Skaginn er alltaf að skora!

Bjarnheiður Hallsdóttir

Skagamenn eru á mikilli siglingu á knattspyrnuvellinum þessa dagana. Þeir eru óvænt búnir að blanda sér í toppbaráttuna í Pepsideildinni og þar með slaginn um Evrópusæti. Gunnlaugur Jónsson hefur verið nefndur sem hugsanlegur þjálfari ársins. Garðar Gunnlaugsson gerir harða atlögu að markakonungstitlinum. Þetta vekur töluverða athygli, þar sem Knattspyrnufélag ÍA hefur undanfarið ekki farið þá leið sem flestir keppinautar okkar fara, að styrkja liðið með dýrum innlendum eða erlendum leikmönnum. Knattspyrnufélag ÍA hafur sem sagt farið þveröfuga leið – byggt liðið að mestu upp á heimamönnum, flestum uppöldum hjá félaginu.

Gott gengi liðsins er m.a. útskýrt með samheldni manna úr litlu bæjarfélagi, þar sem engum stendur á sama, á stemningu sem aðeins getur myndast í smærri samfélögum, þar sem allir þekkja alla og svo umgjörðinni í kringum félagið og stuðningi og jafnvel styrku aðhaldi bæjarbúa.

Það er allavega alveg ljóst að ÍA hefur mikla sérstöðu í Pepsideildinni. Liðið er eitt þriggja liða af landsbyggðinni sem spilar í efstu deild í ár og það eina sem er ekki með stóran hluta leikmanna sinna aðkeyptan. Skagamenn hafa sett sér þá langtímastefnu að byggja upp lið þar sem áhersla er lögð á að sem flestir leikmenn komi úr eigin smiðju. Það er vissulega seinlegra og krefst meiri þolinmæði en að fara út í búð í félagaskiptaglugganum og kaupa menn í þær stöður sem vantar.

En það er eitthvað mjög fallegt og sjarmerandi við þetta. Það er alveg einstaklega skemmtilegt að sjá kornunga leikmenn springa út inni á vellinum og verða þar að mönnum með mönnum. Þetta ber að þakka öflugu starfi yngri flokka og ekki síður afreksstarfi sem hefst í 4. flokki hjá félaginu. Skagamenn hafa nú lagt enn meiri áherslu á þessa stefnu sína og í raun meitlað hana í stein með því að hafa eitt fárra félaga lýst því yfir opinberlega að ætla að nýta fjármuni úr EM framlagi KSÍ eingöngu til að byggja félagið upp innan frá – og þá ekki hvað síst yngri flokka starfið. Það er því meira en líklegt að leikskýrslur framtíðarinnar verði með svipuðu sniði og skýrslan úr síðasta leik ÍA gegn Víkingi Reykjavík sunnudaginn 28. ágúst, þar sem af tuttugu manna hópi leikmanna og þjálfara voru 80% Skagamenn!

 

Áfram ÍA!

Bjarnheiður Hallsdóttir.

Höf. er fulltrúi í aðalstjórn KFÍA.

Fleiri aðsendar greinar