Sauðfé, almannafé og réttlæti

Ólafur Arnalds

Sveitastjórn Borgarbyggðar vill skikka landeigendur í upprekstrarfélög samkvæmt frétt og viðtali í Fréttablaðinu 19. október.  Svo það falli ekki kostnaður við smölun á hinn almenna íbúa Borgarbyggðar – sem er göfugt sjónarmið. En þvinguð félagaaðild gengur þvert á þau mannréttindi sem lög og reglur tryggja íbúum þessa lands og því má ætla að framhald þessa máls verði athyglisvert. Dómar hafa fallið í fullkomlega hliðstæðum málum í öðrum sveitum landeigendum í hag. Möguleg þvingun í upprekstrarfélag er í þágu tiltölulega fárra íbúa Borgarbyggðar sem búa við sauðfé en gengur þvert á hagsmuni margra annarra íbúa.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að sveitarfélög geta ekki hafnað því að smala ágangsfé óski landeigandi þess – í raun er lausaganga búfjár á lendur annarra án leyfis bönnuð samkvæmt lögum og sveitarfélögum ber að smala slíku fé sé því óskað sbr. IV kafla laga 6/1986.  (Hún er líka bönnuð samkvæmt reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu (landbúnaðarstyrkir) – en það er svo sem ekkert farið eftir því – sem er önnur saga).

Nú er það deginum ljósara eftir úrskurð Umboðsmanns að það er ekki hægt að þvinga landeigendur til hreinsa fé annarra úr eigin löndum á sinn kostnað – þessi kostnaður mun falla á sveitarfélagið eða eigandann, en það er háð þáttum á borð við fjallskilasamþykktir (sem sauðfjárbændur vinna gjarnan án samráðs við aðra íbúa).  Með öðrum orðum, kostnaðurinn getur fallið á borgarana; líka landlaust launafólk vítt um byggðina, í Borgarnesi, Hvanneyri og víðar.  Því er það skiljanlegt að sveitarstýran kveinki sér undan kvöðum um smalamennsku út um alla koppagrundir fyrir hönd sinna umbjóðenda.  Í viðtalinu við Fréttablaðið sagðist sveitarstýra Borgarbyggðar einmitt að; „Sveitarfélög eru ekkert annað en sameiginlegur sjóður íbúanna.“  Mæli hún allra kvenna heilust – ekki er gott að sóa fjármunum íbúanna í óþarfa.

Í ljósi ummæla sveitarstýrunnar finnst mér mikilvægt að íbúar Borgarbyggðar séu upplýstir um það að sveitarstjórn hefur nú þegar varið gríðarlegum fjárhæðum í málaferli í þágu örfárra sauðfjárbænda til að sækja beitarrétt í land sem er í eigu annarra. Sem er vitaskuld með hreinum ólíkindum – hvernig má þetta eiginlega vera?  Eins konar valdníðsla á kostnað útsvarsgreiðenda. Þau málaferli standa enn yfir að ég best veit.

Sveitarfélagið neitaði síðan að gefa upp kostnaðinn við þessi málaferli – ekki var nú verið að greiða leið íbúa Borgarbyggðar sem annarra að sjálfsögðum upplýsingum um hvernig fjármagni íbúanna er varið.  Hvað var verið að fela?  Að fé úr sameiginlegum sjóðum íbúanna sé sólundað með vafasömum hætti? Dæmi hver fyrir sig. Draga þurfti þessar upplýsingar fram með töngum – með málrekstri og úrskurði Úrskurðarnefndar um umhverfismál (nr. 884/2020).  Nú verður sveitarfélagið að veita þessar upplýsingar sé þess óskað.

Borgarbyggð ætti að sjá sóma sinn í að hætta þessum „ofsóknum“ á hendur landeigenda fyrir hönd örfárra sauðfjáreigenda sem eiga hlut að máli á kostnað íbúa sveitarfélagsins.  Og ekki síður að draga til baka rétt til beitar á aðra – sem stenst engan veginn siðræn sjónarmið.

Borgarbyggð hefur ýmsa möguleika til að tryggja að smölunarkostnaður ágangsfjár úr afrétti falli ekki á almenna íbúa sveitarfélagsins, t.d. með fjallskilasamþykktum (4. kafli laga 6/1986) og getur auk þess bannað lausagöngu í byggðinni.  Þá færist kostnaður og ábyrgð á fénaði þangað sem hún á að vera: á eigendur fjárins.

 

Ólafur Arnalds

Höfundur er áhugamaður um landnýtingu, mannréttindi og lýðræði og starfar sem prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.