
Sjöunda gr. laga. nr. 48/2011
Georg Magnússon
Síðastliðið sumar átti ég ásamt öðrum leið um vindmylluvirkjanasvæðið fyrir ofan Búrfell þar sem Landsvirkjun stendur í framkvæmdum. Þarna er mikil efnisvinnsla, malarhörpur, trukkar, gröfur, steypustöðvar og allt sem til þarf á sléttu landssvæði. Haft var á orði að miðað við þessi ósköp þarni fyrir austan yrði Grjóthálsinn jafnaður við jörðu yrði af vindmylluframkvæmdum þar. Því er ekki úr vegi að skoða aðeins áætlaða efnisvinnslu þar.
Í matsskýrslu frá því í mars 2019 um vindmylluframkvæmdir á Grjóthálsi kemur fram að efnisþörf sé 3.000 – 5.000 m3 í vegi frá Grjóthálsvegi að vindmyllum og gera megi ráð fyrir því að styrkja þurfi Grjóthálsveg þeim megin sem flutningar fara fram (annað hvort úr Þverárhlíð eða Norðurárdal) og búast megi við efnisþörf 7.000 – 10.000 m3. Búist er við því að nýta námur á svæðinu og þar eru nefndar námur í landi Sigmundarstaða, Dýrastaða og úr Bjarnardalsá. Reynt verður að komast hjá því að opna nýjar námur á svæðinu. Samtals eru þetta 15.000 m3 plús/mínus. Jú og uppgröftur úr undirstöðum vindmyllanna verður notaður eins og kostur er. Þetta eru ekki nema um 1000 fjögurra öxla vörubílsfarmar. Gott og vel.
Í matsskýrslu frá mars 2024 hefur vindorkugarðurinn hefur heldur betur „sverkast og sterkast“ eins og kerlingin sagði. Sem fyrr á að nýta efnið sem kemur upp úr grunnum undirstaða vindmylla og spennumannvirkja, annað efni sem til þarf verður sótt úr nýjum námum innan framkvæmdasvæðisins. Fyrirhugað er að opna allt að fimm nýjar námur og fyrirhugað er að taka öll steinefni sem þarf í uppbyggingu vindmyllugarðsins þar. Allar námurnar eru staðsettar í basalt klapparkollum og í öllum námum er lítill yfirborðsjarðvegur sem þarf að fjarlægja. Þegar efnistöku er lokið verður gengið frá námunum þannig að sem minnst beri á þeim og þær falli inn í landslagið. Takið eftir, þannig að það beri sem minnst á þeim og þær falli inn í landslagið! Það skiptir öllu máli þegar búið verður að reisa rúmlega 100 metra háa vindmylluturna og aðlaga staðsetninguna þannig að þeir falli sem best við landsslagið eins og segir í matsskýrslunni að námasvæðin fimm falli nú vel að landslaginu inn á milli vindmylluturnanna! Hvergi er minnst á þær námur sem um var getið í fyrri matsskýrslu.
Nú skulum við skoða aðeins efnisþörfina, magnið sem áætlað er að vinna og hafa hugfast að um basalt klapparkolla er að ræða sem þýðir með öðrum orðum að þarna þarf að bora og sprengja og á sprengingar er ekki minnst í matsskýrslunni en gera verður ráð fyrir því að spreningar hafi áhrif á næsta umhverfi.
Áætluð efnisþörf er um það bil 250.000 rúmmetrar. Það eru ekki nema 17.000 fjögurra öxla vörubílsfarmar, vægt reiknað. Heldur færri námatrukkar eða búkollur, ekki nema svona 8 – 9.000 farmar.
Þetta varð til þess að ég sendi fyrirspurn á Borgarbyggð og spurði hvort Borgarbyggð hefði lagt blessun sína yfir nýjar námur á Grjóthálsi.
Skipulagsfulltrúi Borgarbyggðar svaraði nánast um hæl:
„Sæll Georg.
Nei Borgarbyggð hefur ekki samþykkt malarvinnsluleyfi fyrir 250.000 m3 af efni á Grjóthálsi hvorki í landi Hafþórsstaða né Sigmundarstaða.“
Þar með var komið svar við spurningunni en einhverra hluta vegna sá skipulagsfulltrúi Borgarbyggðar sig knúna til þess að hengja þetta við svarið við fyrirspurninni:
„Ítrekað er að það er stefna sveitarstjórnar að vindorkuver eða stakar stærri vindrafstöðvar verði einungis heimilaðar ef fyrir liggur skilgreining svæðis í nýtingarflokki rammaáætlunar. Rammaáætlun er bindandi fyrir sveitarfélög og þeim skylt að innleiða stefnu rammaáætlunar í aðalskipulagi. Þannig að ef ríkið ákveður ekki að vindorkuver skuli vera í Borgarbyggð þá verða engin vindorkuver í sveitarfélaginu miðað við stefnu sveitarstjórnar.“
Þetta vakti mig til umhugsunar, hvers vegna skipulagsfulltrúinn ákvað að nefna þetta í svarinu við spurningunni um námavinnsluleyfið á Grjóthálsinum sem varð til þess að ég sendi fyrirspurn á ráðuneytið sem fer með málaflokkinn. Þaðan barst svar, ótrúlega fljótt og vel við fyrirspurninni: „Góðan daginn. Er sveitarfélögum skylt samkvæmt lögum að samþykkja virkjunarkosti, virkjunarkost, sama hvers nafni þeir nefnast, séu virkjunarkostir, virkjunarkostur, kominn inn á Rammaáætlun?“
Svar við þessu er að skv. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun er verndar- og orkunýtingaráætlun bindandi við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga. Þetta þýðir með öðrum orðum að sveitarfélög verða að gera ráð fyrir virkjunarkostum í nýtingu, vernd og biðflokki á skipulagi sínu. Í sömu grein segir hins vegar að sveitarfélög geti frestað því að setja þessa virkjunarkosti inn á skipulag í allt að 10 ár. Að liðnum þeim fresti geta þau óskað eftir 3 ára viðbótarfresti. Svarið er því að þau verða að setja virkjunarkosti inn á skipulag sitt en geta frestað því um all langan tíma ef þau óska þess. Með bestu kveðju, Hafsteinn S. Hafsteinsson lögfræðingur Skrifstofa loftlags og náttúru.
Það var og.
Takið eftir og takið nú vel eftir:
Samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi er ekkert sem skyldar Borgarbyggð að gera ráð fyrir neinum vindmylluvirkjunarkostum inn á sitt aðalskipulag næstu 10 árin og getur að 10 árum loknum óskað eftir 3 ára viðbótarfresti. Sú harka sveitarstjórnar gagnvart íbúum, landeigendum og öðrum þeim sem hafa verið á móti eyðileggingu Grjóthálsins og reyndar annarra svæða þar sem ráðgert er að setja upp vindmyllur er ótrúleg.
Getur það verið að sveitarstjórnarfulltrúar hafi kokgleypt það sem skipulagsfulltrúinn sagði óumbeðið í svarinu til mín? Að sveitarfélögum sé skilt að gera ráð fyrir vindorkukostum í aðalskipulagi og það strax! Og gleymum ekki þeirri skipulagsbreytingu sem þegar hefur verið gerð á Grjóthálsi til handa þeim sem þar hyggja á uppsetningu vindmyllugarðs. Eða er eitthvað annað sem býr undir hjá sveitarstjórn í öllu þessu fádæmalausa ferli?
Við skulum skoða aðeins grein 3.6.12 aðalskipulaginu um Loftslag.
Þar segir meðal annars: Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslags mála. Ísland hefur sett sér skýr markmið í loftslags málum með Parísarsamningnum, stefnu um kolefnishlutleysi 2040. Í endurskoðuðu aðalskipulagi verður fjallað um möguleg áhrif lofts lagsbreytinga og aðgerðir til að draga úr losun, auka bindingu og aðlögun að loftslagsbreytingum. Þetta getur t.a.m. haft áhrif á stefnumótun um skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu. Ýmsar breytingar vegna hlýnunar eru vel merkjanlegar í íslenskri náttúru og gefa tilefni til þess að til þeirra sé litið við endurskoðun aðalskipulagsins. Má þar nefna breytingar á rennsli jökuláa, sjávarstöðu breytingar og aukin úrkomuákefð sem geta haft áhrif á innviði, atvinnuvegi og samfélag.
Þarna er skemmtilega skautað fram hjá því að loftslagsbreytingar geti haft áhrif á fólk. Með öðrum orðum: Ekki er gert ráð fyrir því að gríðarleg uppbygging vindorkugarða í Borgarbyggð með fylgjandi kolefnisspori hafi ekki áhrif á fólk. Þarna stangast illilega á keyrsla sveitarstjórnar Borgarbyggðar í breytingu á skipulagi til handa vindmyllugreifum og svo aftur verndunar loftslagsins.
Við skulum gera okkur grein fyrir því að kolefnisspor vindmyllugarðs eins og er fyrirhugaður á Grjóthálsi er svo „gígantíkst“ að það verður ekki núllað á næstu 200 – 300 árum.
Að lokum til þess að fólk skilji og átti sig á því hversu mikið efni stendur til þess að vinna vegna fyrirhugaðs vindmyllu garðs á Grjóthálsi. Þegar talað er um hæð á mannvirkjum er ávallt miðað við hæð Hallgrímskirkju og t.d. þegar talað er um magnið í varnargörðunum við Grindavík samsvari til svo og svo margra Laugardalslauga. Ég ætla að breyta út frá þessu og miðað við að byggður verði veggur úr fyrirhuguðu efni sem á að vinna á Grjóthálsi. Veggur sem er eins meters breiður og 10 metra hár myndi ná langleiðina frá Borgarnesi og niður að Akranes vegamótum.
Georg Magnússon