Sigurverk lýðræðisins

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Kæru íbúar Borgarbyggðar!

Á morgun munum við ganga til kosninga og nýta lýðræðislegan rétt okkar til að velja fólk til forystu fyrir Borgarbyggð. Þetta sigurverk lýðræðisins er þeim kostum gætt að það eru allir íbúar jafnir og öll atkvæði hafa jafnt vægi. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur öll að sem flestir nýti kosningaréttinn og komi á kjörstað og kjósi á kjördag. Ég vil fyrir hönd okkar í Framsókn þakka mótframboðum fyrir drengilega og skemmtilega kosningabaráttu. Við hlökkum til samstarfs við aðra flokka á næstu fjórum árum og erum sannfærð um að samstarf allra sem hljóta kjör í kosningunum á morgun verði gott og giftusamlegt fyrir samfélagið.

Það sem Framsókn ætlar að gera

Við í Framsókn höfum lagt mikið upp úr þeim málflutningi okkar að vilja byggja upp. Við viljum fjölga íbúum og efla atvinnu. Við ætlum okkur að skipuleggja 300 lóðir á næstu þremur árum, vera búin að reisa íþróttahús fyrir árslok 2025 og lækka gatnagerðargjöld fyrir atvinnuhúsnæði um 75%. Við viljum jafnframt leggja mikla áherslu á uppbyggingu annarra innviða og aukna velferð íbúa. Öflug grunnþjónusta og sterkir innviðir eru forsenda vaxtar og þar ætlum við að leggja okkar að mörkum.

Samvinna fólksins

Til að ná árangri fyrir samfélagið þurfum við öll að vinna saman. Við sem störfum í sveitarstjórn ásamt íbúum þurfum að eiga stöðugt samtal um framtíðina. Framtíðin í Borgarbyggð er björt, við búum í góðu samfélagi sem á mikla vaxtarmöguleika. Við viljum leggja okkar hönd á plóg til þess að sveitarfélagið megi vaxa enn frekar og  byggja upp samfélag, með aukinni verslun og þjónustu, fjölbreyttara atvinnulífi og fjölskylduvænu umhverfi. Því óskum við eftir þínum stuðningi á kjördag til að gera breytingar í Borgarbyggð.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknar í Borgarbyggð