Seig börn

Steinunn Eva Þórðardóttir

„Þú ert rosaduglegur strákur,“ segir tannlæknirinn, „já ég veit,“ svarar þriggja ára stráklingur rogginn. Þegar heim var komið þurfti að endurtaka söguna af dugnaðinum og amma sagði: „Þú er aldeilis „seigur“,“ sem hann spurði hvað merkti og fékk svarið duglegur. Seigur gæti líka verið stytting á þrautseigur sem er náskylt dugnaði en ekki alveg það sama.

Þrautseigja er að hafa úthald til að klára hluti, líka erfiða. Það er að seiglast áfram í gegnum leiðinleg verk eða gegnum skólagöngu sem er leiðin að þeirri framtíð sem þú óskar þér en er ekki alveg sú nútíð sem þig langar mest að vera í, svo dæmi séu tekin. Eins og flest í fari okkar er hún að einhverju leyti meðfædd en það er hægt að hafa áhrif á hana og mikilvægt að börn læri þrautseigju og bjartsýni því það er svo gagnlegt í lífinu. Þeim sem eru bjartsýnir gengur betur en próf myndu spá fyrir um í skóla, þau taka sig frekar á þegar þau fá skell og eru bæði heilsuhraustari og ánægðari með lífið. Þessir eiginleikar tengjast því að sjá bjart framundan, en von um betri tíð, er að mínu mati lykill að þrautseigju.

Börn geta lært hvort heldur vonleysi eða von. Lært hjálparleysi er bæði uppskrift að slæmu gengi í skóla og þunglyndi. Því miður er líklegt að börn sem fá of erfið verkefni í skóla læri mjög hratt vonleysi sem kemur þannig fram að þau missa áhuga og hætta að reyna við námið af alvöru. Þetta á auðvitað við um öll verkefni. Ef foreldri gerir of miklar kröfur sem barnið hefur ekki möguleika á að standa undir gerist það sama. Ef kröfurnar eru þannig að barn á „alltaf“ eða „aldrei“ að gera eitthvað, eru þær óraunsæjar. Börn eru stundum óþekk, taka ekki alltaf til né segja alltaf satt, alveg eins og við fullorðna fólkið. Þau eru ekki fullkomin en eru samt alveg eins og þau eiga að vera, og elsku verð, eins og við. Hitt er líka til að foreldri elski barnið svo ógurlega að það geri of litlar kröfur og hlífi barninu á allan hátt. Ef barnið kvíðir fyrir prófi hringir foreldrið það inn lasið, ef það mætir og gengur illa er það prófið eða kennarinn sem er ómögulegur, því er alltaf skutlað í skólann því það er svo mikið vesen að ganga og svo framvegis. Þrautseigja og sjálfstrú lærist hinsvegar bara við að takast á við hluti og komast yfir erfiðleika. Það að innræta börnum gróskuhugarfar er ein undirstaðan, fyrst þarf uppalandinn reyndar að tileinka sér það, þannig virkar uppeldi, þú þarft að verða sú fullorðna manneskja sem þú vilt að barnið verði.  Þau læra af því hvernig þú ert og hvernig þú tekst á við erfiðleika og mistök. Gróskuhugarfar er meðal annars að horfa á erfiðleika, mistök og gagnrýni með þeim augum að þú getir lært af þeim. Þá tapar þú aldrei, annað hvort tekst þér ætlunin eða þú lærir af mistökunum og getur jafnvel deilt fyndinni sögu. Mundu að hvort sem þú trúir því að þér mistakist eða náir árangri er líklegast að það gangi eftir, eins og haft er eftir Henry Ford.

 

Steinunn Eva Þórðardóttir.