Skapandi skólastarf

Sigurður Arnar Sigurðsson

Nú er sýningum lokið á söngleiknum Úlfur, Úlfur í Grundaskóla. Glæsilegt leikverk sem allir þátttakendur geta verið stoltir af. Öflugt skólastarf á Akranesi hefur fyrir löngu vakið verðskuldaða athygli en það er mikið lán fyrir samfélagið okkar að eiga svo öfluga skóla sem og að hafa framsækið og vel menntað starfsfólk sem hefur mikinn metnað fyrir nemendum og skólastarfi.

Sköpun vanmetin þáttur

Í innslagi að frétt um verkefnið í fréttatíma á Stöð 2 vakti athygli að eftirfarandi var sagt í kynningu. „Nemendur í 10. bekk Grundaskóla á Akranesi hafa varla getað sinnt náminu síðustu vikur því öll einbeiting þeirra og kraftur hefur farið í að æfa söngleikinn Úlfur, Úlfur…“

Það er rétt að mikið hefur verið lagt í leikverkið og nemendur og starfsfólk verið vakandi og sofandi yfir skólastarfinu. Það er aftur á móti mikill misskilningur hjá fréttamanni að nemendur hafi ekki stundað nám á þessum tíma því sannleikurinn er sá að sennilega hafa viðkomandi nemendur sjaldan lært jafn mikið á skólagöngu sinni en einmitt í þessu verkefni.

Skapandi skólastarf er ákaflega mikilvægt og oft vanmetið í allri umfjöllun. Það að setja kennslubækurnar til hliðar um tíma og að allt skólasamfélagið leggur upp í spennandi vegferð er afar lærdómsríkt. Oft er þetta hrein óvissuferð þar sem bæði börn og fullorðnir læra saman nýja hluti. Verkefni sem reynir bæði á hug og þor einstaklinga. Að skapa saman eitthvað ógleymanlegt og öðlast reynslu sem fylgir manni alla ævi.

Í hverju liggur mikilvægi skapandi skólavinnu?

Stærsta verkefni skólafólks er að halda utan um nemendur sína, hjálpa þeim að þroskast og efla hæfileika sína fyrir lífið á fullorðinsárum. Í söngleikjum og öðru skapandi skólastarfi sér maður og finnur fyrir ótrúlegum hæfileikum hjá ungu fólki. Þátttakendur skynja saman einhverja fegurð sem fyllir unga og eldri bjartsýni á bæði nútíð og framtíð.

Skapandi skólastarf er ákaflega mikilvægt en „sköpun“ er einn af sex grunnþáttum menntunar. Slíkt starf krefst mikils af kennurum og öðru starfsfólki. Þar er unnið með hæfileika og þekkingu sem nýtist í öllum störfum og verkefnum sem mæta okkur. Hér er unnið með hvatningu til að þróa hugmyndir og leita frjórra lausna. Vísindamenn, ljósmæður, pípulagningamenn, stuðningsfulltrúar o.s.fv. þurfa að leysa óteljandi verkefni á skapandi hátt í störfum sínum. Hluti sem ekki finnast í ákveðinni kennslubók í tiltekinni námsgrein.

Í lífi og starfi þurfum við að takast á við viðfangsefni þar sem þörf er á að beita innsæi og ímyndun og um leið taka skref út fyrir rammann þar sem viðteknar venjur og hugmyndir eiga ekki við. Færustu íþróttamenn þjóðarinnar, listamenn eða vísindamenn vekja t.d. athygli og aðdáun fyrir snilli sína vegna þess að þar fer saman að lesa aðstæður, búa yfir góðri þekkingu, innsæi og lausnarleit. Að búa yfir hæfni til að gera eitthvað nýtt.

Með skapandi vinnu gefast okkur aukin tækifæri til að vinna með ólíka einstaklinga og byggja á þeim auð sem nemendur og starfsfólk af ólíkum uppruna flytja með sér inn í skólann. Að þjálfa nemendur og starfsfólk til að vinna markvisst í teymum, að gefa af sér og vinna saman við að ná árangri. Miklu skiptir að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þessi menntun hefur aldrei verið mikilvægari en einmitt nú þegar tækni og gervigreind er að hefja innreið sína. Söngleikir og annað leiklistarstarf, myndlist, kvikmyndagerð og hönnunarvinna eru allt dæmi um skemmtilega vinnu sem skila börnunum okkar mikilli þekkingu. Það að styrkja börnin í að þroska hæfileika og elta drauma sína eflir þau öll hvert sem leiðin liggur á lífsins vegi.

Góður kennari er listamaður

Góður kennari er í raun eins og listamaður því með starfsháttum sínum og kennslufræðilegri nálgun, atorku og hæfni hrífur viðkomandi nemendur sína og aðra samstarfsmenn og hvetur þá til sköpunar. Í söngleikja- og listaverkefnum reynir svo sannarlega á þessi atriði. Í skapandi skólaverkefnum leggja kennarar og annað skólafólk upp með ákveðna sýn sem fræðimenn hafa reynt að skilgreina og flokka í ákveðna grunnþætti. Erfitt er að skilgreina ferlið endanlega en hér er  t.a.m. er unnið með:

  • Athafnasemi: (action) – Nemendur eiga sinn þátt í verkefninu og þeir fá að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Virkni er aðalatriði og framlag allra skiptir máli.
  • Áhættu: (risk) – Hver og einn þátttakandi tekur áhættu. Líkar áhorfendum og félögum við afraksturinn? Ákveðinn óvissa er framundan um hvernig til tekst. Það er áskorun að fara út fyrir rammann.
  • Dýpt: (depth) – Nemendur sökkva sér í vinnu og það að flytja mál sitt skýrt, skapa persónur, leika, dansa og syngja. Allt verk sem krefjast mikils af viðkomandi. Með dýpt er ekki bara átt við það sem gerist á sviði heldur einnig baksviðs. Margt þarf að gerast til að koma hugmynd yfir í handrit og handriti yfir í leiksýningu.
  • Hugvit: (imaginative) – Unnið er með hugmyndir og persónusköpun. Hver er boðskapurinn, hver er söguþráðurinn o.s.frv. Ólík þekking og leikni er lögð að jöfnu og unnið samþætt. Ótrúleg vinna og snilli liggur í hönnun búninga og leikmyndar.
  • Innri hvatning: (self-determination/direction) – Nemendum þarf að finnast hugmyndir og framlag sitt skipta máli og í verkefnum s.s. söngleikjum gefst gott tækifæri til að fylgja þessu eftir. Í slíkum verkefnum hefur hver nemandi sitt hlutverk og í sameiningu myndar hópurinn sterka liðsheild. Hverju vill einstaklingurinn og hópurinn í heild koma á framfæri?
  • Leik: (play) – Þátttakendur (nemendur, starfsfólk, foreldrar) vinna út frá ramma og hugmyndum sem taka sífelldum breytingum. Hér blandast saman gleði, áhugi og hæfileikar hóps í að ná sameiginlegum markmiðum verkefnis.
  • Lifandi/lífleika: (liveliness) – Hver sýning er í raun sjálfstæður viðburður því áhorfendur og aðrar aðstæður hafa áhrif á útkomuna. Unnið er í teymisvinnu þar sem ólíkir aðilar leggja saman og skapa eitthvað nýtt. Hvert er gildi verkefnis fyrir samfélagið sem við lifum í. Hver eru áhrifin á þátttakendur og aðra.
  • Nýsköpun: (innovation) – Nemendur vinna að einhverju nýju og spennandi sem krefst mikils, eitthvað sem gleður bæði að innan og utan. Leysa þarf fjölmörg atriði tengt leikmunum og leikmynd, lýsingu og tækni o.s.frv.
  • Spurningar/vangaveltur: (questions) – Hvert leikverk eða það sköpunarverk sem unnið er með hverju sinni á sér sjálfstætt líf. Í hverju verkefni er unnið með skoðanir og hugmyndir þátttakenda og þess samfélags sem við lifum í.
  • Þróun: (development) – Hugmyndin er lifandi og þróast. Leikverkið breytist t.d. eftir þátttakendum og ný leikmynd verður til í hvert sinn.

Einu skólaverkefni lokið og næsta komið í vinnslu

Skólaverkefninu Úlfur, Úlfur er lokið og næsta verkefni komið í vinnslu. Allt skólasamfélag Grundaskóla getur verið stolt með sinn hluta því sem sterk liðsheild sköpum við eitthvað ómetanlegt sem mun styrkja og fylgja nemendum okkar alla tíð. Jafnframt hefur hópurinn lagt sitt af mörkum við að efla menningarlíf á Akranesi og gleðja samferðarmenn. Boðskapur verksins, að efla lestur og veita ævintýrum verðskuldaða athygli, hefur svo sannarlega skilað sér til allra aldurshópa.

Skólastjórn Grundaskóla vill á þessum tímapunkti þakka öllum sem komu að þessari sýningu fyrir ómetanlegt framlag og stuðning. Við ætlum að vera óhrædd að reka áfram metnaðarfullt skólastarf þarf sem sköpun er eitt af grunnmarkmiðum starfs.

 

Sigurður Arnar Sigurðsson

Höf. er skólastjóri Grundaskóla á Akranesi