
Skessuhornið í aldarfjórðung
Páll S Brynjarsson
Frá því að ég flutti í Borgarfjörð fyrir rúmum 20 árum hefur héraðsfréttablaðið Skessuhorn verið hluti af minni tilveru, reglulega lesið og á stundum samskiptaaðili í þeim verkefnum sem ég hef komið að í mínum störfum.
Samt sem áður kynntist ég Skessuhorninu áður en ég flutti á Vesturland. Mig minnir að það hafi verið vorið 1998 að við hjónin ásamt vinafólki vorum í stuttri í heimsókn á Lundi í Lundarreykjadal hjá Gísla Einars og Guðrúnu þegar mann bar að garði og þeir Gísli tóku tal úti á hlaði. Sennilega báðir reykjandi og báru saman bækur sínar um nýstofnað héraðsfréttablað. Þetta voru stofnendur blaðsins, Gísli og Magnús sem báðir hafa ritstýrt blaðinu; Gísli í upphafi og Magnús lengst af, og gert það að sameiningartákni og málsvara Vesturlands.
Síðar sama dag átti ég eftir að kynnast því hvernig það er að ritstýra svona blaði, ávallt á vaktinni. Gísli bauð upp á skottúr í Borgarnes til að versla í matinn, en sagðist þurfa að koma við á ískappreiðum á Vatnshamravatni og skrifa smá frétt. Það var ekið greitt niður Lundarreykjadalinn á Subaru Justy og vegurinn þá, eins og oft áður og stundum síðar, frekar holóttur. Virðulegur starfsmaður KPMG sem sat í aftursætinu teygði sig á milli framsætanna til þess að geta tekið þátt í umræðunni, en þegar hann var búinn að fara tvisvar upp í þak þá gafst hann upp, hallaði sér aftur í sætið og spennti beltið. Þá hringdi síminn hjá bílstjóranum og í símanum greinilega einhver með frétt því bílstjórinn dró upp litla minnisblokk og fór að skrifa í hana á meðan hann keyrði og talaði í farsíma (þetta var löngu fyrir tíma handfrjálsa búnaðarins). Ég fór að velta því fyrir mér hvernig þetta gæti gengið upp og við á hundrað kílómetra hraða á Hvítárvallaflóanum. Þarna lærði ég það að ritstjórar geta stýrt með hnjánum þegar mikið liggur við.
Skessuhorn hefur frá upphafi verið öflugur fréttamiðill og mikið lesinn af íbúum á Vesturlandi, beittur en sanngjarn í umfjöllun sinni um það sem efst er á baugi hverju sinni. Blaðið hefur verið í takti við tímann, innleitt áhugaverðar nýjungar og óhrætt við að feta nýjar leiðir. Skessuhorn hefur líka verið ákveðið sameiningartákn fyrir Vestlendinga og gert okkur íbúum mismunandi héraða í landshlutanum kleift að fylgjast með hvað er að gerast hjá okkar næstu nágrönnum á Vesturlandi sem nú telur um 17.500 íbúa. Skessuhorn hefur iðulega tekið að sér að vera málsvari Vestlendinga gagnvart stjórnvöldum og gert áherslur okkar og verkefni sýnileg. Það ber að þakka.
Að hafa lifað í 25 ár í því erfiða umhverfi sem heimur héraðsfréttablaða á Íslandi er segir okkur að þeir sem stýrt hafa Skessuhorninu í aldarfjórðung hafa gert það vel og haldið úti öflugu og áhugaverðu blaði. Á þessum tímamótum þakka ég ritstjórum og starfsfólki fyrir ánægjulegt samstarf. Megi Skessuhorninu vegna vel í framtíðinni, það skiptir okkur öll máli.
Páll S. Brynjarsson
Höf. er framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.