nefndi fyrr hér að oft hafa neikvæð viðmót verið helsti dragbíturinn í annars spennandi verkefnum. Viðhorfið að Borgarnes beri ekki „fín og flott“ verkefni, við séum alltof sveitó til að þrífast í þannig heimi. Þetta eru viðhorf sem ég hef heyrt í þau sjö ár sem ég hef verið starfandi sem arkitekt og hönnuður í Borgarnesi. Árið 2011 gekk fólk að því vísu að ég myndi flytja fljótt í burtu af því að arkitektagráðan myndi ekki nýtast hér. Nú, árið 2018 horfi ég af stolti á fjögurra stjörnu hótel sem er í þann veginn að opna sem mun skaffa á fjórða tug starfsfólks vinnu. Þar eru líka í byggingu 28 íbúðir fyrir eldri borgara og mun vonandi losa um fasteignir fyrir yngra fólk í bænum. Það verkefni var afar umdeilt og mætti mikilli andstöðu en sem betur fer voru húsbyggjandi og verktaki fullir eldmóðs og bjartsýni fyrir staðnum. Ég er hér enn starfandi og þetta stórkostlega verkefni fyrir bæinn er að verða að veruleika. Þannig ekki dirfast að segja að Borgarnes sé ekki hentugt fyrir flott og metnaðarfull verkefni.

 

Sá flokkur sem er til í þessa vegferð fær mitt atkvæði og stuðning næstu fjögur árin og jafnvel lengur.

 

Sigursteinn Sigurðsson.

Höfundur er starfandi arkitekt í Borgarnesi og ekki í framboði.

 

 

Fleiri aðsendar greinar