Sjúddirarí rei í Borgarbyggð

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Eins og fram hefur komið að undanförnu hefur fjármálastjórn meirihluta Vinstri grænna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í Borgarbyggð einkennst af mikilli óstjórn. Hér er ekki um að ræða einstakt tilvik heldur röð mála sem einkennast af klúðri og kristallar vanmátt og ráðaleysi.

Rekstur Borgarbyggðar var lengi vel í járnum eftir hrun og í upphafi kjörtímabilsins árið 2014, eftir ábendingar frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga, hafði þáverandi meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks frumkvæðið af því að fara af stað með verkefni til að rétta fjárhaginn af með markvissum hætti. Verkefni sem hefur verið kallað Brúin til framtíðar. Skilaði það gríðarlega góðum árangri til að byrja með og þau markmið sem unnið var að náðust. Því miður hefur núverandi meirihluti misst sjónar af þessum vörðum sem unnið hefur verið eftir og útlit er fyrir að öll sú vinna sé unnin fyrir gíg.

Ein dýrasta leikskólalóð Íslandssögunnar

Áður höfum við í Framsókn bent á óhóflegar framúrkeyrslur í hönnunarkostnaði lóða og vanefndir við að bjóða út hönnunarkostnað og framkvæmdir eins og lög gera ráð fyrir vegna byggingarframkvæmda sem sveitarfélagið hefur staðið í bæði við Grunnskólann í Borgarnesi og við leikskólann á Kleppjárnsreykjum. Íbúar sveitarfélagsins hafa nú greitt úr vasa sínum líklegast dýrustu leikskólalóð sem ráðist hefur verið í hér á landi. Hönnunarkostnaður hefur farið um 400% fram úr áætlun en það er aðeins upphafið af stjórnleysinu því framkvæmdakostnaður sem áætlað var að færi í 40 milljónir er nú komin í 68 milljónir og aðeins 60% af verkinu er lokið. Útlit er því fyrir að kostnaður við hönnun og framkvæmdir við 30 barna leikskólalóð verðu því ekki undir 100 milljónum.

Brúin til framtíðar brotin

Sú fjárhagsáætlun sem meirihluti VG, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur nú lagt fram fyrir næstu ár einkennist af lántökum. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir því að rekstur muni ekki standa undir sér og sveitarfélagið verði rekið með tapi næstu árin. Þessu ætlar meirihlutinn að bregðast við með lántöku. Skuldir sveitarfélagsins munu því ekki gera neitt nema hækka á næstu árum og engin geta er til staðar til þess að leita leiða til að rýna í rekstur sveitarfélagsins með það að markmiði að hann standi undir sér. Ljóst er að áætlanir meirihlutans eru að keyra það sem eftir er af kjörtímabilinu á lánum og láta svo snjóhengjuna lenda á íbúum eftir ca tvö ár.  Í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir fjárfestingum upp á ríflega 1.500.000.000 krónur næstu fjögur árin.

Ný grunnskólabygging rísi á Kleppjárnsreykjum

Í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir að sá grunnskóli sem nú er á Kleppjárnsreykjum verði rifinn og nýr grunnskóli með nýrri lóð og upphituðum gervigrasvelli verði byggður. Gert er ráð fyrir að skólahúsnæðið eitt og sér fyrir utan lóð og upphitaðan gervigrasvöll muni kosta 448 milljónir. Sagan og stjórnleysið hefur kennt okkur að sú upphæð mun ekki standast og verður líklega mun hærri, sennilega nær 1-1,5 milljörðum með öllu miðað við þær framúrkeyrslur sem við þekkjum. Þessar ákvarðanir einkennast allar af mikilli pressu úr nærumhverfi forseta sveitarstjórnar og formanns byggðarráðs. Í lögum um fjármál sveitarfélaga er miðað við að allar stórar framkvæmdir sem sveitarfélagið ræðst í séu ígrundaðar og byggðar á rökstuðningi um lýðfræðilega þróun og framtíðarskipulag. Eins og öllum er kunnugt má ekki ræða rekstur fræðslumála þó kostnaðurinn við málaflokkinn sé komin í 62% sem hlutfall af skatttekjum og rekstrarkostnaður hafi hækkað um 162 milljónir og launakostnaður um 350 milljónir á síðustu tveimur árum. Grundvallar spurningunni hefur ekki verið svarað sem einfaldlega þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í slíka framkvæmd, er þetta skóli fyrir skólasóknarsvæðið á Kleppjárnsreykjum í dag og ætlar meirihlutinn að halda því áfram að reka þrjá skóla í uppsveitum Borgarfjarðar?

Börn og ungmenni í sveitarfélaginu eiga skilið að fá að eflast og þroskast í öflugu félagslegu umhverfi með bestu aðstöðu til tómstunda og heilsueflingar. Okkur ber skylda til að tryggja að allt skólahúsnæði verði eins gott og kostur er, en ákvarðanir um nýbyggingar verða einfaldlega að vera byggðar á einhverri stefnu og framtíðarsýn. Tækni og þekking hefur gjörbylt samskiptum og tækifærum fólks m.t.t. búsetu, atvinnu og samskipta, náms og þekkingar. Það er okkar verkefni að undirbúa börnin fyrir nám og störf framtíðarinnar með því að styrkja sjálfsmynd þeirra og félagsþroska. Alla framsækni og framtíðarsýn vantar í ákvarðanatöku meirihlutans sem einkennist af hreppapólitík og gamaldags viðhorfum í að halda í gamlar hefðir um slíkt.

Nýtt íþróttahús í Borgarnesi á að vera forgangsverkefni

Fulltrúar Framsóknarflokksins hafa komið þeim áherslum á framfæri að nýtt íþróttahús skuli vera forgangsverkefni. Því hefur verið haldið fram að með því að hafa hönnunarkostnað við slíka byggingu inni á áætlun sé verið að lýsa vilja til þess að fara í þá framkvæmd. Ljóst er að löngu tímabært verkefni eins og bygging á nýju íþróttamannvirki sem mun þjóna íbúum sveitarfélagsins á öllum aldri mun verða kostnaðarsöm. En það sjá allir einnig að algjörlega óraunhæft verður að fara í það að byggja nýjan grunnskóla með lóð og gervigrasvelli og ætla einnig að ráðast í byggingu nýs íþróttahúss. Fjárhagur sveitarfélagsins einfaldlega býður ekki uppá slíkt. Því er hætt við að þessi forgangsröðun meirihlutans taki því miður frá okkur allar væntingar um að nýtt íþróttahús muni rísa á næstu árum.

Fulltrúar Framsóknarflokksins leggja áherslu á að unnið sé að því að koma á jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins svo hægt verði að vinna að uppbyggingu á innviðum í sveitarfélaginu. Bættri þjónustu við íbúa, lagfæringum á götum og gangstéttum ásamt því að tryggja að sú lögbundna þjónusta sem sveitarfélaginu ber að sinna verði framúrskarandi. En þær eru því miður búnar að raungerast áhyggjur sem margir íbúar höfðu í upphafi kjörtímabils að meirihlutans myndi ekki valda verkefninu og ekki er það Covid -19 um að kenna. Fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram ber þess sannarlega merki.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar