Skaflar af rauðum sandi og ökulexíur í Níger

Geir Konráð Theódórsson

Eftir dásamlega og bjartsýna spjallið um framtíð Afríku sem ég átti á norsku við súdanska verkfræðinginn Adbeletif, sem flest ykkar lásuð um í síðasta blaði, þá steig ég út úr flugstöðinni í Niamey í Níger og á 40°C stiga hitavegg. Mín elsku besta kærasta var þarna til að taka á móti mér en brosið hennar var eitthvað veikt. Við föðmumst og hún baðst afsökunar á kraftleysinu sínu í faðmlaginu, hún taldi mögulegt að hún væri komin aftur með malaríu, í þriðja sinn á þessu ári.

Hún er samt alveg einstök og vildi ekkert láta vorkenna sér eða vera með neinn aumingjaskap. Klukkan var orðin margt, það var vinnudagur daginn eftir og hún sagði að best væri að koma sér beint heim, sérstaklega núna þegar myrkrið væri skollið á. Við hoppuðum upp í litla bláa bílinn hennar og hún brunaði inn í borgina. Ég var kannski eins og hundur í framsætinu þegar ég setti höfuðið út um gluggann, uppfullur af spenningi við að sjá borgina betur. Ég komst mjög fljótlega að því að allar mínar kvartanir út í umferðareglur, hámarkshraða og holótta vegi heima á Íslandi fóru í gegnum hugann minn og svo út um gluggann á leiðinni.

Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Í myrkrinu sá ég ekki mikið af borginni sjálfri en ég gat bara ekki hætt að stara út um gluggann. Þvílík mannmergð og allskonar umferð! Við keyrðum fram hjá endalausum bílskrjóðum sem stundum voru bundnir saman með reipum í bland við að keyra framhjá einum og einum glæsibíl. Inn á milli voru heimagerðir vagnar dregnir áfram af ösnum og fólk þeyttist inn á milli bíla á mótorhjólum og reiðhjólum, en ótrúlegast af öllu voru svo hugrökkustu gangandi vegfarendur sem ég hef séð. Það fólk stökk áfram skref fyrir skref, en þess á milli stóð það grafkyrrt á meðan bílarnir og hjólin brunuðu bara hársbreidd framhjá. Allt gert af yfirvegun til þess að komast í gegnum umferðina og fara yfir veginn. Ég hef enn ekki séð neinar nothæfar gangbrautir hérna í höfuðborginni.

Kærastan sá mig gapa og sagði: „Þú venst þessu, maður þarf bara að keyra sérstaklega varlega í bland við að vera mjög ákveðinn. Það eru ekki beint umferðarreglur hérna, en samt stundum, sérstaklega á hringtorgunum þegar löggan er að reyna að fá mútur. Ekki vera kurteis því enginn annar er það og passaðu þig sérstaklega á mótorhjólunum. Hafðu gluggann opinn til að kæla bílinn en lokaðu fljótt ef við verðum stopp á veginum svo að sölumennirnir og betlararnir fari ekki með hendurnar inn. Þetta er allt í góðu, þú venst þessu.“

Á endanum komumst við heim. Vinalegi öryggisvörðurinn opnaði hliðið og fyrir innan háu veggina var þessi litla paradís sem núna er heimilið mitt. Háar plöntur umkringja fallegt hús með lítilli sundlaug. Ég tók eftir að það eru járnrimlar á hverjum glugga og ekkert gras í garðinum, bara sandur, en samt var þetta svo vinalegt við fyrstu sýn. Sérstaklega vinalegt var þegar varðhundarnir komu hlaupandi að mér, dillandi rófunni og greinilega til í að leika frekar en að verja húsið.

En þessi nótt var samt erfið, elsku kærastan varð veikari og veikari. Hún var búin að fara tvisvar á síðustu dögum í blóðprufu til að kanna hvort hún væri með malaríu en niðurstaðan alltaf neikvæð, læknirinn sem hún hitti sagði að þetta væri líklegast bara kvef eða flensa. Hún þekkti samt einkennin, hún hafði upplifað þetta tvisvar áður en aldrei var þetta svona slæmt. Ég hjúkraði henni yfir nóttina og allan næsta dag, og hún fór auðvitað ekkert í vinnuna. En um kvöldið var hún komin með hita vel yfir 40°C, skalf og barðist við uppköst. Hún var samt alltaf að reyna að gera lítið úr þessu, hún er hörkutól sem vill helst bara hrista hlutina af sér, en það var augljóst að hún varð að komast til læknis.

„Allt í lagi, en þú verður þá að keyra mig þangað. Ég skal leiðbeina þér á réttan stað,“ sagði hún veiklulega þegar ég fór með hana út í litla bláa bílinn. Ég dró djúpt inn andann og keyrði af stað út um hliðið. Það voru skaflar af rauðum sandi á veginum og hverjum hefði grunað að reynslan frá því að keyra í íslenskum vetri myndi gagnast hér? Ég náði að fara á hraðanum yfir sandinn án þess að festa bílinn og fékk veiklulegt hrós frá kærustunni í farþegasætinu, því það er víst frekar algengt að festast í þessu. Svo kom að því að takast á við brjáluðu og stjórnlausu umferðina í gegnum borgina. Einhvern veginn komumst við í gegnum þetta allt og á leiðarenda. Kærastan komst til læknis, þetta var svo sannarlega malaría og hún fékk lyf og góða meðferð. Hún er sem betur fer núna, mörgum dögum síðar, orðin nokkuð hress aftur og samkvæmt blóðprufu blessunarlega alveg laus við malaríuna.

Ég er að venjast þessu lífi hérna og náttúrulega vona að ég fái ekki malaríu. Himinn og jörð venjulega farast í mínum huga ef ég upplifi smá kvef, þannig að ég efa að ég muni takast á við malaríu af sömu hörku og kærastan. Svo er ég auðvitað sérstaklega að venjast umferðinni hérna, og ég get sagt ykkur að ég mun líklegast kyssa hið margumrædda og umdeilda 30 km hámarkshraðaskilti í Borgarnesi næst þegar ég kemst heim til Íslands. Ég þrái í dag ekkert meira en hæga og hófstillta umferð.

Geir Konráð Theódórsson

Höfundur er Borgnesingur sem elti nýverið ástina til Níger og skráir ferðasögu sína í Skessuhorn.