Satt og ósatt, sagt og ósagt

Einar Brandsson

Fjárhagsáætlun hverrar bæjarstjórnar má að sönnu kalla stefnumótun til skemmri og lengri tíma í rekstri og framkvæmdum. Á dögunum lagði meirihluti Samfylkingar og Frjálsrar Framsóknar í bæjarstjórn Akraness fram sína aðra fjárhagsáætlun. Í fyrri umræðu í bæjarstjórn lýsti ég vissum áhyggjum mínum af áætluninni, ekki síst þeirri forgangsröðun sem hún felur í sér í framkvæmdum kaupstaðarins.

Í kjölfar fundarins urðu talsverð skrif á samfélagsmiðlum um orð mín og skoðanir á fundinum og það er af hinu góða. Verra er hins vegar að sú umræða sem fram fór um það sem ég sagði alls ekki á fundinum og skoðanir sem ég hef aldrei látið í ljós og eru ekki mínar. Einna ómerkilegust var umræðan þegar ég var sakaður um að bera ekki hag og velferð barna og starfsfólks leikskóla fyrir brjósti. Vilji minn væri að færa klukkuna aftur um 35 ár hvað þennan málaflokk varðar. Ekkert er fjarri sanni. Því er rétt að árétta um hvað umræðan í bæjarstjórn snérist.

Á síðasta kjörtímabili markaði bæjarstjórn Akraness ákveðna stefnu í uppbyggingu til næstu ára. Fyrst skal þar nefna byggingu frístundamiðstöðvar sem nú er risin. Á eftir kæmi síðan bygging fimleikahúss sem nú rís við íþróttahúsið á Vesturgötu. Þá yrði hafin uppbygging nýrra mannvirkja á Jaðarsbökkum og fyrst yrði þar í röðinni íþróttahús er nýtast mun Grundaskóla. Um þessa forgangsröðun var fullkomin sátt í bæjarstjórn enda undirbúningurinn vandaður.

Þegar fyrsta fjárhagsáætlun núverandi meirihluta leit dagsins ljós var horfið frá þessari vönduðu forgangsröðun og komin var framarlega í röðina bygging nýs leikskóla þrátt fyrir að niðurstaða fyrirhugaðs skólaþings liggi ekki ennþá fyrir líkt og rætt var um að væri nauðsynleg forsenda slíkrar ákvörðunar. Í drögum að fjárhagsáætlun fyrir árin 2020-2023 sem lögð var fram á dögunum er nauðsynleg uppbygging á Jaðarsbökkum horfin en einblínt á áðurnefnda byggingu nýs leikskóla og ekki síst vekur athygli að hann skuli eiga að rísa í Skógarhverfi. Rök meirihlutans fyrir þeirri staðsetningu er sú að þar sé tilbúin lóð og ekki sé tími til þess að finna aðra staðsetningu. Meintur tímaskortur er talinn réttlæta að kasta til höndum við staðarval. Á áðurnefndum bæjarstjórnarfundi kom ég því á framfæri á ég hefði af því talsverðar áhyggjur að þarna væri meirihlutinn í þann mund að taka ranga ákvörðun með breyttri forgangsröðun og ekki síst staðarval leikskólans. Fyrir þeirri skoðun minni færði ég  eftirtalin rök:

Í fyrsta lagi þá er áætlað að veturinn 2020-2021 fækki um 23 börn í þeim árgöngum sem tryggja skal leikskólavist.

Í öðru lagi þá er í dag einungis um 17% af leikskólaplássum í því sem við köllum í hverfi Brekkubæjarskóla á móti 83% í hverfi Grundaskóla. Þetta er í hrópandi ósamræmi við núverandi búsetu barna því 42% af börnum búa í dag í hverfi Brekkubæjarskóla og 58% í hverfi Grundaskóla. Með byggingu nýs leikskóla í Skógarhverfi skekkist þessi mynd því enn frekar.

Í þriðja lagi er ljóst ef þessi vilji meirihluta bæjarstjórnar Akraness með byggingu leikskóla í Skógarhverfi nær fram að ganga verða 58% af leikskólaplássum á litlum bletti bæjarfélagsins. Sú ráðstöfun kallar á umtalsverða umferðaraukningu um Ketilsflöt og Asparskóga. Í uppsiglingu er því mikil umferðarteppa þegar öll umferð Skógarhverfis og hluti umferðar frá Flatarhverfi fer um Ketilsflöt á sama tíma að morgni og síðdegis. Við eigum að láta önnur sveitarfélög um umferðarteppur.

Í fjórða lagi sú staðreynd að rísi nýr leikskóli í Skógarhverfi verður samhliða byggingu hans að koma vegtenging út á þjóðveg frá Skógarhverfi. Í fjárhagsáætlun sjást þess ekki merki að svo verði næstu árin enda mun sú framkvæmd afar kostnaðarsöm, tímafrek og þarf að vinnast í samvinnu og með vilja Vegagerðarinnar.

Í fimmta lagi munu tafir á uppbyggingu Jaðarsbakkasvæðis kalla á umfangsmikið viðhald og endurbætur á húsnæði sem síðar á að rífa samkvæmt tillögum starfshóps um þá uppbyggingu. Er þá kastað fyrir róða áðurnefndri byggingu nýs íþróttahúss m.a. fyrir Grundaskóla þar sem væri ný og betri aðstaða fyrir kennara og nemendur auk nýrra búningsklefa sem nýtast íþróttasvæðinu í heild sinni og tryggja um leið að heimaleikir í efstu deildum knattspyrnunnar verði leiknir hér á Akranesi.

Með þessum röksemdum tel ég að næsta leikskóla, þegar hans verður þörf, eigi að reisa í hverfi Brekkubæjarskóla. Hins vegar á þegar á næsta ári að hefja vel undirbúna uppbyggingu Jaðarsbakkasvæðisins og hlúa þannig að starfsfólki og nemendum í Grundaskóla. Uppbygging skólamannvirkja hvort sem það á við um leik- eða grunnskóla þarf að fara fram af yfirvegun og rökhyggju. Að hlaupa til slíkra framkvæmda eru ekki ásættanlega vinnubrögð hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra sjónarmiða.

Það er mikilvægasta hlutverk okkar bæjarfulltrúa að fara vel með fjármuni okkar og taka ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Bæjarfulltrúar og íbúar Akraness þurfa ekki ávallt að vera sammála. Við megum og eigum að hafa skoðanir og láta þær í ljós. Ekki síst þegar við teljum að stefnt sé í ranga átt.

Ég frábið mér hins vegar að mér séu gerðar upp skoðanir. Það er öllum vandalaust að kynna sér málin áður en felldir eru dómar um menn og málefni á samfélagsmiðlum. Ég er ávallt reiðubúinn að ræða við fólk, hvort sem það er sammála mér eða ekki, þannig að það fái frá fyrstu hendi hverjar mínar skoðanir eru og af hverju ég hef þær.

Þó ég sé rúmlega miðaldra íhaldskarlmaður þá er mér nú sem áður annt um velferð allra íbúa á Akranesi og allar mínar ákvarðanir/skoðanir miðast við það. Einmitt þess vegna hef ég verið ákafur talsmaður þess að gerðar séu áætlanir fram í tímann. Höldum okkur síðan við þessar áætlanir. Einungis vel ígrunduð nauðsyn réttlætir breytingu þeirra. Aðeins þannig tryggjum við ábyrga meðferð skattfjár öllum bæjarbúum til heilla.

 

Einar Brandsson

Höf. er bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi

Fleiri aðsendar greinar