
Skagamenn drógu stutta stráið
Helgi Hauksson
Vegagerðin hefur nú tekið yfir rekstur landsbyggðarvagna og ný gjaldskrá tekið gildi. Samkvæmt nýrri gjaldskrá hækkar samgöngukortið mitt um 92% milli ára, sem er fáránlega mikil hækkun. Ekki er lengur hægt að kaupa kort fyrir ákveðna leið heldur einungis fyrir ákveðna landshluta, en áður var ég með kort sem gilti milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins. En nú á ég að borga það sama fyrir samgöngukort og einstaklingur sem býr t.d. í Staðarskála. Stakt fargjald er aftur á móti 4.900 krónur frá Staðarskála til Reykjavíkur en 980 krónur frá Akranesi til Reykjavíkur. Þetta nær náttúrulega ekki nokkurri átt.
Ég veit ekki hverjum datt það snjallræði í hug að láta þá sem búa í nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins borga það sama fyrir samgöngukort og þeir sem búa fjórum sinnum lengra í burtu. Svo því sé haldð til haga þá eru önnur bæjarfélög að koma mun betur út úr þessu þar sem stakt fargjald er hærra hjá þeim en hjá okkur Akurnesingum.
Fyrir okkur Akurnesinga sem sækjum vinnu á höfuðborgarsvæðinu og höfum verið að nýta okkur samgöngukortið þar sem það var hagkvæmur kostur, þá er það ekki eins hagstætt og það var samanber þessi áður nefnda 92% hækkun. Kosturinn við samgöngukortið var að maður fékk 12 mánuði á verði 9. Þessi sömu mánuðir og nú eru 92% dýrari. Þegar maður nú reiknar með að nota ekki vagninn þegar maður er í sumarfríi, veikindum og öðrum tyllidögum, og maður tali ekki um þær ferðir sem falla niður vegna veðurs, þá eru þessir þrír auka mánuðir allt í einu orðnir að ekki neinu, og þá ávinningurinn með þessu samgöngukorti orðinn lítill sem enginn. Hvetur frekar til að nota einkabílinn á milli með auknu sliti á vegum og öðru sem því fylgir.
Ég hef sent póst á Vegagerðina þar sem ég lýsti vonbrigðum með þessar breytingar en hef ekki fengið nein viðbrögð þaðan. Ég er allavega ekki að fara endurnýja mitt kort alveg á næstunni að óbreyttu.
Kveðja,
Helgi Hauksson