Skessuhorn 25 ára

Bjarni Guðmundsson

Skessuhorn hefur verið fastur punktur hér á heimilinu frá fyrstu dögum blaðsins. Það er ekki sjálfgefið að héraðsblað lifi í tuttugu og fimm ár. Í öllu því róti, sem síðustu tímum hefur fylgt, svo og við einsýna hrópandann, sem einkennir fjölmiðlun í vaxandi mæli, er hvíld í því að setjast niður með héraðsfréttablað og renna yfir efni þess: Lesa fregnir af venjulegu fólki úti á Skaga, uppi í Borgarfirði, úti á Nesi eða vestur í Dölum. Fræðast um hagi þess og hugmyndir. Lesa viðtöl við fólk, stundum nágranna, sem fást við áhugaverð verkefni.

Líka hefur mér þótt áhugavert hvernig Skessuhorn hefur tekið á málum sem skiptar skoðanir eru um í héraði. Blaðið hefur ekki skorast undan að gera þeim skil, með málefnalegri umræðu, oftast nær, og án þess að hleypa að skattyrðingum og æsifréttatuði. Veit ég þó að meðalvegurinn í þeim efnum er vandrataður og ekki auðvelt að halda uppi eðlilegum húsaga í slíkri umræðu.

Mér finnst þýðingarmikið hlutverk héraðsblaðs eins og Skessuhorns vera að styrkja samstöðu íbúa á „samlagssvæði“ sínu. Skilningur og vilji eru mikilvægustu forsendur samstöðunnar. Efnisval og efnistök blaðsins ráða miklu þar um. Þetta hlutverk blaðsins eiga sveitarstjórnarmenn líka að meta og nýta – jafnvel í meira mæli en gert hefur verið.

Eins þarf blaðið sérstaklega að minnast nú þegar haldið er á annan starfsaldarfjórðunginn: Að gæta að meðferð blaðsins á íslensku máli. Íslensk tunga þróast eins og flest annað. Meginreglna hennar þarf að gæta sem og fjölbreytileika hennar.  Blaðið verður að halda vöku sinni og gæta þess að láta ekki andvaraleysi og lausatök setja mark á meðferð tungumáls okkar.

Með árnaðaróskum til Skessuhorns og þökkum fyrir 25 ára þjónustu.

 

Bjarni Guðmundsson

Hvanneyri