Skemmti- og menningarferð fullorðinna skjólstæðinga hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

Þórheiður Elín Sigurðardóttir

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga fékk styrk frá Félagsmálaráðuneytinu árið 2020 til þess að fara í skemmti- og menningarferð með fullorðna skjólstæðinga sem sækja þjónustu hjá þeim. Ferðinni þurfti af fresta til betri tíma vegna leiðindar veiru sem hefur sveimað um heiminn síðastliðin tvö ár.

Þann 27. maí síðastliðinn var svo haldið af stað frá Ólafsvík. Stoppað var á Vatnaleið til þess að taka á móti fleiri þátttakendum í ferðina. Í fallegu sumarveðri var ekið til Borgarness og snædd morgunhressing í bakaríinu. Eftir gott stopp lá leið okkar á Akranes í heimsókn í Fjöliðjuna. Fjöliðjan er vinnustaður þar sem boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. Í Fjöliðjunni á Akranesi fer fram fjölbreytt vinna og starfsfólkið tekst á við mörg ólík verkefni. Á móti okkur tók Guðmundur Páll Jónsson forstöðumaður og Ásta Pála Harðardóttir yfirþroskaþjálfi. Fjöliðjan er staðsett í tveimur húsum. Annarsvegar á Smiðjuvöllum 9 og hinsvegar í húsi við sömu götu númer 28.  Ásamt þeim reka þau nytjamarkaðinn Búkollu sem er því miður lokuð eins og er.

Við mættum rétt fyrir hádegi í æðislegu veðri á Smiðjuvelli 9, þar var verið að koma af stað grilli fyrir utan en Fjöliðjan bauð okkur í pulsupartý í tilefni heimsóknar okkar. Þvílíkar móttökur og ekki verra að mæta beint í karíókípartý sem þau eru með fyrir hádegi alla föstudaga. Okkar fólk hafði gaman af og tóku sumir þátt í að syngja og aðrir dönsuðu með. Þegar hádegishressingunni lauk fengum við tækifæri á að heimsækja seinna húsnæðið þeirra á Smiðjuvöllum 28, en það er nýlegt húsnæði sem býður upp á að sinna hinum ýmsum verkefnum í aðskildum rýmum. Fjöliðjan sinnir fjölbreyttum verkefnum og höfðum við gaman af því að sjá og upplifa vinnustaði þeirra.

Þar sem veðrið lék við okkur þá var upplagt að keyra að gróðurhúsi þeirra sem þau halda úti. Þarna eru margar fallegar plöntur, blóm og meira að segja blóm og jurtir sem má borða. Nokkrir lögðu í það að smakka á meðan öðrum fannst nóg að finna lyktina. Við þökkum kærlega fyrir móttökurnar í Fjöliðjunni og hlökkum til að koma aftur í heimsókn við tækifæri. Til að þakka fyrir móttökurnar gáfum við Fjöliðjunni þakkargjöf frá Ásbyrgi í Stykkishólmi og Smiðjunni í Ólafsvík sem eru dagþjónustur fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Því næst var haldið til Reykjavíkur eða í Egilshöll, þar var farið í keilu og svo í pizzaveislu á Shake & Pizza. Eftir að allir voru búnir að næra sig hafði fólk fataskipti fyrir tónleika kvöldsins, en hópurinn fór á tónleika með Stjórninni í Bæjarbíói. Þar tók á móti okkur frábært starfsfólk sem vildi allt fyrir okkur gera. Salurinn var opnaður fyrr fyrir þá sem vildu setjast inn og þeim boðið að hitta Stjórnina að loknum tónleikum. Æðisleg þjónusta og skemmtilegt umhverfi hjá þeim í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Þetta var langur og virkilega skemmtilegur dagur. Allir nutu sín og fóru glaðir heim í helgarfrí.

Stuðningsaðilar þátttakenda í ferðinni voru leiðbeinendur og forstöðuþroskaþjálfi Smiðjunnar í Ólafsvík, forstöðumaður búsetukjarnans í Ólafsvík, leiðbeinendur og forstöðumaður Ásbyrgis í Stykkishólmi.

 

Þórheiður Elín Sigurðardóttir, forstöðuþroskaþjálfi Smiðjunnar