Skemmdarverk Minjaverndar hf. á þjóðjörðinni Ólafsdal í Gilsfirði

Rögnvaldur Guðmundsson

Ólafsdalsfélagið og upphaf endurreisnar Ólafsdals

Ólafsdalsfélagið var stofnað í Ólafsdal 3. júní 2007 af um 40 félagsmönnum en félagar eru nú um 300 talsins. Hvatinn að stofnun félagsins var hætta á að hið merka skólahús í Ólafsdal frá 1896 yrði flutt af grunni sínum þar sem ekki höfðu fundist not fyrir það á staðnum.  Í stofnsamþykktum Ólafsdalsfélagsins segir: „Markmið félagsins er að stuðla að uppbyggingu og varðveislu Ólafsdals í Dölum sem er í flokki merkustu menningarminjastaða á Vesturlandi og við Breiðafjörð. Stuðlað verði að því að staðurinn verði meðal mikilvægustu kennileita í Dölum er laði að ferðafólk, atvinnu, nýsköpun, hugvit og fjölbreytni.“

Með samkomulagi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2008 og leigusamningi á fimm hekturum lands til 50 ára umhverfis bæjartorfuna árið 2009, sem formlega var skrifað undir af Jóni Bjarnasyni og undirritað á Ólafsdalshátíð 8. ágúst 2010, stóð Ólafsdalsfélagið fyrir endurbótum á húsum, sýningum og friðun svæðisins á árabilinu 2008 til 2015.  Á sýningunum var meðal annars gerð grein fyrir frumherjahlutverki Ólafsdalsskólans í landbúnaði á Íslandi, undir forystu Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar Zakaríasdóttur. Þá beitti félagið sér fyrir þátttöku í listsýningum, ráðstefnum og ræktun lífrænt vottaðs grænmetis. Árlega, frá 2008 til 2022, var þar sumaropnun og haldnar alls þrettán vel sóttar Ólafsdalshátíðir.

 

Willy trúður skemmtir á Ólafsdalshátíð 2017.

Endurreisn Ólafsdals var stórt verkefni og því leitaði félagið til Minjaverndar hf. árið 2014 um að koma að málum, enda sérfræðingar í endurbyggingu gamalla húsa. Orðspor Minjaverndar hf. var gott og því talið raunhæft að gera ráð fyrir samstarfi þar sem sjónarmið Ólafsdalsfélagsins fengju hljómgrunn.

 „Bjargvætturin“ Minjavernd hf. og samningurinn 2015

Undirrituðum er minnisstætt þegar Þröstur Ólafsson formaður stjórnar Minjaverndar hf. sagði snemma árs 2015: „Við skulum aðstoða ykkur [í Ólafsdalsfélaginu] við þetta.“  Bjuggumst við því við farsælu samstarfi um uppbyggingu staðarins. Þess vegna var okkur hjá Ólafsdalsfélaginu verulega brugðið þegar orðalagið í drögum Minjaverndar hf. að samningi við Ólafsdalsfélagið og Ríkissjóð Íslands lágu fyrir síðsumars 2015. Yfirskrift samningsins var „Ólafsdalur; samningur um endurreisn bygginga og menningarlandslags.“ Þar var þess krafist að Ólafsdalsfélagið afsalaði sér öllum réttindum samningsins frá 2010 og að Minjavernd hf. fengi sér að kostnaðarlausu skólahúsið og mjólkurhúsið sem hafin var endurbygging á. Ólafsdalsfélagið fékk því enga greiðslu með þessum samningi þrátt fyrir að hafa aflað styrkja og unnið mikla sjálfboðavinnu í Ólafsdal sem meta má á 80-90 milljónir króna á núvirði.

Minjavernd hf. fékk því Ólafsdal frítt gegn loforði um að byggja staðinn upp á fjórum árum til þess horfs sem var á tímum Ólafsdalsskólans (1880-1907). Þá afsalaði Ríkssjóður Íslands sér auk þess 57,5 hekturum lands til Minjaverndar hf.  Ólafsdalsfélagið var í þröngri stöðu þar sem Ríkissjóður sat nú beggja vegna borðs, bæði sem eigandi Ólafsdalsjarðarinnar og sem 38% hluthafi í Minjavernd hf.  Samningurinn var því undirritaður með fremur þungum huga af hálfu greinarhöfundar.

 

Bændaskólinn í Ólafsdal 1905.

 

Úr samningnum – 4. grein: „Minjavernd hf. undirgengst með samningi þessum […] að endurbyggja þau hús sem uppi standa í Ólafsdal að einhverju leyti og endurgera þau hús sem áður stóðu þar og tengdust rekstri og starfrækslu skóla Torfa Bjarnasonar. Um er að ræða nýja skólahúsið, fjósið og mjólkurhúsið sem enn standa að hluta en jafnframt smiðjuna, gamla skólahúsið, hjallinn og tóvinnuhúsið.“

 Úr samningnum – 5. grein: „[…] Minjavernd skal tryggja fjárhagslega burði félagsins til að standa að verkefninu og bera ábyrgð á faglegri framkvæmd þess, hönnun og uppbyggingu. […] Að því verður stefnt að endurbyggingu og endurgerð þeirra húsa sem tilgreind eru í 4. grein verði lokið á árinu 2019.“

Samkvæmt samningnum ætlaði Minjavernd hf. sem sagt að ljúka uppbyggingu þessara sjö húsa árið 2019. Nú, nær 10 árum síðar, er verkið um það bil hálfnað og framkvæmdir hafa verið nánast stopp í heilt ár.

Þrátt fyrir þessa miklu seinkun framkvæmda, sem má túlka sem brot á samkomulaginu frá 2015, óskar Minjavernd hf. nú eftir að reisa allt að 26 nýjar byggingar til viðbótar á þessari merku og viðkvæmu þjóð- og minjajörð. Flatarmál þeirra sjö bygginga sem samið var um að endurreisa árið 2015 var alls um 1.100 m2 en með öllum nýjum byggingum vill Minjavernd hf. fá leyfi til að auka byggingarmagnið í allt að 2.500 m2 eða um 130%.  Þetta má teljast vel í lagt af hálfu Minjaverndar hf.

Því telur Ólafsdalsfélagið nú brýnt að staldra við þannig að Dalabyggð samþykki að svo komnu máli ENGAR framkvæmdir Minjaverndar hf. í Ólafsdal umfram endurreisn þeirra þriggja bygginga sem nefndar eru í samningum frá 2015 sem enn hefur ekki verið hafin bygging á. Hér er um að ræða gamla skólahúsið (Suðurhúsið), hjallinn og tóvinnuhúsið, alls um 450 m2.

Hvorki samráð við Ólafsdalsfélagið né LbhÍ

Í 6. grein samningsins frá 2015 er kveðið á um að Minjavernd hf. muni hafa fullt samráð við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri hvað varðar minjar um starfrækslu búnaðarskólans og að sjá til þess að túnum og jarðræktarminjum verði ekki raskað, heldur görðum og beðasléttum viðhaldið.

Skemmst er frá því að segja að forkólfar Minjaverndar hf., þeir Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri og Þröstur Ólafsson stjórnarformaður, hafa aldrei sett sig í samband við Landbúnaðarháskólann þau tæpu 10 ár sem liðin eru frá undirritun samkomulagsins. Á sama tíma hafa þeir hins vegar lagt fram tillögu um skógrækt á allstórum hluta heimatúna í Ólafsdal, skv. tillögum að breyttu deiliskipulagi í Ólafsdal árið 2022, og sett fram áform um 20 smáhýsi á beðasléttusvæði rétt suður af fjósinu. Jafnframt gert tillögu um byggingarreit fyrir sjósækna afþreyingu (kajakar o.fl.) á Eyrartúninu þar sem beðasléttur eru mestar í Ólafsdal.

Í 10. grein samningsins er framtíðarhlutverk Ólafsdalsfélagsins tíundað s.s. að það muni áfram standa fyrir Ólafsdalshátíðum, sýningum, rannsóknum og útgáfustarfsemi. Ennfremur segir þar: „Jafnframt mun félagið koma að sem ráðgjafi við fyrirkomulag og uppsetningu sýninga í húsunum endurgerðum og á svæðinu í heild…“  Skemmst er frá því að segja að forsvarsmenn Minjaverndar hf., Þorsteinn og Þröstur, hafa aldrei á þeim nær 10 árum sem liðin eru frá undirritun samkomulagsins leitað nokkurrar ráðgjafar hjá Ólafsdalsfélaginu.

Óskum ekki svarað árum saman

Hér með má örugglega segja að bláeygt Ólafsdalsfélagið hafi samið af sér. En félagið hélt þó áfram sumaropnun og Ólafsdalshátíðum með samkomulagi við Minjavernd hf., og með stuðningi Uppbyggingarsjóðs SSV og Dalabyggðar fram til ársins 2022. Sumaropnunin styttist þó úr sex vikum í þrjár og miðaðist við sumarfrí iðnaðarmanna Minjaverndar hf. í Ólafsdal. Vegna mikilla framkvæmda við skólahúsið árið 2023 var óraunhæft að halda hátíð að mati félagsins og sumarið 2024 var skólahúsið ennþá á fokheldu stigi, enda hefur vinna Minjaverndar hf. í Ólafsdal nú nær alveg legið niðri í heilt ár.

Formaður og aðrir stjórnarmenn í Ólafsdalsfélaginu áttu að jafnaði 1-2 fundi á ári með Þorsteini Bergssyni framkvæmdastjóra og Þresti Ólafssyni stjórnarformanni frá 2016-2022. Þar lagði félagið m.a. mikla áherslu á að fá framtíðaraðstöðu í Ólafsdal fyrir félagið til að sinna rannsóknum og fræðslu og lagði þar til að fá tóvinnuhúsið til umráða og bauðst m.a. til að standa straum af uppbyggingu þess. Setti fram tillögu um að þar yrði jafnframt Gestastofa Ólafsdals. Þrátt fyrir málaleitanir þess efnis í mörg ár gáfu þeir félagar aldrei skýr svör, álitu það aldrei tímabært.  Loks leiddist undirrituðum og öðrum stjórnarmönnum í Ólafsdalsfélaginu þófið og óskuðu eftir fundi með allri stjórn Minjaverndar hf. sem í sitja auk Þrastar tveir fulltrúar Ríkissjóðs Íslands og tveir fulltrúar Reykjavíkurborgar, sem samtals fara með nær 77% hlut í Minjavernd hf.

Þá brá svo við að Þröstur neitaði Ólafsdalsfélaginu um fund með stjórninni, ekki einu sinni – heldur tvisvar (með tölvupóstum 8. maí og 22. ágúst 2023). Taldi hann slíkan fund engum tilgangi þjóna og þar við hefur setið síðan. Síðustu tvö ár hefur Ólafsdalsfélagið ekki átt fund með þeim fóstbræðrum, Þorsteini og Þresti.

Skemmdarverk á skólahúsinu og fjósinu

Minjavernd hf. tókst ágætlega upp með endurbyggingu á mjólkurhúsinu í Ólafsdal, sem verður baðhús, og með smiðjuna sem verður tveggja herbergja gisting. Öðru máli gegnir að okkar mati um fjósið, sem var einstök bygging á sínum tíma. Hjörleifur Stefánsson arkitekt teiknaði það upp fyrir Ólafsdalsfélagið árið 2010 sem fjölnota menningarhús sem allir gestir í Ólafsdal gætu notið og þar sem fallega hlaðnir útveggir hússins myndu sjást á alla kanta.

Eftir meðferð Minjaverndar hf., og nýjar teikningar Hjörleifs fyrir það félag, er raunin sú að fjósið er nú hólfað niður í þrjú lúxusgistirými með viðföstum trébyggingum á vesturhlið fyrir snyrtingar. Auk þess var reist viðföst timburbygging, um 50 m2, þar sem áður var hlaðið haughús. Útlit hússins minnir nú því næsta lítið á fjós Torfa Bjarnasonar, þrátt fyrir loforð Minjaverndar hf. um að endurbyggja það sem næst sinni upprunalegu mynd.

 

Teikning frá 1906 af fjósinu og haughúsinu í Ólafsdal eftir Markús Torfason.

 

„Endurreist“ fjós og haughús árið 2024.

 

Prófessor emeritus Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri hefur þetta um málið að segja:

„Örlög fjóssins eru mér þungbær þótt ég skilji tilgang undarlegrar útfærslu. Þarna fer líklega eitt fyrsta ef ekki fyrsta nútímafjósið hérlendis. Svipast hefði mátt um eftir öðrum notum tóftarinnar, svo sem til gestastofu – búnaðarsögustofu, þannig að ekki hefði þurft að skáka þessum timburskýlum utan í afar stílhreina og fallega steinbygginguna; mér finnst þau í ósamræmi sínu hrópa í uppreisn á komumann… Í sögu þjóðar er fjós ekki ómerkara en kirkja ef í það er farið.

…Skúrakenndar viðbyggingar hins sögumerka fjóss Torfa Bjarnasonar eru mistök sem bæta verður fyrir með einhverjum hætti. Þar hefur spillandi lausn verið valin.“ (Heimild:  Bjarni Guðmundsson. Minnisblað um Ólafsdal. Hvanneyri, 1. júlí 2024.)

Þessi umsögn Bjarna Guðmundssonar rifjaði upp í huga mér afsögn Hjörleifs Stefánssonar sem formanns Húsafriðunarsjóðs árið 2011, vegna leyfis til byggingar eftirlíkingar af Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju sem Árni Johnsen átti frumkvæði að. Þar skóf Hjörleifur ekki utan af hlutnum heldur sagði m.a. í opnu bréfi til þáverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur: „…þegar litið er yfir feril þessa máls frá upphafi blasir við manni slík runa af óheiðarleika, lygum, prettum og ljótum vinnubrögðum að manni verður orðfall. […]  Þú framlengir vist okkar í forheimskunarlandinu siðlausa…“ (Heimild: Vísir, 24. nóvember 2011.)

Mér er nú satt að segja svipað innanbrjósts og Hjörleifi árið 2011 hvað varðar meðferð Minjaverndar hf. á fjósinu í Ólafsdal, skólahúsinu og gömlu bæjartorfunni í heild sinni, að þykja sú framganga nánast helgispjöll. Miðað við góð samskipti okkar Hjörleifs 2008-2015 vegna Ólafsdals og harða afstöðu hans til þess að vanda til verka varðandi minnstu breytingar á skólahúsi Torfa Bjarnasonar þykir mér hann nú kominn aftan að sjálfum sér. Orð Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum koma þar upp í hugann: „Þetta sem helst nú varast vann/varð þó að koma yfir hann.“

Erfiðast þykir mér að fjalla hér um meðferð Minjaverndar hf. á sjálfu skólahúsinu, sem er hjarta staðarins, teiknað af Torfa Bjarnasyni sjálfum og reist árið 1896.  Mikilvægi þess húss í landbúnaðarsögu þjóðarinnar má líkja við hús Menntaskólans í Reykjavík í menntasögunni eða Sundhöll Reykjavíkur í baðmenningu okkar. Minjavernd hf. hefur nú hreinsað allt út úr merkilegum kjallara þess skólahússins sem var með skoskum einkennum (Torfi lærði m.a. í Skotlandi) og dýpkað hann um minnst 60 cm til að koma fyrir veitingahúsi.

Upphaflega ætlaði Minjavernd að hlífa að mestu herbergjaskipan á 2. hæð skólahússins sem var þessi frá suðri til norðurs:  Langaloftið þar sem skólapiltar sváfu, skólastofa efri bekkjar, skólastofa neðri bekkjar, Kennaraherbergi, Kontór Torfa, Piltahús, Hjónahús, Barnaherbergi, Hornstofa og Systrahús. En skyndilega árið 2024 er teikningum breytt og gert ráð fyrir herbergjum með baði á allri 2. hæð. Það þýðir að herbergjum mun fækka og upprunaleg herbergjaskipan öll riðlast. Þá er gert ráð fyrir 4-5 herbergjum með baði á 1. hæð þar sem áður voru stofur og hringgengt um hæðina á ýmsa vegu. Það verða því einungis næturgestir framtíðarinnar sem munu njóta 1. og 2. hæðar Ólafsdalshússins, ef þessar áætlanir Minjaverndar hf. ná fram að ganga, en ekki dagsgestir sem staðinn heimsækja.

Að mati Ólafsdalsfélagsins hefði farið betur á að stofurnar á 1. hæð yrðu vistarverur veitingahússins en að kjallarinn myndi hýsa sýningar um sögu staðarins. Nýr stigagangur með miklum glerglugga, sem stingur mjög í stúf við skólahúsið að öðru leyti, hefur auk þess verið reistur á austurhlið hússins.

Miklar breytingar Minjaverndar á suður- og austurhlið skólahússins sem er friðað.

 

Skólahúsið er nú fokhelt að innanverðu og búið að fjarlægja merkilegan stiga á milli 1. og. 2. hæðar sem vakti athygli allra sem komu í húsið, því í hann voru mörkuð spor kynslóðanna. Þá voru tveir skorsteinar hússins fjarlægðir og liggja hleðslusteinar þeirra nú í hraukum niður við túnbarð. Mikilvægt er að bæði stiginn og skorsteinarnir verði settir á sinn stað áður en yfir lýkur til að halda í sál hússins að hluta.

 

Skólahúsið í Ólafsdal árið 2013.

Teikning Hjörleifs Stefánssonar af vesturhlið skólahússins.

Múrsteinar skorsteinanna úr skólahúsinu.

 

Það versta er þó að Minjavernd hf. áformar jafnframt að fjarlægja syðri tröppurnar á vesturhlið hússins og að grafa burtu um 2 metra af jarðvegi til að skapa pláss fyrir hurð inn í veitingahúsið í kjallaranum. Þar með gjörbreytist ásýnd á mest mynduðu hlið Ólafsdalsskólans (vesturhliðinni) og sú samhverfa sem nú einkennir húsið verður að engu.

Hin nýja teikning Hjörleifs Stefánssonar var því miður samþykkt athugasemdalaust af sviðsstjóra húsverndar hjá Minjastofnun Íslands. Ef af verður er það lítilsvirðing við magnað ævistarf og arfleifð Torfa Bjarnasonar. Því þarf að leita allra leiða til að stöðva þetta hervirki gegn friðuðu skólahúsinu í Ólafsdal. Nóg er að gert. Því hvað merkir friðun ef þetta er leyfilegt? Verkið er sem betur fer ekki hafið. Því skora ég á Minjavernd hf. að sjá að sér og hætta alfarið við að koma fyrir nýrri hurð á framhlið skólahússins, en auk þess eru nú tvær leiðir í kjallarann.

Áform um 20 smáhýsi – kostuleg rök Minjaverndar hf

Síðasti bóndinn í Ólafsdal hét Gunnars Jósepsson. Um 1965 reisti hann myndarleg 400 m2 nútímafjárhús í Ólafsdal nokkru sunnan við fjósið. Þau urðu því miður ekki langlíf og eyðilögðust í stormi um 1970.

Í nýjustu deiliskipulagstillögu Minjaverndar hf. árið 2024, er óvænt gerð tillaga um að reisa um 20 smáhýsi nærri þeim stað sem þessi fjárhús stóðu, rétt inn af fjósinu, og þar með tvöfalda gistirými í Ólafsdal úr 25 herbergjum í 50 herbergi. Þau áform eru réttlætt með því að þar með sé Minjavernd hf. að efna samninginn frá 2015 um að endurreisa þau hús sem hafi verið í Ólafsdal en hafi fallið eða horfið. Vandinn er bara sá að í samningnum er skýrt tekið fram hvaða sjö hús frá tíma Ólafsdalsskólans (1880-1907) eigi að endurreisa sem næst þeirri mynd sem þau voru. Þar var bara alls ekki samið um að endurreisa 400 m2 fjárhús frá árinu 1965! Hér er því versta falli um hreinan blekkingarleik af hálfu Minjaverndar hf. að ræða en í besta falli lélegan brandara. Þessi smáhýsi eiga engan veginn heima í Ólafsdal þar sem ber að leggja mesta áherslu á fræðslu til gesta um sögu og náttúru dalsins sem og sýningar, auk hóflegrar gistingar, veitinga og baða.  Ekki óheftan hótelrekstur.

Önnur birtingarmynd sérstakra vinnubragða Minjaverndar hf. er fasteignaauglýsing frá Eignamiðlun í Morgunblaðinu fyrir þeirra hönd 20. apríl 2024. Þar auglýsti Minjavernd hf. eftir kaupanda að öllum húsum sem þeir sögðu áformað að reisa í Ólafsdal, þar með áðurnefndum 20 smáhýsum. Engin leyfi eru hins vegar fyrir byggingu smáhýsanna. Hvers konar framganga er þetta?

Teikning Hjörleifs Stefánssonar af nýju húsi og smáhýsum sunnan við skólahúsið.

 

Með þessum smáhýsaáformum og auk þess nýjum áformum um sjósækna afþreyingu á Eyrartúninu (kajakar o.fl.) vill Minjavernd hf. fá leyfi fyrir allt að 2.500 m2 byggingarmagni í Ólafsdal í stað um 1.000 m2  sem er samanlagt byggingarmagn húsanna sjö frá tímum Ólafsdalsskólans (auk þess hafa nú bæst við áhaldahús, þjónustuhús og snyrtihús).  Sjósækin afþreying (kajakar o.fl.) ætti að mínu mati t.d. fremur heima við Langeyjarnes í Klofningi, við Dagverðarnes á Skarðsströnd eða út með Skógarströnd.

 Svart þjónustuhús, bílaplan á Bæjarvelli og tjaldsvæði við tóvinnuhúsið

Árið 2021 reisti Minjavernd hf. um 100 m2 nýtt hús í Ólafsdal framan við gömlu bæjartorfuna, þjónustuhús til að hýsa varmadælu, þvottahús og kæla fyrir veitingahús. Hlutverk sem góðra gjalda vert. Gallinn er hins vegar sá að húsið er svartmálað með torfþaki og passar ekki inn í gömlu bæjarmyndina og hefði þurft að fela betur í landslaginu.

„…[svarta húsið] sem þarna hefur fallið af himnum ofan, að mér sýnist ættað frá Færeyjum(!) – svo stingur það í stúf við umhverfi sitt og stelur raunar athygli frá skólahúsinu. Auðvelt hefði verið að fella það mikilvæga rými inn í hallann vestur af skólahúsinu og þá sem hluta af vestari vegg traðarinnar. Þetta hús er til lýta…“  (Heimild: Bjarni Guðmundsson. Minnisblað um Ólafsdal. Hvanneyri, 1. júlí 2024.)

Auk þess lét Minjavernd hf. árið 2024 sturta þykku og grófu malarlagi frá eyrum Ólafsdalsár á um 400 m2 svæði á Bæjarvellinum, austan við smiðjuhúsið í Ólafsdal, án þess að þar hafi farið fram sérstök fornminjarannsókn. Þar eiga að koma bílastæði.

Þá áformar Minjavernd hf. að koma upp tjaldsvæði við tóvinnuhúsið um 500 m suður af skólahúsinu. Á það merka hús endurreist þá einungis að vera þjónustuhús tjaldsvæðis? Nær væri að þar risi Gestastofa þjóðgarðs í Ólafsdal á neðri hæð með aðstöðu fyrir Ólafsdalsfélagið og fræðimann á efri hæð, mitt á milli bæjartorfunnar og nýfundinna víkingaaldarminja innar í dalnum. Tjaldsvæði passar alls ekki inn í heildarmynd staðarins.

 Óþörf og skaðleg skógræktaráform

Samhliða samningi Ólafsdalsfélagsins, Minjaverndar hf. og Ríkissjóð Íslands þann 19. ágúst 2015, um endurreisn bygginga og menningarlandslags, undirrituðu Minjavernd hf. og Ríkissjóður annan samning með yfirskriftinni. „Ólafsdalur; samningur um verndun, uppgræðslu og umsjón menningarlandslags í Ólafsdal.“ Að þeim samningi hafði Ólafsdalsfélagið enga aðkomu.

Úr samningnum – 4. grein: „Samkvæmt samningi þessum er Minjavernd veitt umsjón með því landi sem samningur þessi fjallar um. Í því felst að umsjónaraðila er bæði rétt og skylt að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að ná fram markmiðum samningsins um vernd og uppgræðslu menningarlandslags í Ólafsdal í samræmi við heildaruppbyggingu fasteigna hins gamla búnaðarskóla og umhverfis hans.“

Úr samningnum – 5. grein: „Umsjónaraðili [Minjavernd hf.] skuldbindur sig til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda og vernda náttúrulegt gróðurfar Ólafsdals og jarðræktarsögu hans. Jafnframt er umsjónaraðila heimilt að græða upp svæði innan dalsins með trjágróðri eða öðrum gróðri sem heppilegur þykir og hæfa ásýnd staðarins og sögu hans.“

Þverstæðurnar í samningnum stinga strax í augu. Hvernig er mögulegt að vernda menningarlandslag frá tímum Ólafsdalsskólans og á sama tíma stunda þar uppgræðslu?  Og jafnframt. Hvernig er mögulegt að viðhalda og vernda náttúrulegt gróðurfar í Ólafsdal frá því um 1900 og á sama tíma klæða svæði innan dalsins með trjágróðri?  Það var enginn trjágróður í Ólafsdal á tímum Ólafsdalsskólans!

Séð inn eftir vel grónum Ólafsdal.

 

Áhyggjur okkar af skógræktaráformun Minjaverndar hf. jukust nokkuð á árunum 2018-2019 þegar félagið lét reisa mikla girðingu utan um stóran hluta af láglendi dalsins. Sú girðing og göngubrýr á ánni skemmdust í miklum flóðum í febrúar 2023 og hefur girðingin ekki verið fjárheld síðan. Með niðurstöðum forleifarannsóknar Fornleifastofnunar Íslands varð okkur hughægra þar sem þar voru kortlagðar um 180 minjar á Ólafsdalsjörðinni. Jafnframt fundust þar árið 2017 landnámsskáli og fleiri byggingar frá 10. öld sem hafa verið rannsakaðar öll sumur síðan.  Sýnataka við skálarústina leiddi í ljós að; ,,birkiskógur eða -kjarr virðist ekki hafa verið afgerandi hluti gróðurs við rannsóknarstað.“  (Heimild: Egill Erlendsson: Fornumhverfisrannsókn við skálarúst í Ólafsdal. Skýrsla unninn fyrir Minjavernd. 2020, bls. 9.)

Engar frekari rannsóknir hafa verið gerðar á gróðurfari í Ólafsdal í aldanna rás.

Skógræktaráform Minjaverndar hf. í Ólafsdal eru því óskiljanleg. Þriðja útgáfa deiliskipulags þeirra fyrir Ólafsdal var lagt fram sumarið 2022. Þar var nú allt í einu gert ráð fyrir skógrækt á yfir 50 hektara svæði, jafnt innan heimatúna sem utan þeirra. Hér má nefna að Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar hf., er m.a. þekktur fyrir mikinn skógræktaráhuga og ekki vanur að gefa sinn hlut, sbr. baráttu hans fyrir verndun laugarbakka Guðjóns Samúelssonar í Sundhöll Reykjavíkur. Þessum skógræktaráformum í dalnum var harðlega mótmælt af Ólafsdalsfélaginu, Minjastofnun, Vinum íslenskrar náttúru (VÍN), Fornleifastofnun Íslands, prófessor Bjarna Guðmundssyni o.fl.

Séð norður yfir Ólafsdal og út á Breiðafjörð.

 

En Minjavernd hf. hefur enn ekki látið segjast nema að litlu leyti. Í fjórðu útgáfu deiliskipulags fyrir Ólafsdal vorið 2024 er enn gert ráð fyrir trjáplöntun á um 40 hektara svæði. Gott væri ef Minjavernd hf. léti nú alveg af þessum áformum og leitaði frekar hófanna með trjárækt annars staðar þar sem minna er í húfi hvað minjar varðar.

Það er skoðun Ólafsdalsfélagsins að trjáplöntun í Ólafsdal sé með öllu óþörf enda dalurinn vel gróinn að fjallsbrúnum. Rannsóknir hafa EKKI sýnt fram á skóg í Ólafsdal á söguöld og landið þar á að fá að vera í friði og hafa þann framgang sem náttúrulegur er.

Mikilvægt er hins vegar að hófleg sauðfjárbeit verði í Ólafsdal til að minjar fari ekki undir sinu, eins og Sigurður Hjalti Magnússon gróðurvistfræðingur, Sveinn Runólfsson fyrrverandi landgræðslustóri o.fl. hafa bent á. Núverandi girðingu Minjaverndar hf. í dalnum ætti í því skyni að helminga þannig að hún afmarkaðist við heimatún.

Ólafsdalsdalur er magnaður minjastaður

Ólafsdalur er ótvírætt einn helsti menningarminjastaður á Vesturlandi og við Breiðafjörð og einstakur á landsvísu hvað landbúnaðarminjar varðar. Við fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands í Ólafsdal 2016-2017 voru skráðir um 180 minjastaðir í landi jarðarinnar en einstakar minjar eru þó mun fleiri. Í greinargerð með fornleifaskráningunni segir svo:

„Ein aðalniðurstaða rannsóknarinnar er sú að Ólafsdalur í heild sinni er einstakur minjastaður. Þar kemur margt til. Minjar frá tíð búnaðarskólans eru ótrúlega vel varðveittar og ber allur dalurinn þess merki að þar var ekki stundaður venjulegur búskapur. Túnið var t.d. miklu stærra en hefði mátt vænta fyrir jörð af þessari stærðargráðu í upphafi 20. aldar eða 18,6 hektarar [en túnastærðir á nærliggjandi bæjum voru að jafnaði um 5 hektarar]. Annað sem er til marks um sérstöðu Ólafsdals er sú staðreynd að minjastaðir eru almennt bæði fleiri og mun meiri að umfangi en á bæjum þar sem hefðbundinn búskapur var stundaður. Þar eru t.d. upp undir 20 svæði með beðasléttum, þrír stórir nátthagar, umfangsmikil skurðakerfi sem t.d. leiddu vatn úr lind heim að bæ og veittu vatni af beðasléttum, gríðarmiklar mógrafir, skurðakerfi til að knýja áfram tóvinnuvélar, svæði þar sem hleðslugrjóti var safnað í stórum stíl o.fl. ofl.“ 

[Í Ólafsdal] „eru gríðarleg ummerki frá tímum búnaðarskólans, minjar sem eiga líklega engan sinn líka á landsvísu. Einnig eru þar eldri minjar og ber þar hæst óspillt víkingaaldarbæjarstæði innst í dalnum. Það er ekki síst þetta samspil sem gerir staðinn merkilegan og vel til þess fallinn að kynna fyrir fólki. Það er einstakt að hægt sé að fræðast um framfarir í landbúnaði á 19.-20. öld, rétt áður en vélvæðing tók yfir og geta síðan í einni hendingu ferðast þúsund ár aftur í tímann, með því að ganga inn dalinn en landslagi þar hefur lítið sem ekkert verið umbylt.“

(Heimild: Birna Lárusdótttir (ritstjóri). 2018. Fornleifar í Ólafsdal við Gilsfjörð, fornleifaskráning með landsháttagreiningu. Fornleifastofnun Íslands. Bls. 132 og 146.)

Fornleifafræðingar við landsnámsskálann sem fannst árið 2017.

 

Minjavernd hf. er ekki treystandi fyrir Ólafsdal

Það hefur því miður sýnt sig að Minjavernd hf. er ekki treystandi fyrir þjóðjörðinni Ólafsdal í Gilsfirði og endurreisn staðarins í anda þess sem var á tímum Ólafsdalsskólans. Verkefnið virðist félaginu ofviða.

Hingað til segir Minjavernd hf. að framkvæmdir í Ólafsdal hafi kostað um 700 milljónir og að allt verkið muni kosta um 1.200 milljónir. Líklega er það varlega áætlað þar sem upphafleg áætlun félagsins hljóðaði upp á um 400 milljónir. Miðað við að nú eru búið að vinna í fjórum byggingum af sjö sem stóðu á tímum Ólafsdalsskólans og verki við þær er ekki lokið má draga í efa að þessi áætlun standist, þar sem þá verða eftir nær 30 byggingar á óskalista félagsins, þar af einungis 4-5 sem voru þar áður.

Það er mín skoðun að ríki og borg beri nú að skoða það alvarlega að leggja Minjavernd hf. niður í núverandi mynd. Völd Minja sjálfseignarstofnunar virðast þar óeðlilega mikil miðað við að vera aðeins með 23,46% hlut í Minjavernd hf. á móti 38,27% hlut Ríkissjóðs Íslands og 38,27% hlut Reykjavíkurborgar.

Í það minnsta þurfa ríki og borg, með sinn yfirgnæfandi hlut í félaginu, að sjá til þess að Minjavernd hf. eyðileggi ekki meira en orðið er í Ólafsdal, sbr. það sem hér að framan hefur verið rakið.

Þjóðgarður og gestastofa í Ólafsdal

Ólafsdalsfélagið telur hugmyndir um stofnun þjóðgarðs og gestastofu í Ólafsdal, sem settar voru fram í skýrslu starfshóps fulltrúa Dalabyggðar fyrir umhverfis-, orku- og loftslags­ráðuneytið í október 2024, afar áhugaverðar. Starfshópurinn lagði þar til að ráðuneytið vinni tillögur um friðlýsingarkosti í Dalabyggð og að stofnaður verði þjóðgarður í sátt við íbúa og hagsmunaaðila.

„Lagt er til að kannað verði hvort gestastofa í þjóðgarði í Dalabyggð yrði staðsett í Ólafsdal. Fornleifafræðingar og aðrir fagaðilar gætu stundað þar sín fræði og rannsóknir. Gestastofa gæti mögulega hýst Ólafsdalsfélagið og stutt við upplýsingagjöf á svæðinu.“ (Heimild: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/URN/URN_Dalabyggd_Rafraen.pdf)

Minjastofnun þarf nú að stuðla að friðlýsingu dalsins og síðan vinna að stofnun þjóðgarðs í Ólafsdal í samstarfi við Umhverfisráðuneytið, Dalabyggð, Fornleifastofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, Ólafsdalsfélagið og fleiri aðila sem bera hagsmuni minjaheildarinnar þar fyrir brjósti. Þar verður mikilvægt að gera sögu Ólafsdalsskóla og öllum minjum dalsins hátt undir höfði, þar með talið nýfundnum landnámsskála og öðrum víkingaaldarminjum.

Jákvæð áhrif þjóðgarða á Íslandi eru mikil og hagur þjóðarbúsins og nágranna sveitarfélaga af þeim margfaldur á við kostnað við stofnun þeirra og rekstur. Þjóðgarður í Ólafsdal, sem fleiri friðlýst svæði í Dalabyggð yrðu síðan hluti af, myndi efla ferðaþjónustu á svæðinu, fjölga störfum og hafa þar með jákvæð samfélagsleg áhrif langt umfram áformaða hótelvæðingu Minjaverndar hf. á staðnum.

 

Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur

Höf. er formaður Ólafsdalsfélagsins

 

Um Minjavernd hf:

Minjavernd hf. var stofnuð í apríl árið 2000 sem hlutafélag í eigu Ríkissjóðs Íslands, Reykjavíkurborgar og sjálfseignarstofnunarinnar Minja.  Hlutafélagið var byggt á starfi Minjaverndar sjálfseignarstofnun (1984-2000), sem aftur átti uppruna sinn í Torfusamtökunum (stofnuð 1979).

 Stjórn Minjaverndar hf. skipa: 

 Fyrir Minjar sjálfseignarstofnun

  • Þröstur Ólafsson hagfræðingur, stjórnarformaður.
  • Varamaður: Stefán Friðfinnsson.

Fyrir Ríkissjóð Íslands

  • Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi ráðherra.
  • Þórhallur Arason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
  • Varamaður: Hrafn Hlynsson, lögfræðingur hjá efnahags- og fjármálaráðuneytinu.

Fyrir Reykjavíkurborg

  • Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs.
  • Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri á eignaskrifstofu.
  • Varamaður: Nikulás Úlfar Másson.

Framkvæmdastjóri Minjaverndar hf.

  • Þorsteinn Bergsson.

Þorsteinn er jafnframt framkvæmdastjóri fyrir Minjar sjálfseignarstofnun og Storð ehf.  sem einkahlutafélag í fullri eigu Ríkssjóðs Íslands (stofnað 2023).