Senn líður að kosningum

Berghildur Pálmadóttir

Fyrir fjórum árum síðan hafði ég búið í Grundarfirði í eitt ár og líkaði það vel. Þegar ég sá svo auglýsingu um kynningarfund hjá Samstöðu – lista fólksins datt mér í hug að mæta og heyra hugmyndir þeirra. Ég ákvað að stíga út fyrir þægindarammann og eftir fundinn var ég komin í stjórn félagsins og í sveitarstjórnarkosningum nokkrum vikum síðar skipaði ég annað sæti listans. Sigur í kosningunum var síðan kunngerður og ég komin bæði í bæjarstjórn og bæjarráð. Fyrsta árið var gríðarlega mikill skóli og hafði ég gaman af. Nú fjórum árum síðar hef ég setið marga fundi um hin ýmsu mál sem snúa að sveitarfélaginu okkar. Sum þessara mála komu á óvart en önnur ekki og hefur skilningur minn og kunnátta aukist til muna. Enda hef ég margoft sagt á kjörtímabilinu að allir ættu að prófa að sitja í sveitarstjórn, til þess að víkka sýn og auka skilning. Þar sem mér finnast sveitarstjórnarmálin áhugaverð og ég tel mig enn geta lært og gert betur þá tók ég ákvörðun um að gefa kost á mér önnur fjögur ár.

Það sem stendur upp úr eftir þessi fjögur ár er fólkið sem ég hef kynnst og lært af. Ég hef eignast vini og kunningja sem ég hefði kannski annars ekki kynnst. Gott samstarf í bæjarstjórn og bæjarráði hefur verið algjörlega ómetanlegt og megum við Grundfirðingar vera stolt af því, enda margir sem öfunda okkur að því.

Ég þakka þeim liðsmönnum L – listans sem nú stíga til hliðar fyrir gott samstarf og býð nýja hjartanlega velkomna. Ég er virkilega stolt af því að tilheyra þessum flotta hópi einstaklinga sem nú skipa listann. Þarna fara saman einstaklingar á breiðu aldursbili, með ólíka reynslu og bakgrunn, allir jafn ákveðnir í því að vilja vinna vel fyrir sveitarfélagið sitt. Ég tel að L – listi Samstöðu hafi unnið gott verk í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn síðustu fjögur ár og viljum við halda ótrauð áfram að bæta samfélagið okkar enn frekar.

Nú hef ég búið fimm ár í Grundafirði og ekki einu sinni hef ég séð eftir þeirri ákvörðun að flytja hingað. Hér er yndislegt að búa, samfélagið er opið og vingjarnlegt og börnin geta skoppað frjáls um. Hér höfum við þá fallegustu náttúru sem fyrirfinnst og auðugt dýralíf sem heillar. Það er hægt að fara í fjallgöngur, skoða fjöruna, hoppa í fossa og svo margt, margt fleira, bara rétt í túngarðinum. Það er eftirsóknarvert! Nýtum það sem við höfum enn betur og gerum sveitarfélagið okkar þannig enn eftirsóknarverðara. Það er það sem við hjá L – lista Samstöðu viljum gera. Því bið ég þig um að setja X við L þann 26. maí nk.

 

Berghildur Pálmadóttir

Höf. skipar 4. sæti á L – lista Samstöðu – lista fólksins í Grundarfirði.

 

Fleiri aðsendar greinar