Sátt um sjávarútveg – við hvern?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ákvarðanir um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og arðinn af henni eru eitt stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi um þessar mundir.  Það kvótakerfi sem innleitt var á Íslandi eftir 1980 leiddi alvarlega byggðaröskun yfir fjölmargar sjávarbyggðir sem áður byggðu afkomu sína á frelsi til fiskveiða. Ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun, enda hefur lítið sem ekkert áunnist við að auka atvinnufrelsi og nýliðunarmöguleika í íslenskum sjávarútvegi frá því kerfinu var komið á.

 

Afleiðingar kvótakerfisins

Af kvótakerfinu leiddi annars vegar takmörkun á þorskveiðum til verndar stofninum sem þýddi um leið mikinn samdrátt í veiðum og vinnslu botnfisks. Þetta var óhjákvæmileg afleiðing þess að stýra sókninni í fiskistofnana til að vernda þá.

Með tímanum komu hins vegar fram aðrar og verri hliðarverkanir sem höfðu þyngri afleiðingar fyrir byggðarlögin. Kerfið fól nefnilega í sér takmarkaðan aðgang að takmörkuðum gæðum – því aflaheimildum var einungis úthlutað til þeirra sem verið höfðu 3 ár eða lengur í greininni. Kerfinu var þannig læst utan um útvalinn hóp útgerðarmanna og eftir það komust ekki fleiri þar að, nema sem leiguliðar þeirra sem fyrir voru. Aflaheimildir urðu þar með auðlind í sjálfu sér, þær tóku að ganga kaupum og sölum. Þær ruku upp í verði, færðust milli byggðalaga og þjöppuðust á fárra heldur og … þær mátti fénýta með öðrum hætti en veiðum, til dæmis með því að leigja þær frá sér.

Aflleiðingin varð hrikaleg fyrir fjölmargar sjávarbyggðir sem enn eru að kljást við atvinnubrest og fólksflótta. Nýleg dæmi eru Flateyri, Þingeyri og Þorlákshöfn.

 

 

Hvað vildu stjórnvöld?

Stundum er talað eins og núverandi kvótakerfi sé eina leiðin til þess að stjórna fiskveiðum við Ísland. Því fer víðsfjarri enda hafa ríki viðhaft ýmsar aðferðir við fiskveiðistjórnun. Þarf ekki að líta lengra en til Færeyja til að sjá bæði dagakerfi og uppboðsleið.

Deilan um fiskveiðistjóruninina snýst ekki bara um eignarhaldið á sameign þjóðarinnar heldur líka nýtingarréttinn. Auk þess að vera festur í höndum fámenns hóps varð kvótinn með tímanum að braskvarningi. Það virðist þó ekki hafa verið ætlun stjórnvalda sé litið til lagabókstafsins þar sem fortakslaust bann er sett við veðsetningu aflaheimilda.

 

Til dæmis segir í 4.gr. laga um samningsveð:

„Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar.“

Á þessu er hnykkt í 30. gr. sömu laga en þar kemur fram að einungis heimilt að veðsetja afla, en ekki aflaheimildir.

Þetta hafa útgerðarmenn og bankastofnanir virt að vettugi fram á þennan dag. Afleiðingin varð um tíma mikil áhættufjárfesting og gríðarlega skuldsetning innan greinarinnar sem árið 2009 nam ríflega 500 milljörðum króna á verðlagi þess árs.

Engin ástæða er heldur til að ætla að óréttlætið sem af kerfinu hlaust hafi verið ásetningur stjórnvalda þegar kvótakerfinu var komið á. Um það vitnar fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaga sem hefur verið óbreytt frá upphafi og hefst með þessum orðum:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.  Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Þrátt fyrir þessi orð má segja að fátt sé fjær sanni en að íslenska þjóðin upplifi sig sem eiganda fiskveiðiauðlindarinnar; að hún geti haft nokkur áhrif á nýtingu hennar eða að hún eigi nokkra aðkomu að atvinnugreininni.

 

Auðlindasjóður

Á síðustu árum hafa verið gerðar atlögur að því að breyta kvótakerfinu í átt til frekari opnunar. Settar hafa verið upp sátta- og samráðsnefndir sem því miður hafa ekki haft erindi sem erfiði, og í raun litlu skilað öðru en vangaveltum og kröfu um að sátt ríki um kerfið. Vandinn er bara sá að krafan um sáttina hefur hingað til verið krafa útgerðarmanna um sátt á þeirra forsendum – ekki þjóðarinnar.

Samfylkingin hefur þá sýn á sjávarútvegsmálin að fiskveiðiauðlindin sé og eigi að vera þjóðareign; að við nýtingu hennar verði farið að kröfum um sjálfbærni, samfélagslega hagkvæmni og ábyrgð. Við viljum að um þessa auðlindanýtingu gildi hið sama og þarf að gilda almennt um nýtingu þjóðarauðlinda: Að farið sé að samræmdri auðlindastefnu; að tryggt sé að þjóðin njóti sanngjarns afraksturs eða arðs af nýtingunni; og að virtar séu grundvallarkröfur um atvinnufrelsi, jafnræði og nýliðunarmöguleika.

Þessu tengist hugmyndin um auðlindasjóð sem undirrituð hefu talað fyrir. Á Íslandi er enginn auðlindasjóður, sem þó þyrfti að vera, til að taka við afrakstri þjóðarauðlinda. Grunnhugmyndin er sú að auðlindir landsins séu allar lýstar þjóðareign og að nýting þeirra sé ýmist alfrjáls (líkt og ferðaþjónustan er nú) eða leigð út eftir opnum leiðum og leikreglum á grundveli útboða (í stað þess að vera úthlutað til afmarkaðs hóps eins og er t.d. í sjávarútveginum). Þeir sem nýta auðlindirnar fái til þess tímabundið leyfi – á grundvelli skilyrtra nýtingarsamninga – og greiði sanngjarnt gjald til samfélagsins. Þetta auðlindagjald renni í sérstakan auðlindasjóð sem hefði það verkefni að byggja upp innviði viðkomandi atvinnugreina og rannsóknir í þeirra þágu.

Með stofnun auðlindasjóðs og samræmdri auðlindastefnu væru atvinnuvegir landsins kallaðir til samfélagslegrar ábyrgðar af nýtingu þjóðarauðlindanna. Sú hugsun hefur því miður ekki ráðið för við ákvarðanir og tillöguflutning sem lýtur að auðlindanýtingu enn sem komið er.  Fyrir vikið stöndum við nú í þeim sporum að hafa harðlæst kvótakerfi sem litlu skilar hlutfallslega inn í þjóðarsjóðinn eftir að ríkisstjórnin ákvað að lækka veiðileyfagjöldin sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði áður komið á.

 

Uppboð aflaheimilda

Samfylkingin hefur allt frá stofnun haft uppboð aflaheimilda á sinni stefnuskrá. Á síðasta landsfundi var samþykkt tillaga um að taka frá að minnsta kosti 20 þúsund þorskígildistonn af fiskveiðiheimildum og bjóða út á markaði, sem fyrsta skref í að koma á markaði með veiðikvóta í öllum kvótasettum fiskitegundum.Tillagan bindur ekki hendur þingmanna flokksins til að beita sér fyrir enn viðameiri aðgerðum til að þjóðin fái réttlátan arð af fiskveiðiauðlind sinni eins og þar segir, en með þessu móti mætti tryggja að útgerðir án kvóta geti þrifist og þannig um leið bætt möguleika til atvinnu í sjávarbyggðum sem misst hafa frá sér kvóta. Fyrirkomulagið myndi auka verulega tekjur þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni, nýliðun í sjávarútvegi yrði auðveldari vegna tryggs framboðs veiðiheimilda til leigu.

Fáum dylst lengur þörfin á því að stíga einhver markverð skref til þess að brjóta upp hlekki kvótakerfisins og þróa þess í stað eðlilegar leikreglur sem taka mið af samfélagslegum þáttum, atvinnufrelsi og þróun byggðar í landinu. Uppboð tiltekins hluta aflaheimilda gæti einmitt verið fyrsta skrefið í þá átt.

Fleira þarf þó að koma til, til dæmis:

  • tryggja eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, með sérstöku stjórnarskrárákvæði.
  • uppfylla skilyrði um jafnan aðgang að veiðiheimildum, atvinnufrelsi og nýliðun í sjávarútvegi. Úthlutunaraðferðin skiptir þar meginmáli. Tímabundnir nýtingarsamningar til 15-20 ára gætu verið ásættanleg leið varðandi þann kvóta sem nú er fastur í stóra kerfinu, ef fyrning á kerfinu fylgir í kjölfarið, og ef jafnhliða verður settur á opinn markaður fyrir uppboð með aflaheimildir til hliðar við nýtingasamningana svo að nýir aðilar komist inn í greinina.
  • efla og styrkja strandveiðarnar sem frjálsa atvinnugrein.
  • skilja milli veiða og vinnslu og bjóða allan óunninn afla á innlendan markað. Að þessu mætti stefna í áföngum þannig að vaxandi hluti fari á innanlandsmarkað uns t.d. 80% er náð. Markmiðið er að fiskvinnsla í landi og á sjó sitji við sama borð og búi við sambærilegt rekstrarumhverfi, og að allur afli skili sér að landi og sé nýttur í vinnslu. Breytingin gæti skapað um eitt þúsund störf.

Deilan um kvótakerfið hefur lengi verið fleinn í holdi þjóðarinnar og svo mun verða áfram ef ekki finnst ásættanleg framtíðarlausn á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunarinnar. Sú lausn þarf að tryggja samfélagslega arðsemi og um leið umhverfislega sjálfbærni af fiskveiðum, svo byggðir landsins fái dafnað og vaxið og þjóðin sé sátt við það hvernig farið er með þetta efnahagslega fjöregg okkar.

 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, alþingismaður.