Símapeningarnir og ljósleiðarinn

Stefán Skafti Steinólfsson

Ágætu lesendur. Frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra fara mikinn og ætla sér árangur af ljósleiðaravæðingu landsins.  Í því ljósi er mikilvægt að halda til haga þeim skaða sem varð af sölu Símans upp úr síðustu aldamótum og skiptingu Pósts og Síma. Hvar eru símapeningarnir sem átti að nota í innviði? Landsfeðurnir Halldór og Davíð lofuðu 66-70 milljörðum í innviði og m.a. Landsspítalann og ljósleiðaravæðingu.  Ætla má að hvarf símapeninganna og hrunið hafi tafið ljósleiðaravæðingu og margt fleira er snýr að innviðum um áratugi. Veldur hver á heldur.  Míla er það félag sem tók við innviðum Símans og hefði átt að byggja upp ljósleiðarkerfið út um landið. Að henda þessu í sveitarfélög er ekki markviss aðgerð né samfella í verkefninu. Farsælast hefði verið að leggja víða ljósleiðara með rafstrengjum Rarik og Orkubús Vestfjarða. Það hefði komið brothættum byggðum best, sem eru nú mölbrotnar og þurfa að bíða eftir þriggja fasa rafmagni í mörg ár. Enn berast fréttir af að „kroppa“ eigi í innviði Mílu. Allir þekkja sorgarsöguna um Póstinn sem fór nánast í gegnum rústabjörgun og að sjálfsögðu erum við skattgreiðendur sem borgum brúsann.

Það er mikilvægt að spyrja fyrir hverjar kosningar: Hvað varð um símapeninginn?

 

Stefán Skafti Steinólfsson, kjósandi. 

 

Fleiri aðsendar greinar