Skapandi námsumhverfi

Ása Erlingsdóttir

Í samfélagi dagsins í dag, menntum við þegna framtíðar. Í ljósi þess að samfélagið breytist ógnarhratt og að enginn sér fyrir endann á því, ber okkur að bregðast við þróun morgundagsins með fjölbreyttri menntun. Við þurfum að gefa nemendum okkar mörg tækifæri og margvíslegar áskoranir til þess að efla færni þeirra og þroska til aukinnar þekkingar.

Til þess að stuðla að framtíðar menntun ber að nýta þá sérfræðiþekkingu sem við eigum í fagfólkinu okkar innan skólanna, á öllum skólastigum. Við erum rík af fagmenntuðu fólki í skólunum okkar sem eru tilbúnir að efla nemendur með því að kynna þá fyrir margbreytilegu námsefni, námsaðferðum og umhverfi til náms. Það er hins vegar ekki nóg að hafa þekkinguna og fólkið ef aðstæður og umhverfi styðja ekki framsækið starf með nemendum. Víða eru góðir möguleikar og aðstæður en annars staðar þarf að bæta verulega það daglega umhverfi sem nemendur okkar búa við, hvort sem er innandyra eða utan. Þar getum við bætt í enda ljóst að endurnýja þarf leiksvæði/útinámssvæði og fleira í umhverfi skólanna. Einnig þurfum við að styrkja ytra umhverfi skólanna verulega þegar kemur að nettengingum og tæknibúnaði, svo að nemendur hafi sama aðgang og aðrir, að því tæknilega umhverfi sem þeir munu búa í til framtíðar.

Umhverfi skólanna er víða áhugavert og gefandi. Það ber að nýta til að kynna nemendur fyrir lífinu, náttúrunni og þeim ótal þáttum sem maður getur reynt á eigin skinni í náttúrulegu umhverfi. Eftir því sem reynsla okkar er ríkari verður sköpunargáfan þroskaðri og hver og einn hefur breiðari þekkingu og reynslu til að byggja á. Þess háttar skólastarf er í fullkomnu samræmi við áherslur í gildandi Aðalnámskrám skólastiganna þar sem áhersla er lögð á sex grunnþætti menntunar. Við verðum því að gefa nemendum okkar tækifæri til að þroskast innan þessara þátta í sínu námi og vegferð. Til þess að það sé hægt þarf að búa vel að skólunum, náttúrulegu umhverfi og starfsumhverfi þeirra sem skólastarfið byggir á, ekki síður en námsumhverfi nemenda.

Með því að nýta tæknina og ný tækifæri henni tengdum ásamt því að leyfa nemendum að reyna sig í raunverulegum aðstæðum í þeirra nánasta umhverfi, gefum við þeim gott ferðanesti til sköpunar og þroska inn í framtíðina. Þar sem við vitum að störf framtíðar munu krefjast útsjónarsemi, þrautseigju, lausnarleitar og fleiri þátta verðum við að efla þá færni hjá nemendum okkar.

Eins og segir í skólastefnu Borgarbyggðar frá 2016 þá er samfélag án skóla, samfélag án framtíðar. Framtíð okkar byggir á faglegu og fjölbreyttu skólastarfi sem eflir nemendur í átt að auknum þroska með fjölbreyttum tækifærum í námi og leik.

 

Ása Erlingsdóttir

Höf. Skipar 8. sæti VG í Borgarbyggð